Header Paragraph

Spratt upp eftir mikla vinnu í háskólanum

Image
Guðmundur Gunnlaugsson, markaðsstjóri Clöru

Clara varð til þegar nokkrir háskólanemar tóku sig saman og ákváðu að stofna hugbúnaðarfyrirtæki. Fyrirtækið er komið á erlendan markað, en sér einnig fyrirtækjum á Íslandi fyrir svokölluðum Vaktara. Með Vaktaranum geta fyrirtækin fylgst með hvað er sagt um þau á netinu og í kjölfarið bætt ímynd sína.

„Við höfum verið að fræða markaðinn um hversu mikilvægt það er að hlusta og fylgjast með netinu. Óánægður viðskiptavinur tjáir sig ekki við einn eða tvo, hann tjáir sig við hundruð – ef ekki þúsundir,“ segir Guðmundur Gunnlaugsson, einn starfsmanna og stofnenda frumkvöðlafyrirtækisins Clöru, um áhrif netsins á ímynd fyrirtækja.

Háskólanámið hjálpaði mikið

Clara er hugbúnaðarfyrirtæki og hefur að markmiði að þróa textagreiningarkerfi sem hjálpar fyrirtækjum að sjá hvað fólk segir um þau á netinu. Fyrirtækið var stofnað árið 2008 af Guðmundi Gunnlaugssyni, Hauki Hólmsteinssyni, Gunnari Hólmsteini Guðmundssyni og Jóni Eðvaldi Vignissyni, en strákarnir eru allir á aldrinum 24-26 ára. Á þessum tíma voru þeir allir í námi við Háskóla Íslands og höfðu unnið að hugmyndinni í hálft ár. „Fyrirtækið er að hluta til komið út frá mikilli vinnu sem búið var að inna af hendi í háskólanum, aðallega af Jóni Eðvaldi sem er arkitektinn á bak við kerfið. Clara er í rauninni lítið, ungt sprotafyrirtæki sem einbeitir sér að því að greina texta.“

Guðmundur segir námið í háskólanum hjálpa mikið til við vinnuna sem fer fram í fyrirtækinu. „Þetta á sérstaklega við um markaðs- og söluhliðina. Við höfðum til dæmis ekki neina reynslu af því hvernig átti að fara inn á erlendan markað og hvernig væri gott að markaðsetja sig þar. Námið hefur klárlega skilað, af minni hálfu, mjög miklu. Við vorum mjög heppnir með hversu margt var hægt að nýta úr náminu.Við höfum einnig fengið styrki frá Háskóla Íslands og góðan stuðning frá kennurum og stjórnendum þar.“

Vinalegt, en pínulítið nördalegt

Þrettán manns starfa hjá Clöru og eru langflestir í fullu starfi. „Fæstir átta sig á að Clara stendur fyrir Collective Large Scale Affect Reasearch and Analysis,“ segir Guðmundur þegar hann er spurður út í nafn fyrirtækisins. „Þegar við vorum að byrja vorum við óvissir um hvernig við vildum leggja út nafnið. Við vildum ekki nafn sem afmarkaði okkur við eitthvað eitt ákveðið, því við vissum að fyrirtækið ætti eftir að þróast og verða að einhverju í framtíðinni. Við ákváðum því að hafa nafnið hlutlaust að því leyti að það myndi ekki segja of mikið um hvað við gerum. Hins vegar vildum við líka að nafnið gæfi ákveðna vísbendingu. Þannig komum við niður á þá hugmynd að þetta ætti að vera skammstöfun.“ En skammstöfun Clöru vísar til þess að fyrirtækið rannsaki hvað fólki finnst um vörur og vörumerki. „Þetta er vinalegt nafn, en samt pínu nördalegt – eins og þemað í þessu fyrirtæki.“

Titill
Guðmundur Gunnlaugsson

Text

„Við höfum verið að fræða markaðinn um hversu mikilvægt það er að hlusta og fylgjast með netinu. Óánægður viðskiptavinur tjáir sig ekki við einn eða tvo, hann tjáir sig við hundruð – ef ekki þúsundir.“

Image
Image
Guðmundur Gunnlaugsson, markaðsstjóri Clöru

Skoða allt íslenska netið

Fyrsta varan sem teymi Clöru þróaði, var svokallaður Vaktari. „Vaktarinn skoðar í rauninni allt netið, í þessu tilviki allt íslenska netið. Við miðum sérstaklega inn á umræðusíður, fréttasíður, bloggsíður og greinum síður þar sem aðilar koma saman og tala um fyrirtæki og vörumerki. Síðan birtum við umræðuna í viðmóti sem er aðgengilegt á vefnum,“ segir Guðmundur. Fyrirtæki geta í kjölfarið fengið aðgang að viðmótinu, slegið inn leitarorð og fengið greiningu á umræðunni. Þau sjá hvar talað er um fyrirtækið, hvað er sagt og hvernig umræðan hefur þróast. „Fyrirtækin geta leitað að hverju sem er. Það getur verið vörumerkið sjálft, vörurnar, þjónustan, samkeppnisaðilar eða eitthvað málefni sem er tengt líðandi stund.“

