Header Paragraph

Tæknigarður hefur fyllilega staðið undir væntingum

Image
Tæknigarður. Myndin birtist í Handbók stúdenta 1994-1996.

Sigmundur Guðbjarnason, prófessor emeritus og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, reifar sögu Tæknigarðs.

Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að hvetja til nýsköpunar í atvinnulífinu og að stofna sprotafyrirtæki til að efla flóru fyrirtækja í framtíðinni. Í því sambandi er vert að minnast stofnunar Tæknigarðs við Háskóla Íslands fyrir 20 árum.

Hugmyndin að stofnun Tæknigarðs fyrir 20 árum var ekki ný því tæknigarðar höfðu reynst vel víða erlendis. Bygging slíks tæknigarðs á Íslandi var hins vegar eitthvað nýtt. Aðdragandinn var sá að þegar nýr rektor tók til starfa í september 1985 var ákveðið að minnast 75 ára afmælis Háskólans 17. júní 1986 og nota tækifærið til að kynna starfsemi Háskólans og leita stuðnings við uppbyggingu og þróun á háskólastarfseminni.

Háskóli Íslands var þá sem nú metnaðarfullur og framsækinn. Meðal verkefna var að afla stuðnings við byggingu tæknigarðs, í raun tveggja tæknigarða. Hlutverk tæknigarðanna var að vera hreiður fyrir nýsköpun og veita þekkingu og tækni með skjótari hætti út í atvinnulífið. Fór rektor til borgarstjóra Davíðs Oddssonar og leitaði stuðnings. Davíð Oddsson borgarstjóri tók erindinu vel og sýndi þann stórhug og þá framsýni sem svo oft hefur einkennt hann. Borgin lagði til hlutafé í Tæknigarð og veitti lán til 20 ára á 2% vöxtum og endurgreiðir Háskólinn lánið með leigutekjum og eignast síðan húsið. Raunvísindastofnun hafði aflað fjár til að byggja hæð ofan á eigið hús en þegar til átti að taka þótti hagkvæmara að leggja féð í viðbótarhæð við Tæknigarð.

Annar tæknigarður var byggður á Keldnaholti 1989, Efna- og líftæknihúsið, og var því ætlað að vera vettvangur fyrir rannsóknir og þróunarstarfsemi í líftækni sem þá var að þróast hröðum skrefum.

Tæknigarður var fljótlega fullskipaður af sprotafyrirtækjum og ýmsum stofnunum Háskólans. Tæknigarður átti að vera vettvangur nýrra hugmynda og tækifæra í upplýsinga- og tölvutækni því framfarir voru örar í tölvutækni og sjálfvirkni á þessum tíma. Jafnframt var Reiknistofnun Háskólans og Endurmenntunarstofnun Háskólans til húsa í Tæknigarði.

Titill
Tæknigarður

Text

Tæknigarður var tekinn í notkun árið 1988. Tæknigarður var fljótlega fullnýttur af sprotafyrirtækjum og ýmsum stofnunum Háskólans. Tæknigarður átti að vera vettvangur nýrra hugmynda og tækifæra í upplýsinga- og tölvutækni því að framfarir voru örar í tölvutækni og sjálfvirkni á þessum tíma. Jafnframt var Reiknistofnun háskólans og Endurmenntunarstofnun háskólans til húsa í Tæknigarði.

Í afmælisriti, sem gefið var út í tilefni 20 ára afmælis Tæknigarðs, er getið um 77 fyrirtæki sem þar hafa starfað. Af þeim eru um 30 fyrirtæki enn starfandi, um 30 hafa hætt starfsemi og önnur hafa sameinast öðrum fyrirtækjum. Arkitektar Tæknigarðs eru Ormar og Örnólfur.

Image
Image
Tæknigarður. Myndin birtist í Handbók stúdenta 1994-1996.

Í afmælisriti sem gefið var út í tilefni 20 ára afmælis Tæknigarðs er getið um 77 fyrirtæki sem starfað hafa í Tæknigarði. Af þeim eru um 30 fyrirtæki enn starfandi, um 30 hafa hætt starfsemi og önnur hafa sameinast öðrum fyrirtækjum.

Efna- og líftæknihúsið á Keldnaholti var lengi vel aðstaða fyrir bæði sprotafyrirtæki, t.d. Genís, og ýmsar rannsóknastofnanir, m.a. Hafrannsóknastofnun en nú er þar til húsa sprotafyrirtækið Orf líftækni.

Stofnuð var Rannsóknaþjónusta Háskólans snemma árs 1986 til að miðla upplýsingum til fyrirtækja og stofnana utan Háskólans og til að auðvelda tengsl þeirra við háskólakennara og veita ýmsa þjónustu. Rannsóknaþjónustan hefur verið mjög virk og annast nú rekstur Tæknigarðs. Jafnframt varð Rannsóknaþjónustan farvegur fyrir erlenda styrki til Íslendinga til menntunar og starfsþjálfunar erlendis.

Metnaður Háskólans var og er mikill og var markvisst unnið að því að bæta rannsóknarumhverfið á Íslandi. Þau störf voru unnin í samvinnu við Rannsóknaráðs ríkisins, sem síðar varð Rannsóknarráðs Íslands og loks Vísinda- og tækniráð. Innleidd voru nútímaleg vinnubrögð og verkefnabundnar rannsóknir til að fá sem besta og markvissasta rannsóknavinnu fyrir takmarkað rannsóknafé.

Rannsóknasjóður Rannsóknaráðs ríkisins var stofnaður 1985 og var hlutverk hans einkum að styrkja hagnýtar rannsóknir. Þegar Rannsóknarráð Íslands var stofnað 1994 voru Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins sameinuð í hið nýja ráð. Nýir starfshættir voru innleiddir við mat á umsóknum um styrki og úthlutun styrkja. Vinnubrögðin eru mjög mikilvæg í fámennu vísinda- og tæknisamfélagi þar sem vanhæfi er algengt þegar vinir eða samstarfsmenn eða þá keppinautar eiga að meta styrkumsóknir.

Næsti áfangi í baráttunni fyrir betra rannsóknaumhverfi var nýtt afkastahvetjandi launakerfi sem var þróað í samvinnu við Kjaranefnd. Þetta launakerfi var tekið í notkun 1998 og hafði það mikil og jákvæð áhrif enda jukust afköstin þá ár frá ári. Það var sem sagt sótt fram á öllum vígstöðvum og árangurinn var aukinn eldmóður og aukin vinnugleði, aukin nýsköpun á öllum fræðasviðum.

Nú er þörf fyrir aukna atvinnustarfsemi, hvort heldur þjónustu eða framleiðslu og er fólk hvatt til að stofna sprotafyrirtæki. Ef til vill væri hollráð að læra af frumkvöðlum sem stofnað hafa sprotafyrirtæki og barist áfram þrátt fyrir mótbyr, sumir hafa náð landi en aðrir ekki.

Ævintýrin hafa tekið á sig ýmsar myndir þegar við leitumst við að skapa auðlindir úr innlendu hráefni eða hugviti og hátækni. Við hljótum að nýta allar okkar auðlindir betur og efla einnig enn frekar þá nýsköpun sem fram fer í skólum landsins og skóla lífsins. Unnt er að efla þessa þróun með nýsköpunarhreiðrum og er Tæknigarður gott dæmi um slíkt hreiður sem hefur skilað mjög góðum árangri.

Tæknigarður hefur fyllilega staðið undir væntingum og munu fleiri slík frumkvöðlasetur verða byggð. Háskóli Íslands mun vera þar í fararbroddi framvegis sem hingað til.