Tilefni til verulegra breytinga á skólakerfinu
Tilefni er til verulegra breytinga á skólakerfinu með endurskoðun á kennslu og námsefni. Nýjar hugmyndir, ný viðhorf og nýtt verklag þurfa einnig að eiga nægilega greiða leið inn í menntastarf, segir Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs. Ásamt samstarfsfólki sínu mun hann nú í september opna heim menntavísindanna fyrir almenningi en september er afmælismánuður Menntavísindasviðs á aldarafmæli Háskóla Íslands.
Jón Torfi hefur unnið að menntarannsóknum og -stefnumótun í yfir 30 ár en fyrstu skref hans í háskólanámi bentu þó ekki til þess að hann hygðist feta þá leið. Hann lauk BS-prófi í eðlisfræði frá Edinborgarháskóla og MS- og doktorsprófi í sálfræði frá Reading-háskóla. Það liggur því beint við að spyrja í upphafi hvers vegna eðlisfræði- og sálfræðimenntaður maður hafi ákveðið að helga sig menntarannsóknum
„Ég ólst upp við umræðu um uppeldi og menntun í foreldrahúsum og smám saman toguðu menntamálin meira í mig og þess vegna skipti ég að loknu BS-prófi í eðlisfræði yfir í sálfræði sem snerist um nám og hugsun, þótt ég hefði einnig verið búinn að fá pláss í doktorsnámi í eðlisfræði. Mér finnst menntun heillandi viðfangsefni þótt mér gangi ekkert alltof vel að mennta sjálfan mig. En það er enn tími til stefnu,“ segir Jón Torfi.
Að lokinni tíu ára dvöl ytra kom Jón Torfi til Íslands árið 1977 og hóf þá að kenna bæði við Háskóla Íslands og Kennaraháskólann. Hann varð prófessor í uppeldis- og menntunarfræði árið 1993 og þegar skólarnir tveir sameinuðust um mitt ár 2008 tók hann við starfi forseta við eitt af fimm sviðum skólans, Menntavísindasvið.
Aðspurður hvort hann telji sameiningu skólanna hafa verið jákvætt skref játar Jón Torfi því en bætir við: „En samt sem áður tel ég að margvísleg tengsl starfsmenntunar við starfsvettvang sinn ættu að vera enn meiri og frjórri heldur en háskólaumhverfið gerir ráð fyrir. Það væri báðum aðilum til hagsbóta. En þetta er umhugsunarefni fyrir allar starfsmenntagreinar háskólans.“
Skortur á sambandi milli rannsókna og starfsvettvangs
Stór hluti af starfi háskóla felst í rannsóknum og margs konar nýsköpun í þágu samfélagsins. Aðspurður um vaxtarsprota í nýsköpun á Menntavísindasviði segir Jón Torfi að þeir séu margir og vel sýnilegir. Innan sviðsins starfi fjölmargar rannsóknareiningar og á þeirra vegum séu unnin mjög áhugaverð rannsóknarverkefni.
„Á Menntakviku, ráðstefnu Menntavísindasviðs, nú í lok september verða yfir 50 málstofur, 4 eða 5 erindi á hverri. Málstofurnar snerta flestar hliðar uppeldis- og menntamála og sýna gríðarlega grósku og kraft í menntarannsóknum,“ bætir hann við.
Aðspurður segir hann þó að skortur sé á rannsóknum á ýmsum sviðum menntavísinda.
