Header Paragraph

Uppruni hugmyndanna

Image
Arnar Gíslason

„Það voru engin ein straumhvörf, frekar voru það nokkrir smærri atburðir sem áttu sér stað og einn daginn fattar maður að maður sé orðinn femínisti,“ segir Arnar Gíslason kynjafræðingur og jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands um það hvernig hann fékk áhuga á jafnréttismálum.

Arnar hefur gengt stöðunni síðan síðla árs 2007 þegar hann kom heim frá Bretlandi þar sem hann lauk meistaranámi í kynjafræði og vann í meðferðarprógrammi fyrir karla sem hafa verið dæmdir fyrir ofbeldi í nánum samböndum.

Lærði á þvottavél

Arnar segist hafa verið á unglingsaldri þegar hann fór að taka eftir ójafnrétti milli kynjanna í samfélaginu. „Það fyrsta sem ég man eftir var þegar ég var svona 15 ára og var að æfa körfubolta þrisvar sinnum í viku og vildi alltaf geta gengið að því vísu að taka með mér hrein föt og handklæði á æfingar. Ef það var ekki alltaf tiltækt þegar ég þurfti varð ég bara pirraður út í mömmu, sem vann úti og sá um að þvo fyrir alla fjölskylduna, ásamt fleiru. Úr varð að ég lærði sjálfur á þvottavélina, sem mér þótti í byrjun býsna flókið, og aðeins seinna fór ég svo að spá í að það væri kannski ekkert sérlega sanngjarnt að mamma sæi alfarið um allan þvott á heimilinu fyrir okkur fimm.“

Vaknaðu maður

Í menntaskóla komst hann svo í tæri við bókina Vaknaðu kona! eftir Herdísi Helgadóttur sem fjallar um sögu Rauðsokkuhreyfingarinnar á Íslandi. „Mér fannst þetta ótrúlega heillandi viðfangsefni og drakk bókina í mig.“ Arnar hreifst sérstaklega að formgerð samtakanna: „Það var ekki stigveldi með leiðtoga og goggunarröð – þessi karllægi strúktúr – heldur var skipulagið flatt, unnið í sjálfstæðum hópum og meðlimir voru þeir sem mættu á fundi hverju sinni.“

Arnar bendir á að flest helstu baráttumál rauðsokka séu enn í brennidepli, svo sem barátta gegn kynferðisofbeldi og launamun kynjanna. „Í dag eru þetta líklega þau mál femínista sem að langflestir í samfélaginu samþykkja sem alvarleg vandamál sem þurfi að vinna í,“ bætir hann við. Þá er Arnar mjög ánægður með beinar aðgerðir hreyfingarinnar sem oft studdust við beittan húmor til að koma málstaðnum á framfæri og ákveðna fagurfræði í slagorðum og mótmælaspjöldum.

Arnar lærði sálfræði í Háskóla Íslands en tók ýmis valnámskeið í kynjafræði þar sem kennarar á borð við Þorgerði Einarsdóttur og Ingólf V. Gíslason opnuðu augu hans enn frekar gagnvart ójafnrétti kynjanna og því að í jafnréttisbaráttu væri einnig rými og þörf fyrir karla. Í sálfræðinni lærði hann margt gagnlegt líka: „Það sem mér fannst sérstaklega áhugavert var uppruni vísindalegra aðferða, hvernig vestrænar hugmyndir um fræðilega nálgun verða til. Það fannst mér mjög mikilvægt að hafa lært til að geta verið krítískari á fræðin, að vita hvaðan hugmyndirnar koma og skilja forsendurnar sem liggja að baki þeim aðferðum sem við beitum.“

Aktívismi í A-4

Á meðan hann var í háskóla tók Arnar í fyrsta sinn þátt í beinum aðgerðum í þágu jafnréttis. „Við vorum sex strákar sem stóðum fyrir átakinu „Karlar gegn launamisrétti“. Þetta var allt saman mjög lo-fi hjá okkur, við gerðum þrjár týpur af plakötum í word og prentuðum út á A4 blöðum og ljósrituðum þau. Síðan þrömmuðum við út um allan bæ með undirskriftalista og ég held okkur hafi tekist að safna rúmlega þúsund undirskriftum.“ Strákarnir fönguðu athygli Ísland í dag þar sem þeir kynntu átakið og stuttu síðar afhentu þeir Páli Péturssyni þáverandi félagsmálaráðherra listana.

