2011

Háskóli Íslands 100 ára

Háskólinn fagnaði 100 ára afmæli á þessu ári og var haldið upp á það með ýmsum hætti á árinu.

Aldarafmælinu var fagnað undir yfirskriftinni Fjársjóður framtíðar.

Að afmælisári loknu var gefin út skýrsla um starfsemina á aldarafmælisárinu.

Image
Háskóli Íslands, Aðalbygging

Hátíðarfyrirlestraröð rektors

Þrír hátíðarfyrirlestrar, sem rektor Háskóla Íslands bauð sérstaklega til, voru fluttir í Hátíðasal á árinu.:

  • Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og yfirmaður rannsókna hélt fyrsta fyrirlesturinn í röðinni 15. janúar. Fyrirlestur Kára nefndist „Hönnun manns – hvernig maðurinn skapast af samspili erfða og umhverfis“.
  • Dr. Hilmar B. Janusson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar hf., flutti erindi í röðinni 7. maí 2011. Erindið bar yfirskriftina „Hreyfing mannsins. Frá hreyfihömlun til afreka.
  • Dr. Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, flutti erindi 28. október 2011. Erindið bar yfirskriftina „Global Economic Challenges and Fostering Future Prosperity“

Einn af þeim bestu

Í október þetta ár komst Háskóli Íslands í fyrsta sinn á lista Times Higher Education World University Rankings yfir 300 bestu háskóla heims, af þeim rúmlega 17.000 háskólum sem til eru.

Times Higher Education World University Rankings er annar af tveimur helstu listum þar sem gæði háskóla eru metin. Samkvæmt listanum var Háskóli Íslands skráður í 276. sæti fyrir tímabilið 2011–2012 og lenti því meðal þeirra 2% háskóla sem bestir eru taldir í heiminum.

Öndvegisfyrirlestrar

Hvert  hinna fimm fræðasviða Háskóla Íslands var í sviðsljósinu í einn mánuð á afmælisárinu og stóð hvert um sig fyrir metnaðarfullri dagskrá. Buðu sviðin erlendum fyrirlesurum að halda öndvegisfyrirlestra við skólann.

David Suzuki

Dr. David suzuki, prófessor í líffræði við University of British Columbia og annar tveggja öndvegisfyrirlesara Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, hélt fyrirlestur í Öskju 4. apríl 2011. Fyrirlesturinn var fluttur með fjarfundabúnaði og bar yfirskriftina „Afl náttúrunnar“. Suzuki er náttúruverndarsinni og sjónvarpsmaður og þekktur fyrir að útskýra náttúruvísindin á einfaldan og heillandi hátt. Suzuki hélt einnig erindi í eigin persónu hinn 1. október 2011 í Háskóla Íslands á málþinginu „Hvað getum við gert?“.

Image
David Suzuki

Elizabeth Blackburn

Dr. Elizabeth Blackburn, ástralsk-bandarískur Nóbelsverðlaunahafi og prófessor í líffræði í lífeðlisfræði við Kaliforínuháskóla, var annar tveggja öndvegisfyrirlesara Heilbrigðisvísindasviðs. Hún flutti erindi sem bar yfirskriftina: „Telomerar og Telomerasar: Hvernig hafa þeir áhrif á heilsu manna og sjúkdóma?“ 21. maí 2011 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Uppgötvanir Blackburn og samstarfsmanna hennar skipta miklu máli fyrir skilning manna á áhættuþáttum sem snúa að hjartasjúkdómum og krabbameini og einnig áhrifum streitu á lífslengd fólks.

Image
Elizabeth Blackburn

Françoise Barré-Sinoussi

Dr. Françoise Barré-Sinoussi, franskur Nóbelsverðlaunahafi og vísindamaður við Pasteur–stofnunina í París var annar öndvegisfyrirlesara Heilbrigðisvísindasviðs. Hún flutti erindi í Hátíðasal Háskóla Íslands 1. júní 2011. Þar ræddi hún um rannsóknir sínar í veirufræði, meðal annars hvernig hún og samstarfsmenn hennar uppgötvuðu HIV-veiruna og að hún ylli alnæmi. Erindið var flutt á málþingi sem haldið var til heiðurs íslenska lækninum og veirufræðingnum Birni Sigurðssyni, fyrsta forstöðumanni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum.

