2009

Fyrirlestraröðin Mannlíf og kreppur

Fyrirlestraröðin Mannlíf og kreppur – málþing og ráðstefnur um hrunið hefst. Í fyrirlestraröðinni var fjallað um stærsta mál samtímans hér á landi, fall íslensku bankanna og áhrif þess á innviði íslensks samfélags.

Happdrætti Háskóla Íslands 75 ára

Byggingar háskólans hafa nær eingöngu verið kostaðar af happdrættisfé. Af því tilefni var sett upp sérstök afmælissýning í Smáralind. Þótt Happdrættið hafi staðið undir byggingum háskólans hafa 70% af tekjum þess runnið aftur til miðaeigenda í formi vinninga, sem er með hæsta vinningshlutfalli sem þekkist í heiminum.

Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr

Á árinu er Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni sett á laggirnar á vegum Lagadeildar.

Miðstöð framhaldsnáms

Miðstöð framhaldsnáms sett á laggirnar árið 2009. Tilgangur hennar er að hafa umsjón með settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands og fylgja þeim eftir.

Dalai Lama heimsækir Háskóla Íslands

Nóbelsverðlaunahafinn Dalai Lama heimsækir Háskóla Íslands í boði rektors og Hugvísindasviðs þann 2. júní þetta ár. Dalai Lama átti samverustund með stúdentum og starfsfólki skólans. Samkoman fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu. Dagskráin var á þá leið að Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, setti samkomuna, síðan hélt Dalai Lama framsögu og að því búnu átti hann samræðu við þrjá kennara Háskólans.

Það voru þau Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði, Páll Skúlason, prófessor í heimspeki og fyrrverandi háskólarektor, og Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki. Samkomunni stýrði Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði og forseti Hugvísindasviðs. Samkoman var ætluð stúdentum Háskólans og starfsfólki hans.

Háskóli Íslands á Laugarvatni

Háskóli Íslands setur mikinn svip á mannlífið á Laugarvatni en þar fer fram kennsla í grunnnámi íþrótta- og heilsufræða, sem heyrir undir Menntavísindasvið. Allt bóklegt nám fer fram í húsnæði Menntavísindasviðs og allt verklegt nám fer fram í þeim íþróttamannvirkjum sem háskólinn á og rekur.

Nýsköpunarmessa

Hinn 18. nóvember stóð Háskóli Íslands fyrir sérstakri Nýsköpunarmessu. Viðburðurinn var hluti af alþjóðlegri athafnaviku sem fer fram samtímis í meira en 100 löndum. Mikið fjölmenni mætti á Háskólatorg í því skyni að kynnast því hvernig litlar hugmyndir geta orðið að traustum og framsæknum fyrirtækjum sem skapa fjölda starfa með umtalsverða veltu. Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson.

Nýsköpunarmessa haldin í fyrsta sinn við Háskóla Íslands um miðjan nóvember en að henni stóðu eftirtaldir aðilar: Rannsóknaþjónusta Háskóla Íslands, Upplýsingastofa um einkaleyfi, Innovit, Einkaleyfastofa, Árnason-Faktor og Impra. Messan var hluti af alþjóðlegri athafnaviku sem fór fram samtímis í meira en 100 löndum. Kynnt voru fjöldamörg sprotafyrirtæki sem eiga rætur að rekja til Háskóla Íslands. Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um gildi nýsköpunar og athafnasemi fyrir samfélagið.

Image
Nýsköpunarmessa

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra

Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hleypt af stokkunum í nóvember 2009 en setrið tók formlega til starfa á degi bókarinnar þann 23. apríl árið eftir. Vígslan fór fram á Skagaströnd þar sem setrið er til húsa.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra flutti ávarp við stofnunina.

Image
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra flytur ávarp við stofnun Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra