Fjölgun námsgreina og aukinn nemendafjöldi
Námsárið 1990-1991 voru 42 námsgreinar í boði á 99 námsleiðum með alls 1.512 námskeiðum. Á námsárinu 2008-2009, tæpum tveimur áratugum seinna, voru námsgreinarnar orðnar 88, á samtals 485 námsleiðum og námskeið við Háskóla Íslands 4.600 talsins á námsárinu.
Áramótin 2008/2009 bregst Háskóli Íslands við efnahagskreppunni sem reið yfir með því að taka inn ríflega 1.400 nemendur en aldrei fyrr höfðu jafnmargir nemendur skráð sig í nám um áramót. Haustið 2009 hafði nemendum því um fjölgað 20% frá haustinu áður.
ECTS-einingar teknar upp við Háskóla Íslands
Frá 1. júlí miðast námseiningar í kennsluskrá við svonefndar ECTS-einingar þar sem 5 eininga námskeið samkvæmt eldra kerfi teljast nú 10 ECTS-eininga námskeið og BA- og BS-nám, sem talið hafði verið 90 einingar áður, er metið til 180 ECTS-eininga.
Rannsóknastöðustyrkir veittir
Rannsóknastöðustyrkir, sem ætlaðir eru vísindamönnum sem hafa lokið doktorsprófi á síðastliðnum fimm árum, veittir í fyrsta sinn. Átta styrkir voru veittir til allt að þriggja ára og gátu akademískir starfsmenn háskólans sótt um þá í samstarfi við nýdoktora. Jafnframt var í fyrsta skipti úthlutað styrkjum til ráðstefnuferða fyrir meistara- og doktorsnema sama ár.
Ýmis stórafmæli þetta ár
Lagadeild fagnaði því 1. október að 100 ár voru liðin frá því að lagakennsla hófst á Íslandi. Í tilefni af afmælinu gekkst deildin fyrir fjölbreyttri afmælisdagskrá með hátíðarmálþingi, ráðstefnum og málstofum með helstu fræðimönnum lögfræðinnar á Íslandi og erlendum gestum.
Kennaraháskóli Íslands fagnaði aldarafmæli sínu 7. júní með veglegri hátíð í Borgarleikhúsinu, en þá voru liðin 100 ár frá setningu fyrstu fræðslulaga og stofnun Kennaraskóla Íslands. Við þetta tækifæri voru brautskráðir fyrstu þrír doktorarnir frá skólanum og lýst kjöri heiðursdoktora. Efnt var til sýningar í Þjóðarbókhlöðunni í maí í tilefni af 100 ára afmælinu og gefið út veglegt afmælisrit.
Hinn 14. nóvember var haldin vegleg athöfn í Hátíðarsal í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá upphafi kennslu í viðskiptafræði og hagfræði á Íslandi. Við þetta tækifæri var lýst kjöri þriggja heiðursdoktora.
Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands hélt upp á 25 ára afmæli sitt í október með fjölbreyttri afmælisdagskrá. Starfsemi Endurmenntunarstofnunar hefur eflst með ári hverju og hefur hún aldrei verið fjölbreyttari og öflugri en nú.
Í tilefni af 20 ára afmæli Tæknigarðs var í nóvember haldin afmælishátíð og jafnframt veitt hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands fyrir bestu tillögur að verkefnum sem geta orðið að gagni í íslensku samfélagi. Á þeim 20 árum sem Tæknigarður hefur starfað hefur hann fóstrað mikinn fjölda sprotafyrirtækja sem mörg hver hafa orðið að öflugum og framsæknum þekkingarfyrirtækjum.
Einnig var afmælisnefnd Háskóla Íslands skipuð á þessu ári til þess að starfa að undirbúningi aldarafmælis skólans árið 2011.