2010

Mannerfðafræðistofnun Íslands stofnuð

Íslensk erfðagreining, Landspítalinn og Háskóli Íslands settu á laggirnar Mannerfðafræðistofnun Íslands þetta ár til að efla mannerfðafræðirannsóknir og veita framhaldsnemum og ungum vísindamönnum tækifæri til þjálfunar. Gert er ráð fyrir að samstarfsaðilarnir myndi samstillta rannsóknaeiningu, sem nýtir það besta sem hver stofnun hefur fram að færa í formi sérþekkingar, mannauðs, rannsóknareynslu, gagnasafna og lífsýnabanka, til framfara í vísindum og til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og alþjóðasamfélagið.

Nemendafélög HÍ

Auk Stúdentaráðs voru árið 2010 starfrækt 60 nemendafélög á vegum nær allra námsgreina í Háskólanum og tengjast nöfn þeirra gjarnan námsgreinum í Háskóla Íslands.

Vigdís Finnbogadóttir áttræð

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, varð áttræð 15. apríl 2010. Í tilefni afmælisins heiðruðu fjölmörg félagasamtök og stofnanir, sem og ótal einstaklingar, frú Vigdísi með veglegri hátíðardagskrá í Háskólabíói. Afmælisdagskráin var nefnd „Þú siglir alltaf til sama lands“ og var hún bæði fjölbreytt og fjölsótt. Margir listamenn komu fram og fluttu Vigdísi og gestum list sína og ávörp voru flutt til heiðurs afmælisbarninu.

Vatnsmýrarhátíð Norræna hússins og háskólans

Vatnsmýrarhátíð Norræna hússins og háskólans sett 15. maí þetta ár við Norræna húsið. Frú Vigdís Finnbogadóttir setti hátíðina, sem helguð var vísindum og leik, umhverfi og náttúru, börnum landsins og barnamenningu.

Alþjóðadagur Háskóla Íslands

ámsmöguleikar erlendis kynntir á alþjóðadegi Háskóla Íslands þann 14. október þetta ár á Háskólatorgi. Háskóli Íslands starfar með fjöldamörgum háskólum viðs vegar um heiminn og hefur gert skiptisamninga við marga fremstu háskóla heims. Það er því eftir miklu að slægjast fyrir nemendur við Háskóla Íslands vilji þeir komast tímabundið út í nám og víkka um leið sjóndeildarhringinn, án þess að greiða fyrir það himinhá skólagjöld. Á alþjóðadeginum voru allir þessir möguleikar kynntir og einnig sú menning sem fylgir hverju landi.

Sex doktorsvarnir á sjö daga tímabili

Þann 14. júní 2010 varði Yuliya Tarabalka verkfræðingur doktorsritgerð sína „Classification of Hyperspectral Data Using Spectral/Spatial Approaches“. Doktorsvörn hennar var ein af þeim sex sem fóru fram við Háskóla Íslands í vikunni 11.-18. júní þetta ár.

Er það einsdæmi í starfsemi skólans en þess má geta að Háskóli Íslands er eini háskólinn hér á landi sem heimilt er að brautskrá doktora af öllum fræðasviðum sínum. Allar doktorsvarnir við Háskóla Íslands eru opnar almenningi.

Image
Yuliya Tarabalka