Fljótlega eftir þetta var Femínistafélag Íslands stofnað og Arnar og vinir hans voru meðal stofnfélaga í karlahópi Femínistafélagsins. „Frá byrjun sýndu fjölmiðlar okkur töluverða athygli, það var að nokkru leyti nýtt á þessum tíma að grasrótarsamtök karla titluðu sig femínista og berðust fyrir jafnrétti kynjanna. Maður fattaði þá að þetta vantaði og fann mikinn hljómgrunn fyrir því að karlar kæmu inn í jafnréttisbaráttuna.“ Áður hafði Arnar kynnst Fríðu konunni sinni sem var stofnfélagi í Bríeti, félagi ungra femínista, og lærði heilmikið um femínisma hjá henni og vinahóp hennar. „Svo kynntist ég náttúrulega alls konar fólki þegar ég byrjaði í Femínistafélaginu, sem ég lærði mikið af, og það var mjög skemmtilegur tími.“

Titill
Arnar Gíslason

Text

„Það voru engin ein straumhvörf, frekar voru það nokkrir smærri atburðir sem áttu sér stað og einn daginn fattar maður að maður sé orðinn femínisti.“

Image
Image
Arnar Gíslason

London kallar

Eftir að Arnar útskrifaðist úr Háskóla Íslands hafði hann hugsað sér að flytja til útlanda en ákvað að vera ár í viðbót í Háskólanum „meðal annars því það voru svo margir spennandi kúrsar í kynjafræðinni sem mig langaði að taka.“ Því næst var förinni haldið til Brighton þar sem hann lagði stund á mastersnám í kynjafræði við University of Sussex og þar skrifaði hann mastersritgerð um viðhorf karla til fóstureyðinga.

Eftir námið fékk hann vinnu hjá Domestic Violence Intervention Project í London, samtökum sem að sjá um hópmeðferðir fyrir karla sem hafa verið dæmdir fyrir ofbeldi gagnvart mökum sínum, en hópavinnan er þá hluti af skilorði karlanna.

Í hópatímunum tekst mönnum oft að átta sig á afleiðingum gjörða sinna og þann skaða sem þeir hafa valdið mökum sínum og fjölskyldum. Mennirnir þurfa að ræða opinskátt um það ofbeldi sem þeir hafa beitt og reyna að greina atburðinn.

„Í hópnum eru m.a. unnin verkefni þar sem atburðir eru skoðaðir í slow-motion ef svo má segja, það er hægt á því sem gerðist, það er brotið niður í parta og greint og reynt að skilja hvað fór úrskeiðis og hvernig megi læra af því,“ segir Arnar. Hann segir að margir lýsi því að hafa upplifað algjört valdaleysi stuttu áður en þeir beittu ofbeldi.

„Ákveðið valdaleysi, að allt sé að fjara út úr höndunum á þeim, og þá grípa sumir til ofbeldis til að ná aftur einhverri stjórn. Það sem við reynum að gera er að kenna mönnunum að þekkja þessa tilfinningu og taka öðruvísi ákvarðanir. Það er hluti af þessu, að læra að bregðast rétt við á slíkum stundum, en einnig er mjög mikið lagt upp úr því að læra nýjar aðferðir við að takast á við eigin tilfinningar, samskipti við annað fólk – sérstaklega maka – og átta sig á því að það er alltaf okkar eigin ákvörðun og ábyrgð hvernig við bregðumst við aðstæðum og hegðum okkur.“

Heim í Háskólann

Eftir að Arnar kom heim frá Bretlandi síðla árs 2007 hóf hann störf sem jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands. Hann segir ekki sérstaklega auðvelt fyrir sig að lýsa hefðbundnum vinnudegi.

