2005

Einkaleyfi fyrir tilteknar rannsóknaniðurstöður

Ný lög taka gildi um uppfinningar starfsmanna sem styrkja stöðu Háskóla Íslands og þeirra starfsmanna hans sem sækja um einkaleyfi fyrir tilteknum rannsóknaniðurstöðum. Háskólinn öðlaðist með þessu tilkall til hagnýtingarréttar á uppfinningum starfsmanna sinna. Starfsfólk háskólans hefur frá upphafi til ársloka 2009 fengið skráð tæplega 90 einkaleyfi fyrir uppfinningar og hugverk sín.

Stúdentamiðlun

Atvinnumiðstöð stúdenta og húsnæðis-, kennslu- og barnagæslumiðlun SHÍ sameinast í Stúdentamiðlun sem Félagsstofnun stúdenta rekur. Markmið Stúdentamiðlunar er að auðvelda námsmönnum leit að starfi og auðvelda atvinnurekendum að finna fólk í störf. Stúdentamiðlunin er að mestu gagnvirk og milliliðalaus, þ.e. námsmenn skrá sig á vefinn og atvinnurekendur leita sjálfir í gagnagrunninum. Þá geta atvinnurekendur einnig auglýst eftir starfsfólki á vefnum og námsmenn sótt um laus störf.

ASÍS – Asíusetur Íslands

ASÍS – Asíusetur Íslands formlega stofnað 16. desember á Akureyri. Hlutverk ASÍS felst einkum í því að stuðla og standa að rannsóknum og menntastarfsemi sem snýr að Asíu. Með starfseminni er markmiðið að efla áhuga íslensks menntafólks á álfunni og þar með auka skilning Íslendinga á henni almennt. Asíusetur Íslands er samstarfsstofnun Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ

Dr. Kristín Ingólfsdóttir tekur við embætti rektors og formanns háskólaráðs Háskóla Íslands, þann 1. júlí þetta ár. Kristín starfaði áður sem prófessor við lyfjafræðideild skólans. Kristín er fyrsti kvenrektor Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands tekur þátt í vísindavöku

Vísindavaka haldin í fyrsta skipti. Vísindavaka er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í margvíslegum vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á vísindavöku en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á degi evrópska vísindamannsins sem er ávallt haldinn síðasta föstudag í september. RANNÍS stendur fyrir vísindavöku á Íslandi.

Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands

Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005 en þá voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins með það að markmiði að veita stúdentum í rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands styrki. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir þessa formbreytingu fór fram árið 2006.

Á myndinni eru styrkþegar 2008 með leiðbeinendum. Frá úthlutunarhátíð 12. mars 2008. Ljósmyndari: Gunnar Geir

Image
Styrkþegar Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands með leiðbeinendum. Frá úthlutunarhátíð 12. mars 2008

Japanshátíð í Háskóla Íslands haldin

Japanshátíð haldin í fyrsta sinn í Háskóla Íslands. Hún hefur verið haldin í janúar ár hvert síðan. Hátíðin er skipulögð í samvinnu sendiráðs Japans á Íslandi og nemenda í japönsku máli og menningu á Hugvísindasviði.