Áfram með þeim bestu
Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á Shanghai-listann yfir bestu háskóla heims á þessu ári. Listinn fyrir árið 2017 var birtur í ágúst og var Háskóli Íslands í sæti 401-500 á listanum.
Á lista Times Higher Education komst háskólinn í 201.-250. sæti fyrir tímabilið 2017-2018.
Á árinu komst Háskólinn einnig ofarlega á lista Times Higher Education, sem tóku sérstaklega til fræðasviða:
- Hugvísindi: 241. sæti (16. sæti á Norðurlöndum)
- Félagsvísindi: sæti 251-300 (13.-19. sæti á Norðurlöndum)
- Verkfræði og tækni: 176.-200. sæti
- Lífvísindi: 126.-150. sæti
- Heilbrigðisvísindi: 176.-200. sæti
- Raunvísindi: 176.-200. sæti
Vefur HÍ meðal fimm bestu ríkisvefjanna
Nýr vefur Háskóla Íslands, sem opnaður var snemmsumars þetta ár, var í hópi fimm bestu ríkisvefjanna samkvæmt úttekt á vegum stjórnvalda sem nefndist „Hvað er spunnið í opinbera vefi“.
Í úttektinni fólst mat á gæðum opinberrra vefja, þar sem m.a. var horft til rafrænnar þjónustu, möguleika á lýðræðislegri þátttöku, aðgengismála og fleiri þátta.
Veröld - hús Vigdísar opnuð
Nýbygging sem helguð er kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, fékk nafnið Veröld - hús Vigdísar á þessu ári. Efnt var til samkeppni um heiti á húsið og bárust alls 800 tillögur í keppnina.
Húsið var opnað við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta þetta ár, 20. apríl, að viðstöddu fjölmenni.