
„Ég hygg, að háskólinn eigi að stíga enn stærra spor og fyrirskipa íþróttakennslu meðal stúdenta eða með öðrum orðum krefjast prófs í íþróttum áður en hinir ungu menn fá leyfi til þess að ganga undir embættispróf.”
Svo mælti Alexander Jóhannesson rektor á háskólahátíð árið 1934. Honum þótti mikilvægt að stúdentar ræktuðu líkama sinn samhliða náminu og vildi ganga svo langt að taka upp íþróttaskyldu. Þó svo að skiptar skoðanir hafi verið um íþróttaskylduna varð hún öðru fremur til þess að íþróttahús háskólans var reist.
Valdimar Örnólfsson starfaði sem íþróttastjóri Háskóla Íslands um árabil og þekkir sögu íþrótta við skólann betur en flestir. Hann samþykkti með ánægju að líta um öxl og rifja upp það helsta í áhugaverðri íþróttasögu skólans.
Frekir stúdentar
Fyrstu merki um íþróttaáhuga innan háskólans má rekja til ársins 1922. Þá samþykkti ríkisstjórnin í fyrsta sinn að veita háskólanum fé til þess að gefa stúdentum kost á ókeypis leikfimi og böðum. Á þessum tíma voru 122 nemendur við skólann.
„Árið 1926 fannst ríkisstjórninni svo nóg um frekjuna í stúdentum og gaf þeim ekki krónu það árið,” segir Valdimar og skellir upp úr. Bónir stúdenta báru þó árangur því árin eftir var alltaf einhverri upphæð veitt til íþrótta við skólann.
Nokkrir áhugamenn um íþróttir stofnuðu Íþróttafélag háskólans, síðar Íþróttafélag stúdenta, þann 21. janúar árið 1928. Það var svo árið 1932 sem eitthvað skipulag komst á starfsemina hjá íþróttafélaginu. Benedikt Jakobsson íþróttafrömuður var þá nýkominn heim frá Svíþjóð og var fenginn til þess að kenna íþróttir hjá félaginu. Að sögn Valdimars var Benedikt sérstakur áhugamaður um fimleika og körfuknattleik auk þess sem hann var landsliðsþjálfari í frjálsum íþróttum.
„Hann var meðal þeirra fyrstu til þess að fá erlendan þjálfara til landsins til að kenna körfuknattleik og stúdentar náðu mjög góðum árangri í íþróttinni í kjölfarið.”