„Mér finnst sárlega vanta rannsóknir sem snerta fullorðinsfræðslu, háskólanám, frístundir, vinnustaðanám og starfsþróun, svo mikilvæg dæmi séu tekin. En við þurfum ekki að rannsaka allt frá grunni á Íslandi. Í flestum tilvikum glímum við við sömu vandamál og fáum sömu mynstur og aðrir í niðurstöðum okkar. En stærsta brotalömin að mínu mati hvað snertir rannsóknir á menntamálum er visst sambandsleysi rannsóknanna við starfsvettvang. Mér finnst nýjar hugmyndir, ný viðhorf og nýtt verklag ekki eiga sér nægilega greiða leið inn í menntastarf og ég efast um að við hlustum nægilega eftir hugmyndum eða áhyggjum vettvangsins. Mikilvæg rök fyrir að gera rannsóknir hér á landi eru einmitt sú kvika og gerjun sem rannsóknir gætu og ættu að skapa, m.a. í öllum geirum menntakerfisins,“ segir Jón Torfi.
Titill
Jón Torfi Jónasson
„Við búum nú við skólakerfi þar sem þeir sem ljúka prófum til starfsréttinda eru um það bil 25 ár í skóla áður en þeir hefja störf. Jafnframt vitum við að til þess að ná tökum á flóknum verkefnum er skynsamlegt að flétta saman nám og raunverulegt starf á starfsvettvangi. Þar að auki verða breytingar á svo mörgum sviðum svo hraðar að skilvirk endurnýjun allra starfa verður að eiga sér stað.“
Lenging kennaranáms í takt við annað fagnám
Á það hefur oft verið bent að starf kennarans sé ekki metið að verðleikum og laun til að mynda ekki í samræmi við ábyrgð. Nýleg kjarabarátta leikskólakennara naut hins vegar víðtæks stuðnings í samfélaginu og þar sést hugsanlega merki um viðhorfsbreytingu. Jón Torfi telur þó að viðhorfsbreytingin sé varla nægilega mikil.
„Mér fannst vera samhljómur í samfélaginu eftir hrunið um að nú skyldum við snúa okkur að uppeldi og menntun og hlúa að unga fólkinu eins og okkur væri framast unnt. Liður í því væri að efla og styrkja menntakerfið. Ég tel að sá stuðningur sem leikskólakennarar fengu sé hluti af þessu og samningur um betri starfskjör beri vott um bæði efnislegan og táknrænan stuðning sem ég tel hafa verið bráðnauðsynlegan. Ég tel tilefni til að ganga lengra í þessa átt og undirstrika með kjarasamningum við kennara hver sé forgangsröðun samfélagsins í endurhæfingu sinni. Ég tel að jákvæð viðhorf mættu vera enn afdráttarlausari,“ segir Jón Torfi.
Stutt er síðan kennaranám var lengt í fimm ár og Jón Torfi telur það vera í fullu samræmi við menntunarkröfur til fjölmargra annarra stétta sem við gerum miklar kröfur til. „Ég er sannfærður um að þeir sem við felum börnin okkar, daglangt og árlangt, eigi að búa yfir mikilli þekkingu, skilningi, færni, hugmyndaauðgi og frumkvæði, en umfram allt dómgreind til að taka að sér leiðandi hlutverk í mótun þeirra á sífelldu breytingaskeiði, bæði í lífi barnanna eða unglinganna og í umhverfi þeirra. Það krefst staðgóðrar menntunar og mikils áhuga að öðlast þetta allt og á ekki síst við um þá sem móta yngstu börnin,“ segir Jón Torfi.
„Á hinn bóginn mætti velta fyrir sér, almennt, mjög langri skólagöngu fjölmargra faghópa. Við búum nú við skólakerfi þar sem þeir sem ljúka prófum til starfsréttinda eru um það bil 25 ár í skóla áður en þeir hefja störf. Jafnframt vitum við að til þess að ná tökum á flóknum verkefnum er skynsamlegt að flétta saman nám og raunverulegt starf á starfsvettvangi. Þar að auki verða breytingar á svo mörgum sviðum svo hraðar að skilvirk endurnýjun allra starfa verður að eiga sér stað. Þess vegna ætti að skipuleggja margvíslegt nám á grundvelli hugmyndar um ævimenntun en ekki hugmyndinni um grunnmenntun eins og hefðin krefst. Þetta á vitanlega við um réttindanám í ótal greinum, svo sem lögfræði, hjúkrunarfræði, arkitektúr, verkfræði, viðskiptafræði, félagsráðgjöf, kennaranámi, sálfræði, að ekki sé talað um læknisfræði sem er iðulega mun lengra nám. Í öllum slíkum greinum mætti skipuleggja námið með öðru sniði en nú er gert,“ bætir Jón Torfi við.
