1941

Opnir fyrirlestrar í HÍ fyrir almenning

Rektor Háskóla Íslands próf. Alexander Jóhannson gekkst fyrir því að haldnir yrðu fyrirlestrar fyrir almenning í skólanum, því aðstaðan í hinum nýju húsakynnum bauð upp á rýmri aðstöðu til þessa. Þegar á fyrsta starfsári skólans í Aðalbyggingu fluttu nokkrir háskólakennarar fræðandi fyrirlestra, hver úr sinni grein. Fræðslufyrirlestrarnir urðu reglulegir mörg ár, en þeir voru fluttir á sunnudögum í hátíðasal háskólans og öllum heimill aðgangur, meðan húsrúm leyfði. Tímarit var því gefið út þar sem fyrirlestrar voru prentaðir, á árunum 1941-1954.

Háskólaráð leigir Tjarnargötu 10 D undir kvikmyndahúsarekstur

Háskólaráð sækir um það til bæjarstjórnar að fá á leigu hús undir kvikmyndarekstur, sem Reykjavíkurbær átti í Tjarnargötu 10 D og áður hafði verið notað til ísgeymslu. Samþykkti bæjarstjórn að leigja háskólanum húsið. Vinna við breytingar á húsinu hófst í nóvember 1941, undir stjórn arkitektana Eiríks Einarssonar og Sigurðs Guðmundssonar. Kvikmyndahúsið tók síðar til starfa tæpu ári síðar og hlaut nafnið Tjarnarbíó en það tók 387 manns í sæti. Reksturinn skilaði Sáttmálasjóði töluverðum ágóða. Starfsemin var undanfari byggingar Háskólabíós.

Lagadeild verður að laga- og hagfræðideild

Heiti lagadeildar breytist í laga- og hagfræðideild (síðar viðskiptadeild) er formleg samvinna þessara deilda hófst. Árið 1962 varð lagadeild aftur sérstök háskóladeild. Viðskiptaháskólinn, sem hafði starfað um skamma hrið áður, var lagður niður þegar Háskóli Íslands tók upp kennslu í viðskipta- og hagfræði við lagadeildina.