Vísindin í íslensku samfélagi
Einar Stefánsson, prófessor í Læknadeild, Heilbrigðisvísindasviði
Staða vísinda í íslensku samfélagi hefur alla tíð verið of veik, þótt hún hafi reyndar styrkst heldur á síðustu árum. Vegur vísindanna snýst ekki svo mjög um vegsemd sem einstökum vísindamönnum er sýnd, heldur hvernig okkar þjóðfélag nýtir vísindin, hina vísindalegu aðferð og hæfni og þekkingu vísindamanna. Vísindin eru aðferð til að leita sannleikans, hvorki meira né minna.
Aðferðir reynsluvísindanna gera okkur kleift að greina á milli þeirra kenninga sem standast próf reynslunnar og hinna sem gera það ekki. Hin vísindalega aðferð leyfir okkur að greina á milli staðreynda, sem ekki þarf að deila um og ályktana sem geta verið álitamál og losað okkur þannig undan því að deila um fjarlægðina austur á Eyrarbakka, svo vitað sé í Halldór Laxness.
Gagnrýnin hugsun vísindanna krefst þess að málefni séu skoðuð á gagnrýnan hátt, en ekki að þeir einstaklingar séu gagnrýndir, sem standa öðru hvoru megin málsins.
Í þessu felst hið fullkomna jafnrétti. Það skiptir ekki máli hvort vísindamaðurinn er hvítur eða svartur, karl eða kona, kommúnisti eða kapitalisti. Það er ekki til umræðu. Það sem er til umræðu eru þær kenningar, athuganir og ályktanir, sem viðkomandi einstaklingur ber fram og ekkert annað. Vísindin hika ekki við að skoða og gagnrýna hvaða fullyrðingu og meinta staðreynd sem er og í slíkri endurskoðun felst ekki vantraust á þá, sem hafa sett fram kenningar og fullyrðingar.
Þvert á móti, er það hverjum vísindamanni keppikefli að aðrir vísindamenn prófi og sannreyni kenningar þeirra, enda felst í því áhugi og viðurkenning á mikilvægi slíkra kenninga. Við sjáum þessu iðulega snúið á haus í íslenskri umræðu um þjóðfélagsmál, þar sem talsmenn einstakra sjónarmiða verða aðalatriðið og skotspónn andstæðinga og umræðan snýst um menn en ekki málefni.
Titill
Einar Stefánsson
„Það skiptir ekki máli hvort vísindamaðurinn er hvítur eða svartur, karl eða kona, kommúnisti eða kapitalisti. Það er ekki til umræðu. Það sem er til umræðu eru þær kenningar, athuganir og ályktanir, sem viðkomandi einstaklingur ber fram og ekkert annað.“
Gildi vísinda fyrir íslenskt samfélag getur verið margvíslegt. Þau dýpka þekkingargrunn okkar, skilning á okkur sjálfum, náttúru landsins og menningu þjóðarinnar og þau geta líka verið grundvöllur framfara í efnahagsmálum. Vísindin eru frjósamur grunnur nýsköpunar í atvinnulífi landsmanna og það liggja gríðarlegir möguleikar í nýtingu þeirrar vísindaþekkingar, sem þegar er í landinu.
Ég hef sjálfur starfað á þessum vettvangi um nokkurt skeið og vissulega hafa aðstæður til vísindalegrar nýsköpunar batnað frá því sem var, þegar ég kom til starfa á Íslandi fyrir tæpum 20 árum. Þó er langt í land, að við búum við sömu aðstæður og nágrannaþjóðir okkar hvað varðar stuðning við vísindalega nýsköpun. Það er sannfæring mín, að íslenskt þjóðfélag geti tekið miklum framförum með því að nýta betur hina vísindalegu aðferð, vísindalega þekkingu og vísindamenn landsins.
Við stöndum nú í þeim sporum, að sumar af meginstoðum okkar samfélags hafa brugðist trausti og það kallar á endurskoðun á þeim aðferðum, sem við beitum við uppbyggingu og rekstur okkar þjóðfélags, greiningu okkar á staðreyndum, kenningum og áætlunum fyrir það þjóðfélag, sem börnin okkar og barnabörnin munu byggja.
Sumar grannþjóðir okkar hafa veðjað á vísindin í sinni uppbyggingu. Við nefnum oft Finna í þessu samhengi, en einnig má líta til Bandaríkjanna, þar sem Barack Obama skipar í ríkisstjórn sína afreksmenn og fræðimenn á ýmsum sviðum, þ.á.m. Nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði. Mér sýnist, að Bandaríkjamenn séu að veðja á vísindin og vísindamennina. Við eigum líka að setja traust okkar á vísindalega þekkingu, vísindalega aðferð og okkar góðu vísindamenn í þeirri uppbyggingu sem framundan er.
Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum, fékk nýlega heiðursverðlaun Ásu Guðmundsdóttur Wright. Hann hefur góðfúslega veitt leyfi til birtingar þakkarávarps hans á vef HÍ og var hluti þess birtur að framan.