2016
Háskólahermir
Hátt í þrjú hundruð framhaldsskólanemar heimsóttu Háskóla Íslands dagana 18. og 19. febrúar 2016 til þess að taka þátt í tilraunaverkefni sem kallast Háskólahermir.
Í Háskólaherminum taka nemendurnir virkan þátt í háskólasamfélaginu og kynnast námsframboði skólans með lifandi og stundum óvæntum hætti.
Háskólahermirinn er liður í að hjálpa ungu fólki að taka upplýsta og ígrundaða ákvörðun um náms- og starfsval að loknum framhaldsskóla.
Öflugt samstarf evrópskra háskóla
Samstarfsnet evrópskra háskóla, sem fékk nafnið Aurora, var stofnað formlega í Amsterdam 21. október. Þar með hóf Háskóli Íslands samstarf við átta mjög virta evrópska háskóla.
Skólarnir eiga það sameiginlegt að leggja í starfi sínu áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð skólanna og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans.
Á myndinni sjást rektorar háskólanna átta sem tóku þátt í stofnun Aurora-samstarfsnetsins.
Ný ofurtölva
Reiknistofnun Háskóla Íslands tók í notkun nýja ofurtölvu 22. apríl. Hún opnar möguleika til rannsókna sem byggjast á þungum tölvureikningum.
Sem dæmi um hagnýta notkun tölvunnar má nefna reikninga á afoxun koltvíoxíðs, eiginleikum og ferlum í sólhlöðum, reikninga á nýstárlegum rafeindakerfum og segulkerfum og úrvinnslu á fjarkönnunarmyndum frá gervihnöttum.
Á myndinni stendur Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar HÍ við nýju ofurtölvuna.
Höfði friðarsetur
Starfsemi HÖFÐA Friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hófst formlega 7. október.
HÖFÐI Friðarsetur starfar innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Setrið er vettvangur fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf með áherslu á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu.
Á myndinni eru fulltrúar Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar á stofndegi setursins.
Umhverfisvænni háskóli
Byrjað var að stíga svokölluð græn skref í ríkisrekstri í Háskólanum á haustmánuðum. Það er gert til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
Verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Það felur í sér mikinn ávinning og mun gera starf Háskólans markvissara í sjálfbærni- og umhverfismálum. Skrefin hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi skólans og draga úr rekstrarkostnaði.
Færnisetur við Hjúkrunarfræðideild
Nýtt færnisetur við Hjúkrunarfræðideild var opnað 10. nóvember. Með því var aðstaða til færnikennslu á Heilbrigðisvísindasviði stórbætt.
Færnisetrið er útbúið fullkomnum tækjabúnaði, meðal annars tölvustýrðum sýndarsjúklingum, fjölda hlutherma auk margvíslegra möguleika til gagnvirkrar kennslu með nýjustu tækni.
Markmiðið með Færnisetrinu er að nemendur í heilbrigðisvísindum fái kennslu og þjálfun í flestu því er snýr að meðferð sjúklinga. Þar er kennt í öruggum aðstæðum og hægt að endurtaka viðfangsefni eins oft og þörf krefur.
Á myndinni sést einn af sýndarsjúklingunum í meðferð á Færnisetrinu.