Guðmundur segir Clöru hafa þróað sérstakar vefköngulær sem hafa það verkefni að fara út á netið og safna greinum. Þetta gera þær á hverjum degi og efnið er komið til skila á innan við klukkutíma frá birtingu helstu miðla. „Á smærri miðlum, þá gengur þetta aðeins hægar – en þó er tryggt að það berist samdægurs. Flest kemur til okkar á innan við klukkutíma. Ef það birtist frétt um ákveðið vörumerki sem fyrirtæki fylgist með, þá er það komið nánast strax inn í kerfið.“ En kerfið er sjálfvirkt og hugbúnaður sér um greininguna. „Þetta er mjög fljótt að gerast. Við erum að taka í kringum 20.000 greinar á dag af íslenska netinu og síðan við byrjuðum höfum við safnað yfir 10 milljónum færslna.“

Vaktaranum hefur verið vel tekið á Íslandi. Guðmundur segir hins vegar byrjunina hafa verið frekar hæga og að ástæðan hafi verið að lausnin sem boðið var upp á hafi ekki verið sjálfsögð. Ekki hafi verið lögð mikil áhersla á netið í markaðstarfi fyrirtækja. Undanfarið hefur hins vegar eftirspurnin verið mikil. „Þetta hefur alltaf verið ákveðið svarthol og fólk horft framhjá því að það sem sagt er á netinu hafi áhrif. Það er mikilvægt að átta sig á að umræðan getur haft skaðleg áhrif, en sömuleiðis að það er mikið af góðum umsögnum líka,“ segir Guðmundur og telur að tilkoma samfélagsvefja eins og Facebook hafi keyrt upp eftirspurnina. „Fyrirtæki eru að átta sig á því að þetta er eitthvað sem þau þurfa til að fylgjast með.“

Komin á erlendan markað

Tveir starfsmenn Clöru starfa í San Fransisco um þessar mundir. Guðmundur segir hafa gengið ágætlega að koma sér á erlendan markað, fyrst um sinn hafi þeir sett sig í samband við fyrirtækin og reynt að hitta á rétta fólkið. „Núna erum við að sjá afraksturinn af þeirri vinnu og eftirspurnin fer vaxandi. Með þessu förum við nær viðskiptavininum og leitum að meira fjármagni. Við byrjuðum að selja vöruna okkar í Bandaríkjunum í október á síðasta ári, vöru sem að miðar inn á tölvuleikjafyrirtæki. Hún hjálpar þeim að skilja hvað fólk hefur að segja í samfélögum sínum. Langflest tölvuleikjafyrirtæki eru í Bandaríkjunum, þannig að við ákváðum að fara þangað fyrst.“

Þrátt fyrir að hafa haldið að þeir væru fyrstir með hugmyndina, þá kom annað í ljós. „Þú ert aldrei einn með þína hugmynd. Það er þó nokkur samkeppni á þessum markaði og mörg fyrirtæki sem gera sambærilega hluti. En eins og gengur og gerist í svona rekstri, þá reynir þú að finna einhverja nálgun – annaðhvort tæknilega eða markaðslega – þar sem þú staðsetur þig. Við vinnum að því á hverjum einasta degi.“

Framtíð Clöru björt

Guðmundur segir markaðinn ungan og að ekki sé langt síðan að fyrirtæki fóru að textagreina netið sjálfvirkt, þ.e. með hugbúnaði sem greinir texta. „Það er skiljanlegt að margir séu að hasla sér völl á þessum markaði, en hann á eftir að minnka. Fyrirtæki eiga eftir að fara á hausinn og þau verða keypt. Það eru því spennandi tímar framundan. Við verðum bara að sjá hvar við verðum – ég hef fulla trú á að við verðum eitt af þessum fyrirtækjum sem lifir þetta af.“ Hann ræðir í kjölfarið bjarta framtíð Clöru: „Markmiðið er að gera Clöru að vel þekktu og leiðandi fyrirtæki í textagreiningariðnaðinum og að það verði talið eitt af þeim frambærilegu fyrirtækjum sem koma frá Íslandi. Svo er bara að byggja upp áhugavert og flott starfsumhverfi svo við löðum að okkur hæfileikaríkasta fólkið. Við viljum líka veita því eins mikinn stuðning og við getum.“ segir Guðmundur og vonar að eftir 3-4 ár verði Clara orðin 50-100 manna fyrirtæki með skrifstofur víðsvegar um heiminn. „Framtíðin er björt ef við höldum rétt á spilunum og allt gengur vel.“

Greinarhöfundur: Eyrún Eva Haraldsdóttir.