Image
Françoise Barré-Sinoussi

Linda Darling-Hammond

Dr. Linda Darling-Hammond, öndvegisfyrirlesari Menntavísindasviðs, flutti erindið „Menntun og kennsla á 21. öld“ í Hátíðasal Háskóla Íslands 1. september 2011. Darling-Hammond er prófessor í menntavísindum við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Í erindi sínu lagði hún áherslu á mikilvægi þess að endurskipuleggja allt skólastarf í ljósi breyttra tíma og síbreytilegrar framtíðar. Telur hún að helstu áskoranir 21. aldarinnar séu meiri þörf fyrir menntun í samfélaginu, fjölbreytilegri nemendahópar og meiri væntingar til skóla um að sýna árangur. Til þess að mæta þessum áskorunum skipti menntun kennara sköpum.

Image
Linda Darling-Hammond

Noam Chomsky

Dr. Noam Chomsky, öndvegisfyrirlesari Hugvísindasviðs, flutti tvo fyrirlestra í Háskólabíói 9. september 2011. Noam Chomsky er bandarískur málvísindamaður, rithöfundur og virkur þátttakandi í stjórnmálaumræðu og prófessor emeritus í málvísindum við MIT-háskólann í Bandaríkjunum. Í fyrri fyrirlestrinum, „The ´Generative Enterprise´: Its origins, goals, prospects“, fór Chomsky yfir hugmyndir sínar í málvísindum en hann lagði grunninn að þeirri stefnu í málvísindum sem hefur verið nefnd málkunnáttufræði á íslensku. Í síðari fyrirlestrinum sem bar yfirskriftina „The two 9/11s: Their historical significance“ fjallaði Chomsky um stöðu heimsmálanna, lýðræði, vald og ofbeldi í Háskólabíói.

Image
Noam Chomsky

Robert David Putnam

Dr. Robert David Putnam, bandarískur stjórnmálafræðingur og öndvegisfyrirlesari Félagsvísindasviðs, er prófessor við John F. Kennedy School of Government við Harvard-háskóla. Hann flutti erindið „Challenges to community in the contemporary world: Social capital, diversity, and inequality“ í Hátíðasal Háskóla Íslands 3. október 2011. Putnam fjallaði um hugtakið félagsauð sem hann notar í rannsóknum sínum og snýst um tengsl okkar við vini, fjölskyldu og samfélag.

Image
Robert David Putnam

Henry Petroski

Dr. Henry Petroski, prófessor í byggingarverkfræði og sagnfræði við Duke-háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og annar tveggja öndvegisfyrirlesara Verkfræði- og náttúruvísindasviðs flutti erindið „Success and Failure in Engineering: A Paradoxal Relationship“ í Hátíðasal 29. október 2011. Í erindi sínu lagði Petroski áherslu á mikilvægi þess að greina vel fyrri mistök þegar unnið væri að verkfræðilegri hönnun í stað þess að einblína á fyrri verkfræðileg afrek.

Image
Henry Petroski

Fjársjóður framtíðar - Afmælishátíð 8. október

Afmælishátíðin í Hörpu var hápunktur afmælisdagskrár Háskóla Íslands og var yfirskrift hennar Fjársjóður framtíðar. Boðið var upp á fjölbreytta og lifandi dagskrá. Starfsfólk, stúdentar, samstarfsaðilar og velunnarar Háskóla Íslands sóttu hátíðina og voru gestir vel á annað þúsund. Dagskrá hátíðarinnar fór fram á sviði Eldborgar og þar gerðu nemendur, starfsmenn og ýmsir listamenn starfi og sögu skólans skil í máli, myndum, leik og tónum.

Hér eru nokkrar svipmyndir frá hátíðinni:

Fjársjóður framtíðar

Sjónvarspsþættirnir Fjársjóður framtíðar voru frumsýndir í Sjónvarpinu í nóvember.

Tilgangurinn með þáttunum er að veita fólki skarpa sýn á hið fjölbreytta starf sem vísindamenn Háskólans sinna og hvernig þeir vinna við rannsóknir við afar ólíkar aðstæður.

Háskólalestin brunar um landið

Háskólalestin fór af stað í fyrsta sinn á þessu ári.

Lestin ferðast um landið við miklar vinsældir á vormánuðum ár hvert.

Áhersla er lögð á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur hafa verið með eindæmum góðar og hafa landsmenn á öllum aldri fjölmennt á viðburði Háskólalestarinnar.

Í Háskólalestinni eru valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur og jafnvel leikskólabörn og framhaldskólanemendur.

Image
Háskólalestin

Kappakstursbíll

Fimmtán nemendur, flest í véla-, iðnaðar- og rafmagnsverkfræði og viðskipta- og hagfræði, tóku þátt í alþjóðlegu hönnunarkeppninni Formula Student í Bretlandi. Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskt lið tók þátt í keppninni.

Keppnin gengur út á að hanna og smíða kappakstursbíl og eiga liðin í keppninni að vinna að hönnun og smíði bílsins eins og þau séu fyrirtæki að undirbúa frumgerð að kappakstursbíl sem framleiðslufyrirtæki vill mögulega fjárfesta í.

Árangur íslenska liðsins var frábær og liðið hlaut m.a. verðlaun frá stórfyrirtækinu Airbus.

Myndin er af bíl liðsins frá árinu 2013.

Image
Kappaksturskeppnin Formula Student – Kappakstursbíll

Afmælissýning á Háskólatorgi

Nemendur í hagnýtri menningarmiðlun, undir handleiðslu Eggerts Þórs Bernharðssonar, settu upp afmælissýninguna Háskólinn í hundrað ár - brot úr sögu. Sýningin var sett upp á fyrstu hæð Háskólatorgs. Þar var stiklað á stóru í hundrað ára sögu Háskólans á afar frumlegan og skemmtilegan hátt.

Meðal annars gátu sýningargestir tyllt sér niður í lítilli stúdentaíbúð og horft á sjónvarpið.

Image
Hluti af sýningunni Háskólinn í hundrað ár - brot úr sögu, sem sett var upp í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands 2011.

Með fróðleik í fararnesti

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands tóku höndum saman og stóðu fyrir reglulegum gönguferðum á árinu þar sem reynsla leiðsögumanna Ferðafélagsins og þekking vísindamanna háskólans kom saman. Boðið var upp á tólf gönguferðir á árinu. Gönguferðirnar urðu að reglulegum viðburðum ár hvert upp frá þessu.

Myndin er tekin í gönguferð 10. apríl 2011, þar sem Hreggviður Norðdahl, fræðimaður á Jarðvísindastofnun og Ívar Örn Benediktsson, dýdoktor á Jarðvísindastofnun fræddu göngufólk um jarðfræði Reykjavíkur.

Image
Með fróðleik í fararnesti, 10. apríl 2011

Áskoranir 21. aldarinnar

Háskólinn bauð til opins málþings um áskoranir 21. aldar í stóra sal Háskólabíós. Þar fjölluðu heimskunnir fyrirlesarar, fræðimenn og stjórnendur háskóla um efnið frá ólíkum sjónarhóli. Fyrirlestur Kofi Annans, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna og Nóbelsverðlaunahafa, vakti mikla athygli og var þátttaka á málþinginu afar góð.

Image
Kofi Annan á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands 7. október 2011

Aldarsaga Háskóla Íslands

Stórvirkið Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011, var gefið út í tilefni af aldarafmæli skólans. Um er að ræða mjög umfangsmikið og vandað rit, tæplega 900 blaðsíður að lengd og skreytt rúmlega 300 myndum af margvíslegu tagi.

Höfundar ritsins eru Guðmundur Hálfdánarson, Sigríður Matthíasdóttir og Magnús Guðmundsson. Ritstjórn þess var í höndum Gunnars Karlssonar.

Hægt er að sækja ritið hér á vefnum.

Image
Aldarsaga Háskóla Íslands - Forsíða

Hátíð brautskráðra doktora

Háskóli Íslands efndi í fyrsta sinn til hátíðar brautskráðra doktora í Hátíðasal Aðalbyggingar þann 1. desember 2011 að viðstöddum Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Á hátíðinni, sem varð árviss viðburður upp frá þessu, fengu þeir nýdoktorar sem varið hafa ritgerðir sínar við Háskóla Íslands síðastliðið ár afhent gullmerki háskólans.

Frá 1. desember 2010 til 1. desember 2011 brautskráðust 47 doktorar frá Háskóla Íslands, 27 karlar og 20 konur. Í hópnum eru nemendur frá níu þjóðlöndum og þremur heimsálfum, en rúm 60 prósent doktoranna eru Íslendingar. Alls voru nýdoktorar 50 á aldarafmælisári Háskóla Íslands.

Image
Hátíð brautskráðra doktora 2012