1942

Almennt eftirlit með námi stúdenta tekið upp

Með háskólareglugerð þetta ár var fyrst tekið upp almennt eftirlit með námi stúdenta. Þessu var aðallega fylgt eftir með tvennum hætti: annars vegar með tilhögun prófa og hins vegar með námsferilsbókum. Einnig var reynt að koma á fastri skipan námsgreina. Reglugerðin var samin í kjölfar setningar nýrra laga og var hún staðfest 30. júní þetta ár.

Húsmæðrakennaraskóli Íslands fær afnot af kjallara háskólans

Að tilmælum ríkisstjórnarinnar fær Húsmæðrakennaraskóli Íslands afnot af húsnæði í kjallara Aðalbyggingar háskólans þetta ár. Húsnæðið átti að vera til bráðabirgða en skólinn ílengdist þar til vorsins 1954. Tók háskólinn húsrýmið þá til sinna eigin þarfa.

BA-nám í námsgreinum heimspekideildar hefst

BA-nám hefst í námsgreinum heimspekideildar. Námið var hugsað sem hagnýtt nám tengt kennslustörfum.

Byggingarnefnd Nýja-Garðs

Byggingarnefnd Nýja-Garðs, skipuð vorið 1942.

Í fremri röð, lengst til vinstri á myndinni, er Ásgeir Ásgeirsson, bankastjóri (síðar forseti Íslands 1952-1968), skipaður af ríkisstjórninni, í miðið er Alexander Jóhannesson, rektor Háskóla Íslands, og lengst til hægri er Ágúst H. Bjarnason prófessor, skipaður af háskólaráði.

Enn fremur voru í nefndinni lagastúdentarnir Pétur Thorsteinsson, Benedikt Bjarklind, Lárus Pétursson og Ásberg Sigurðsson.

Image
Byggingarnefnd Nýja-Garðs 1942