„Úff, þeir eru svo rosalega misjafnir. En ætli það sé ekki óhætt að segja að tölvupóstur, símtöl og fundir skipi stóran sess í honum þó að tilefnin séu æði misjöfn.“

Sem jafnréttisfulltrúi hefur Arnar yfirumsjón með jafnréttismálum og málefnum minnihlutahópa innan háskólans í samstarfi við Jafnréttisnefnd og Ráð um málefni fatlaðs fólks. Hann vinnur að stefnumótun og að framfylgja jafnréttisstefnu Háskólans, og kemur að margvíslegum verkefnum sem unnið er að innan Háskólans. Arnar leggur mikið upp úr því að vera í góðu samstarfi, bæði innan skólans við fólk innan stjórnsýslunnar, akademíunnar og fulltrúa nemenda, en s-sömuleiðis við aðila utan Háskólans, bæði opinbera aðila á borð Jafnréttisstofu og Menntamálaráðuneytið, en einnig félagasamtök á sviði jafnréttismála

„Á hverju ári safna ég saman tölum um stúdenta, starfsfólk, stjórnendur og hvernig nefndir á vegum Háskólans eru skipaðar með tilliti til kynjahlutfalls. Síðan stýri ég starfshópi um jafnréttisdaga sem eru haldnir á hverju hausti, en þeir verða haldnir dagana 13. til 27. október í ár,“ segir Arnar. Hann stýrir vefgáttinni jafnretti.hi.is en þar er helstu upplýsingum um jafnréttismál innan skólans safnað saman, og heldur einnig úti póstlistanum þar sem kynntir eru helstu viðburðir á sviði jafnréttismála, einkum viðburðir á vegum aðila inann skólans en einnig utan hans í nokkru mæli, en hægt er að skrá sig á póstlistann með skeyti á jafnretti@hi.is. Í hans verkahring felst líka að fræða starfsmenn Háskólans um jafnréttismál.

„Við stefnum að því að allir starfsmenn skólans hafi ákveðna grunnþekkingu á jafnréttismálum svo hægt sé að sinna þeirri lögbundnu skyldu að sjónarhorn kynjajafnréttis sé fléttað inn í alla stefnumótun og meiriháttar ákvarðanatöku.“

Er engin jafnréttislögga

Aðspurður um þróun jafnréttismála síðan hann tók við starfi sínu telur Arnar sig sjá jákvæða þróun að mörgu leyti, bæði innan Háskólans og í samfélaginu almennt.

„Án þess að ég vilji sérstaklega eigna mér það þá held ég að það hafi orðið jákvæð þróun. Mér finnst starfsfólk, stjórnendur og nemendur alltaf að verða meira og meira meðvitaðir um mikilvægi málaflokksins. Til dæmis var klámvæðing innan skólans mikið til umræðu síðasta vor eftir að umræðufundur var haldin um málefnið og mér finnst að nemendafélög og aðrir hafi verið ábyrgari í útgáfu og slíku eftir þetta, og bæði nemendur og starfsfólk orðið miklu ákveðnari í að bregðast við hlutum og setur mörk um hvað það sé ekki tilbúið að láta bjóða sér. Ég get auðvitað ekki fylgst með öllu sem gerist innan skólans og ég fattaði það mjög snemma að ég get ekki verið einhvers konar jafnréttislögga Háskólans. Enda er það ekki endilega markmiðið með starfinu, ég er meira að reyna að styðja við það sem vel er gert aðstoða þá hópa og einingar sem hafa áhuga og metnað til að leggja áherslu á jafnréttismál, standa fyrir fræðslu og veita fólki ráðgjöf,“ segir Arnar að lokum.

Höfundur: Davíð Roach Gunnarsson nemi í blaða- og fréttamennsku.