Hollusta og hreyfing
Lífsstíll 7-9 ára barna
Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði, greinir frá langtímarannsókn sem hann vinnur að með samstarfsmönnum sínum við Háskóla Íslands. Rannsökuð eru áhrif hreyfingar og hollustu í mataræði á heilbrigði barna og ungmenna.
Eru börnin okkar feit og löt?
„Offita meðal ungs fólks hefur aukist stórlega á undanförnum árum og er fyrirsjáanlegt heilbrigðisvandamál í framtíðinni" segir Erlingur, sem vinnur að rannsókn sem bæði mun kortleggja heilsufar barna í 2.-4. bekk í sex grunnskólum í Reykjavík og stuðla að sértækum íhlutunaraðgerðum til að auka hreyfingu barnanna og gera mataræði þeirra hollara. Með Erlingi í rannsóknahópnum eru prófessorarnir Inga Þórsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson. Þá eru í hópnum þrír doktorsnemar, þau Ása Guðrún Kristjánsdóttir næringarfræðingur, Hannes Hrafnkelsson læknir og Kristján Þór Magnússon faraldsfræðingur.
„Rannsóknir hafa leitt í ljós að um fimmtungur barna á aldrinum 7-9 ára er of þungur og fer hlutfallið hækkandi" segir Erlingur. „Skýringar á ofþyngd barna liggja að nokkru leyti í lífsstíl þeirra, hreyfingarleysi, óhollu mataræði, sjónvarpsglápi og löngum setum fyrir framan tölvuskjái. Börn sem eru of þung geta síðar á ævinni átt á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma, auk þess sem tíðni fullorðinssykursýki er hærri hjá þeim sem stríða við offitu en hjá hinum sem halda sig nærri kjörþyngd. Rannsóknin leggur grundvöll að forvörnum gegn offituvandanum, en einnig prófun á því hve mikið er hægt að gera til að bæta aðstæður barna og stuðla að heilbrigðari lífsstíl almennt. Með þessari rannsókn vinnst tvennt: Annars vegar fáum við stöðumat á mikilvægum heilsufarsþáttum hjá stórum hópi barna, hins vegar fáum við innsýn í vandamálið og getum á grundvelli íhlutunaraðgerðanna fengið dýrmætar upplýsingar um hvernig best sé að bregðast við vandanum."
Hvernig er rannsóknin framkvæmd?
„Rannsóknin hófst árið 2006 og lauk í lok árs 2008. Helmingur barnanna er í íhlutunarhópi og helmingur í viðmiðunarhópi. Íhlutunaraðgerðir voru skipulagðar í náinni samvinnu við umsjónarkennara, skólastjóra og starfsmenn skóla. Meðal íhlutunaraðgerða er aukin útivera og breytingar á kennsluháttum t.d. með því að nota leiki og hreyfingu í auknum mæli og vinna með starfsfólki skólamötuneyta til að bæta mataræðið".
Hvert verður hlutverk foreldra?
„Mikilvægur hluti íhlutunaraðgerða rannsóknarinnar var að ná góðu sambandi við foreldra. Við leituðumst við að kynna verkefnið vel fyrir foreldrum í aðdraganda rannsóknarinnar. Á meðan á verkefninu stóð vorum við með fræðslufundi um hreyfingu og hollt mataræði auk þess sem foreldrar höfðu aðgang að heimasíðu með upplýsingum og ráðgjöf."
Skólarnir sem taka þátt í verkefninu eru, Árbæjarskóli, Fossvogsskóli, Ingunnarskóli, Langholtsskóli, Laugarnesskóli og Seljaskóli. Styrkir til rannsóknarinnar hafa komið frá Rannsóknasjóði sem er í umsjá Rannís, menntamálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Þá er sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. öflugur bakhjarl rannsóknarinnar. Samstarfið við Brim er þríþætt og felur í sér beinan styrk til verkefnisins auk þess sem rannsóknahópurinn miðlar þekkingu sinni til starfsmanna Brims og að meistaraverkefni verða unnin hjá fyrirtækinu. „Við erum sérstaklega ánægð með að fá þennan stuðning frá Brim hf. Fræðasamfélagið og atvinnulífið mætast þarna með athyglisverðum hætti," segir Erlingur.