Menntakerfið mætti breytast meira og hraðar
Nokkuð er síðan Jón Torfi velti fyrst upp þeirri spurningu hvort háskólanám stefndi smám saman í einsleitt kerfi þar sem aðaláherslan væri á hið bóklega. Aðspurður hvort hann telji að sú þróun hafi ágerst og hvort vinna þurfi gegn henni segir Jón Torfi að háskólastarf um allan heim hafi þróast á mjög svipaðan hátt.
„Á Vesturlöndum er þó skiljanleg sú missýning að starfsnám vegi þyngra en áður í háskólastarfi; það er vegna þess að starfsmenntastofnanir eru fluttar á háskólastig og gefa því þá um hríð yfirbragð fjölbreytni og meiri áherslu á starfsmenntun. Starfsnám er almennt vinsælla en fræðilegt nám ef virðingarstaða þess er nægilega sterk. En starfsnám verður ætíð bóklegra af ýmsum gildum ástæðum; akademían tekur yfir hægt og sígandi. Ég tel að það væri þarft að endurvekja tækniskólastigið að loknum framhaldsskóla; það mundi lifa um hríð áður en það flyttist alfarið inn í háskólakerfið,“ segir hann.
Eins og ráða má af viðtalinu hefur Jón Torfi lengi velt fyrir sér þróun menntunar og skólastarfs. Hann flytur erindi í lok september þar sem hann veltir fyrir sér hvernig menntamál þróist næstu áratugina. En telur hann að menntun muni breytast á þeim tíma og er þörf á róttækum breytingum á skólakerfinu?
„Menntun hefur hingað til þróast hægt og gerir það líklega áfram. Þeir sem eru í eldri kantinum eru himinlifandi yfir því vegna þess að þá er þeim gildum og viðfangsefnum sem þeir ólust upp við haldið í heiðri. Ég tel aftur á móti að tilefni sé til verulegra breytinga, m.a. í þá átt sem nýstaðfest námskrá menntamálaráðuneytisins kallar eftir, þótt ég telji að þær verði minni en tilefni sé til. Ég er ekki viss um að margir geri sér grein fyrir hve námskráin kallar á mikla endurskoðun kennslu og námsefnis á öllum skólastigum. En auk þess vildi ég slá fleiri nýja tóna og gera jafnvel meiri breytingar en þar er ráðgert. Ég mun gera grein fyrir hugmyndum mínum í þessu efni. En á skólastarfi verða ekki róttækar breytingar þrátt fyrir að alla tíð hafi fundist flott dæmi um skýra framúrstefnu; þau er auðvelt að finna. En þeir kraftar sem ráða ferðinni um skipulag, inntak og verklag skólastarfs eru í eðli sínu afar íhaldssamir,“ segir Jón Torfi.
Starf sviðsforseta í Háskóla Íslands er tímafrekt og því vakna spurningar um það hvort Jóni Torfa gefist tækifæri til að sinna áhugamálum utan vinnu.
„Ég vinn með fjölda fólks sem vinnur alls kyns störf. Þau eru öll tímafrek; mér sýnist ég ekki hafa sérstöðu í því efni. En utan hins hefðbundna vinnutíma hef ég í grófum dráttum tvö áhugasvið. Annað er mitt fagsvið. Ég reyni að lesa og skrifa um mín fræði eins og ég gerði áður, en vildi ég væri öflugri á þeim vettvangi. Hins vegar þykir mér útivist af öllu tagi skemmtileg en vildi einnig stunda hana meira,“ segir Jón Torfi að lokum.