2006

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Stykkishólmi

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Stykkishólmi tekur til starfa 1. apríl. Áhersla er lögð á rannsóknir á sérstæðri og alþjóðlega mikilvægri náttúru Breiðafjarðar, Snæfellsness og norðanverðs Faxaflóa. Setrið er til húsa í Stykkishólmi. Háskólasetrið hefur mest sinnt fuglarannsóknum og er þá einkum horft til lífríkis Breiðafjarðar og Snæfellsness.

Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd

Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd opnað 12. maí. Rannsóknasetrinu er ætlað að vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði félagsráðgjafar, einkum alls þess er lýtur að stefnumörkun, þróun og þjónustu í barna- og fjölskylduvernd frá æsku til efri ára. Markmið setursins er jafnframt að miðla vísindalegri þekkingu um félagsráðgjöf og laða fræðimenn til starfa á þessu sviði.

Stúdentadansflokkurinn hefur göngu sína

Stúdentadansflokkurinn hefur göngu sína 1. febrúar þetta ár.

Þórsteinssjóður stofnaður

Þórsteinssjóður stofnaður til minningar um Þórstein Bjarnason, stofnanda Blindravinafélags Íslands. Úr sjóðnum voru sjö blindum og sjónskertum stúdentum veittir styrkir til náms við Háskóla Íslands og hefur Námsráðgjöf Háskóla Íslands umsjón með sértækum úrræðum fyrir þá.

Stefna Háskóla Íslands 2006-2011

Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 samþykkt á háskólafundi 5. maí og staðfest af háskólaráði 16. maí. Kjarni stefnunnar felst í þremur aðalmarkmiðum: framúrskarandi rannsóknum, framúrskarandi kennslu og framúrskarandi stjórnun og stoðþjónustu. Stefnan felur í sér ríflega eitt hundrað mælanleg og tímasett undirmarkmið sem lúta að öllum sviðum starfseminnar. Í kjölfarið hafa allar deildir háskólans sett sér stefnu og markmið sem byggjast á heildarstefnunni og útfæra þær hana hver á sínum vettvangi.

Messa í kapellu Háskóla Íslands

Messa í kapellu Háskóla Íslands þann 9. apríl þetta ár eftir endurbætur og lagfæringar á kapellunni.

Á myndinni er Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.

Image
Messa í kapellu Háskóla Íslands þann 9. apríl þetta ár eftir endurbætur og lagfæringar á kapellunni. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Hinn 2. júní samþykkir Alþingi Íslendinga lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Samkvæmt þeim voru Íslensk málstöð, Orðabók háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun sameinaðar frá og með 1. september 2006. Hin nýja stofnun tók við skyldum stofnananna fimm og þeim verkefnum sem þær sinntu.

Image
Árnagarður

Skuggagarðar teknir í notkun

Stúdentagarðarnir, Skuggagarðar við Lindargötu, opnuðu 29. ágúst þetta ár. Húsin, sem eru þrjú, eru með samtals 96 einstaklingsíbúðum, þar af þremur fyrir fatlaða.

Image
Skuggagarðar

Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir við Háskóla Íslands

Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir við Háskóla Íslands formlega opnuð 14. júní. Stofnunin varð til við samruna Sjávarútvegsstofnunar og Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands og heyrir undir háskólaráð.

Stúdentar meðmæla

Stúdentaráð Háskóla Íslands stendur fyrir meðmælum í október þetta ár undir yfirskriftinni „Vér meðmælum öll“. Stúdentar, sem og aðrir sem láta sig menntamál þjóðarinnar varða, voru hvattir til þess að fjölmenna við Aðalbyggingu Háskóla Íslands í þeim tilgangi að mæla með menntun og koma menntamálum í umræðuna fyrir næstu Alþingiskosningar. Frá háskólanum var gengið fram hjá Tjörninni og niður á Austurvöll með trommuslætti, söng og meðmælaskiltum á lofti og þar hófst stutt fundardagskrá.