1934

Fyrsti dráttur í Happdrætti Háskólans

Fyrsti dráttur í happdrætti háskólans fór fram í Iðnó hinn 10. mars 1934.

Fyrir miðri mynd er Pétur Sigurðsson háskólaritari, sem jafnframt var fyrsti framkvæmdastjóri Happdrættisins. Við hlið hans situr Jörgen Hansen, starfsmaður Háskólahappdrættisins og lengst af skrifstofustjóri þess, en lengst til hægri (standandi) er Ármann Jakobsson, síðar lögfræðingur og bankastjóri, sem þá var starfsmaður Háskólahappdrættisins.

Image
Frá fyrsta útdrætti Happdrættis Háskóla Íslands, í Iðnó 10. mars 1934

Dregið í fyrsta sinn í Happdrætti Háskóla Íslands 10. mars á leiksviðinu í Iðnó. Allt frá stofnun happdrættisins árið 1933 hefur það fjármagnað nær allar byggingar Háskóla Íslands. Húsnæði og tæki Háskólans eru því ekki keypt fyrir skattfé almennings, heldur að langstærstum hluta fyrir framlög frá HHÍ. Happdrætti Háskóla Íslands gekk mjög vel frá byrjun því að strax á fyrsta starfsárinu nam hreinn ágóði þess tæpum 100 þúsund krónum, eða nær einum sjötta hluta áætlaðs byggingarkostnaðar háskólabyggingarinnar.

Image
Dregið í fyrsta sinn í Happdrætti Háskóla Íslands 10. mars á leiksviðinu í Iðnó

Fyrstu stúdentarnir flytja inn á stúdentagarð

Fyrstu stúdentarnir flytja inn á stúdentagarðinn um haustið. Sumarið 1933 hafði verið hafist handa við byggingu stúdentagarðsins rétt sunnan við Hringbraut, um leið og hætt var við framkvæmdir sem þegar voru hafnar við slíka byggingu á Skólavörðuholti.

Image
Stúdentagarðurinn við Hringbraut. Teikning: Sigurður Guðmundsson, húsameisari ríkisins

Teikning Sigurðar Guðmundssonar

Stúdentagarðurinn var byggður eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar, húsameistara ríkisins, og tóku framkvæmdir skamman tíma. Í húsinu voru vistarverur fyrir 37 stúdenta, herbergi fyrir garðprófast, lestrarsalur, bókaherbergi og íþróttasalur í kjallara.

Image

Stúdentagarðurinn við Hringbraut

Stúdentagarðurinn við Hringbraut. Eftir að annar stúdentagarður reis fékk hann nafnið Gamli-Garður.

Image
Stúdentagarðurinn við Hringbraut, Gamli-Garður

Byggingarnefnd stofnuð

Fimm manna byggingarnefnd Háskóla Íslands komið á fót 16. maí að tillögu Sigurðar Nordals prófessors. Nefndin átti að hafa umráð og umsjón með háskólabyggingunni.

Erlendir kvensendikennarar

Fyrstu konurnar er kenndu við Háskóla Íslands með reglulegum hætti komu úr röðum erlendra sendikennara, þær Fanny Petitbon, franskur sendikennari á Íslandi á árunum 1934-1936, og Anna Z. Osterman, sænskur sendikennari 1938-1942.

Félag þjóðernissinnaðra stúdenta stofnað

Félag þjóðernissinnaðra stúdenta stofnað. Starfsemi félagsins beindist aðallega gegn Félagi róttækra háskólastúdenta sem stofnað hafði verið árinu áður og var yfirlýst markmið þess að vekja stúdenta til vitundar um óþjóðholla starfsemi marxista á Íslandi.