2015

Fyrsta skóflustunga að byggingu fyrir SVF

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra,  Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tóku fyrstu skóflustungu að nýbyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands 8. mars, á alþjóðadegi kvenna.

Byggingin fékk síðar nafnið Veröld - Hús Vigdísar Finnbogadóttur.

Image
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra taka fyrstu skóflustungu að nýbyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum 8. mars 2015.

Sólmyrkvahátíð

Háskóli Íslands og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness blésu til sólmyrkvahátíðar föstudaginn 20. mars, fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Um kl. 8:30 þann dag skall á sólmyrkvi sem var sýnilegur frá Reykjavík. Gestir fylgdust með myrkvanum með sérstökum sólmyrkvagleraugum í boði Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Hátíðin var liður í dagskrá HÍ á Alþjóðlegu ári ljóssins.

Image
Áhugasamir gestir fylgjast með sólmyrkva 20. mars 2015

Þjóðminjasafnið afhendir HÍ gömlu Loftskeytastöðina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður undirrituðu samning 17. febrúar, um að Þjóðminjasafn Íslands afhendi Háskóla Íslands gömlu Loftskeytastöðina við Brynjólfsgötu 5 til afnota.

Við undirritun samningsins  tók Háskóli Íslands við ábyrgð hússins, viðhaldi og viðgerðum auk þess að velja húsinu viðeigandi hlutverk sem hæfir sögu þess og byggingarsögulegu gildi, s.s. á sviði skipulags-, umhverfis- og menningarfræða og tæknigreina.

Image
Loftskeytastöðin við Brynjólfsgötu

Fleiri vilja út

Umsóknum um skiptinám frá Háskóla Íslands fjölgaði umtalsvert miðað við undanfarin ár. Alls bárust 374 umsóknir, þar af 250 umsóknir um nám innan Evrópu og 124 utan Evrópu.

Umsóknum um skiptinám innan Evrópu fjölgaði um tæplega 21% á milli ára.

Umsóknum um skiptinám utan Evrópu fjölgaði um 53% á sama tíma.

Skiptinám frá HÍ gerir nemendum kleift að stunda nám við fremstu háskóla heims þar sem annars gæti verið afar erfitt að fá inngöngu og veitir tækifæri á fjölbreyttara námsframboði, ekki síst á framhaldsstigi. Auk þess getur skiptinám opnað dyr fyrir nemendur sem hafa áhuga á að fara síðar í áframhaldandi nám við sama skóla eða í sama landi.

Image
Frá Alþjóðadögum 2015

Heimskort Ingjalds afhjúpað

Mánudaginn 9. febrúar komu vinir og samstarfsfólk dr. Ingjalds Hannibalssonar saman til minningarstundar, en Ingjaldur lést 25. október 2014.

Meðal annars var afhjúpaður minningarskjöldur um Ingjald, sem settur var upp í Ingjaldsstofu (HT-101), kennslustofu sem byggð var fyrir tilstilli Ingjalds.

Einnig var afhjúpað heimskort sem Ingjaldur var þekktur fyrir og merkti reglulega inn á þegar hann hafði komið til nýs lands. Skömmu fyrir andlát sitt tókst Ingjaldi að ljúka ferð sinni til allra 193 ríkja innan Sameinuðu þjóðanna.

Image
Ingjaldur Hannibalsson

Fimmhundraðasti doktorinn

Þriðjudaginn 2. júní varð Axel Hall fimmhundraðasti doktorinn sem brautskráðist frá Háskóla Íslands frá stofnun skólans.

Axel varði doktorsritgerð sína við Hagfræðideild. Hún ber heitið Skattar og atvinna á Norðurlöndum.

Image
Doktorsvörn Axels Hall, í Hátíðarsal Háskóla Íslands 2. júní 2015

Doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið hlýtur gæðavottun

Doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið hlaut á haustdögum gæðamerki ORPHEUS-samtakanna.

ORPHEUS-samtökin eru alþjóðleg samtök sem meta gæði doktorsnáms í líf- og heilbrigðisvísindum við evrópska háskóla. Markmið samtakanna er að standa vörð um að námið sé rannsóknar­tengt, sem og að auka atvinnu­tækifæri útskrifaðra doktora.

Háskóli Íslands var fimmti háskólinn í Evrópu til að hljóta vottunina.

Image
Nemendur við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Ristilskoðun á Háskólatorgi

Vegfarandi skoðar risaristil sem var til sýnis á Háskólatorgi í október 2015.

Ristillinn var sýndur í tilefni af árvekni- og fjáröflunarátakinu Bleika slaufan, sem Krabbameinsfélag Íslands stendur fyrir. Árið 2015 var áherslan lögð á fræðslu og forvarnir í tengslum við ristilkrabbamein.

Image
Gestur á Háskólatorgi virðir fyrir sér risaristil á Háskólatorgi í október 2015

Fyrsti prófessorinn í sjúkraþjálfun

Kristín Briem fékk framgang í stöðu prófessors í sjúkraþjálfun við Læknadeild 1. júlí þetta ár. Þar með varð hún fyrst til að gegna stöðu prófessors í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Námsbraut í sjúkraþjálfun var stofnuð við Læknadeild haustið 1976.

„Það sem virðist aðkallandi í dag er að efla starfsvettvang sjúkraþjálfara innan heilsugæslunnar, þ.e. að veita t.d. beinan aðgang að þjónustu sjúkraþjálfara þegar fólk leitar til heilsugæslunnar vegna stoðkerfiskvilla,“ sagði Kristín meðal annars í viðtali á vef Háskóla Íslands við þetta tilefni, er hún var spurð hvort hlutverk sjúkraþjálfara ætti eftir að breytast í framtíðinni.

Image
Kristín Briem, prófessor í sjúkraþjálfun

Jón Atli rektor

Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, tók við embætti rektors 30. júní.

Jón Atli fór með sigur af hólmi í rektorskjöri í apríl þetta ár, þar sem hann hlaut tæp 55% greiddra akvæða í seinni umferð kosninganna. Í framhaldinu tilnefndi háskólaráð Háskóla Íslands hann sem rektor til mennta- og menningarmálaráðherra sem skipaði Jón Atla rektor til næstu fimm ára.

Önnur í kjöri að þessu sinni voru Guðrún Nordal prófessor og Einar Steingrímsson prófessor. Í seinni umferð var kosið á milli Guðrúnar og Jóns Atla, þar sem ekkert þeirra fékk meirihluta greiddra atkvæða í fyrri umferðinni

Á myndinni eru Kristín Ingólfsdóttir fráfarandi rektor og Jón Atli Benediktsson við rektorsskiptin.

Image