Jarðvísindastofnun Háskólans
Jarðvísindastofnun Háskólans hefur starfsemi 1. júlí með sameiningu Norrænu eldfjallastöðvarinnar og jarðvísindahluta Raunvísindastofnunar Háskólans. Markmiðið er að stofnunin verði alþjóðleg rannsóknastofnun á sviði jarðvísinda sem endurspegli þekkingu sem byggst hefur upp á Íslandi. Norrænum tengslum starfseminnar er viðhaldið undir heitinu Norræna eldfjallasetrið og unnið að eflingu annarra alþjóðlegra tengsla. Jarðvísindastofnun er til húsa í Öskju.
Tungumálavefurinn Icelandic online opnaður
Tungumálavefurinn Icelandic online opnaður en þar er að finna kennsluefni í íslensku á veraldarvefnum. Vefnámskeiðin voru þróuð hér á landi og byggjast á kennslufræði og aðferðum sem reynst hafa vel í kennslu á netinu .Vefurinn var þróaður af kennurum og nemendum Háskóla Íslands í samvinnu við íslenskulektora við fimm evrópska háskóla en fyrsta námskeið var tekið í notkun árið 2004. Skráðir notendur Icelandic Online eru tæplega 70.000 en um 600 manns heimsækja vefinn daglega. Aðgangur að vefnum er án endurgjalds.
Raunvísindastofnun skipt upp
Með reglugerðarbreytingu í maí 2004 í tilefni af því að Norræna eldfjallastöðin var færð til Háskólans var Raunvísindastofnun skipt upp í tvær faglega sjálfstæðar stofnanir: Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun háskólans og Jarðvísindastofnun háskólans.
Háskóli unga fólksins tekur til starfa
Háskóli unga fólksins tekur til starfa. Þann 21. júní mættu 130 börn og unglingar á aldrinum 12-16 ára á háskólalóðina til að taka þátt í vikulangri dagskrá Háskóla unga fólksins sem samanstóð af fjölda námskeiða, fyrirlestra, tilrauna og æfinga á ólíkum fræðasviðum. Dagskránni var ætlað að svala fróðleiksfýsn þátttakenda og kynda undir áhuga þeirra á vísindum og fræðum.
Reist var stórt tjald í Skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu, svonefnd Sæmundarbúð, sem var miðstöð nemenda í kennsluvikunni. Skólahaldinu lauk með glæsilegri lokahátíð þar sem Páll Skúlason rektor afhenti nemendum viðurkenningu fyrir nám sitt í skólanum. Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur hvert sumar frá árinu 2004. Fróðleiksfúsir og fjörugir krakkar hafa þá lagt undir sig háskólasvæðið og sett einstakan svip á umhverfið.