Lánasjóður stúdenta stofnaður
Sjóðurinn náði aldrei flugi. Deildir Háskólans veittu nemendum sínum hins vegar náms- og húsaleigustyrki en skólinn fékk fjármagn til styrkjanna úr ríkissjóði og allt frá stofnun skólans voru styrkirnir sérstakur liður á fjárlögum.
Skilyrðin sem Alþingi setti í upphafi voru að styrkina mætti aðeins veita reglusömum og efnalitlum nemendum og að húsaleigustyrkurinn ætti einungis að renna til utanbæjarmanna. Þrátt fyrir styrkjakerfið unnu flestir stúdentar á sumrin og margir sinntu launavinnu samhliða náminu til að geta framfleytt sér.
Fjáröflun vegna stúdentagarðs
Haustið 1922 hefjast nemendur við Háskóla Íslands handa við að afla fjár til byggingar stúdentagarðs. Fjáröflunin fór fram með ýmsum hætti, s.s. með söfnun áheita og sölu happdrættismiða. Stærri framlög einstaklinga, sýslu- og sveitarfélaga skiluðu þó mestu. Þeir sem greiddu 5.000 krónur til byggingar garðsins fengu að ráða nafni eins herbergis, sem var þá kennt við ákveðið hérað, bæ eða einstakling, og því hvaða stúdentar nytu forgangs við úthlutun þess.
Með þessum hætti safnaðist fé fyrir rúmlega helmingi byggingarkostnaðarins. Á lokasprettinum lagði ríkið til ríflega fjárhæð til byggingarinnar.