Rífandi gangur í Háskóla Íslands
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og forseti Félagsvísindasviðs
„Ég er búinn að starfa við Háskóla Íslands í 28 ár - og það hefur aldrei verið skemmtilegra. Hér iðar allt af lífi. Krafturinn er ótrúlegur. Rannsóknir blómstra, kennsluhættir batna og ytri umgjörð er að verða með því glæsilegasta sem gerist í heiminum,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og forseti Félagsvísindasviðs. „Kennarar Háskólans eru margir fremstu sérfræðingar á sínum sviðum og flestir hafa lokið doktorsprófi við virta erlenda háskóla, austan hafs og vestan.“
Í Háskólanum er fjallað um heillandi viðfangsefni vísindanna á frjóan og gagnrýninn hátt og krafist er virkrar þátttöku nemenda. „Þetta er blanda sem virkar - enda þekkt uppskrift frá bestu háskólum heims. Við gerum miklar kröfur til kennara og nemenda. Án þess næst aldrei árangur sem máli skiptir. Við viljum að nemendur okkar tileinki sér öguð vinnubrögð og öðlist staðgóða þekkingu, skarpan skilning, frumkvæði og kunnáttu í mannlegum samskiptum.“
Ólafur segir að nemendur frá Háskóla Íslands hafi lagt grunninn að íslensku þekkingar- og þjónustusamfélagi. „Ég get nefnt örfá dæmi úr minni eigin grein, stjórnmálafræði. Nemendur þaðan hafa haslað sér völl hjá alþjóðastofnunum, félagsþjónustu, menntastofnunum, fjölmiðlum, heilsugæslu, utanríkisþjónustunni, auglýsinga- og upplýsingabransanum, Alþingi og ríkisstjórn, ráðgjafarfyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum – og svo auðvitað í háskólum og rannsóknarstofnunum. Sams konar sögu mætti segja af öðrum fræðigreinum.“
Titill
Ólafur Þ. Harðarson
„Ég er búinn að starfa við Háskóla Íslands í 28 ár - og það hefur aldrei verið skemmtilegra. Hér iðar allt af lífi. Krafturinn er ótrúlegur. Rannsóknir blómstra, kennsluhættir batna og ytri umgjörð er að verða með því glæsilegasta sem gerist í heiminum.“
Ólafur bendir á að nú standi yfir bylting í húsnæðismálum Háskólans og að nýtt skipulag skólans muni efla bæði kennslu og rannsóknir. „Í sumar verður skólanum skipt í fimm öflug fræðasvið, en innan þeirra verða 25 deildir. Nýja Háskólatorgið er þegar orðið kjarni lifandi háskólasamfélags. Það er beintengt við Gimli, Odda og Lögberg, þar sem Félagsvísindasviðið er með glæsilega aðstöðu. Heilbrigðisvísindasvið mun eflast í nýjum háskólasjúkrahússbyggingum við Hringbraut.
Nýir Vísindagarðar munu gagnast verkfræði- og náttúruvísindasviði og öðrum sviðum – auk þess að efla enn tengslin við atvinnulífið. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að Menntavísindasvið flytjist frá Stakkahlíð í nýtt hús á háskólasvæðinu innan fimm ára og á teikniborðinu eru nýjar byggingar fyrir Hugvísindasvið. Háskóli Íslands verður alvöru „campus“ á næstu árum – og akademía í fremstu röð. Við erum rétt að byrja!“