1931

Háskóli Íslands 20 ára

Í byrjun háskólaárs 1931-1932 fagnaði háskólinn 20 ára afmæli sínu. Við það tækifæri hélt háskólarektor, Ólafur Lárusson, ræðu þar sem hann rakti lauslega sögu skólans. Sagði hann m.a. að stúdentafjöldinn hefði þrefaldast á þessum 20 árum en samt byggi skólinn enn við sömu þrengslin og fyrr í bráðabirgðahúsnæðinu í Alþingishúsinu, sem raunar hefðu ágerst með fjölgun stúdentanna. Hann minntist á að hugmyndir um að takmarka aðgang að skólanum, sér í lagi að lagadeild og læknadeild, hefðu verið ræddar innan skólans. Væri það ekki síst vegna þess að í þessum stéttum væri „yfirfullt“.

Fjöldi þeirra sem lokið höfðu prófi frá HÍ

Rektor rakti að um 270 manns hefðu þegar lokið prófi frá skólanum frá upphafi og að þá um haustið væru tveir erlendir fræðimenn gestkomandi við skólann, annar frá Sorbonne-háskóla og hinn frá Berlínarháskóla, og báðir myndu þeir halda fyrirlestra við skólann.

Image
Ólafur Lárusson, háskólarektor

Háskólinn yfirfullur

Háskóli Íslands er yfirfullur og í húsnæðisvanda vegna fjölgunar nemenda. Þau eru nú orðin 165, 157 karlar og átta konur.

Image
Guðfræðinemar, ásamt Sigurði P. Sívertsen prófessor, í kennslustofu guðfræðideildar veturinn 1926-1927