Header Paragraph

Íþróttir við Háskóla Íslands – litið um öxl

Image
Brugðið á leik á flötinni fyrir aftan íþróttahús Háskólans á góðviðrisdegi.

„Ég hygg, að háskólinn eigi að stíga enn stærra spor og fyrirskipa íþróttakennslu meðal stúdenta eða með öðrum orðum krefjast prófs í íþróttum áður en hinir ungu menn fá leyfi til þess að ganga undir embættispróf.”

Svo mælti Alexander Jóhannesson rektor á háskólahátíð árið 1934. Honum þótti mikilvægt að stúdentar ræktuðu líkama sinn samhliða náminu og vildi ganga svo langt að taka upp íþróttaskyldu. Þó svo að skiptar skoðanir hafi verið um íþróttaskylduna varð hún öðru fremur til þess að íþróttahús háskólans var reist.

Valdimar Örnólfsson starfaði sem íþróttastjóri Háskóla Íslands um árabil og þekkir sögu íþrótta við skólann betur en flestir. Hann samþykkti með ánægju að líta um öxl og rifja upp það helsta í áhugaverðri íþróttasögu skólans.

Frekir stúdentar

Fyrstu merki um íþróttaáhuga innan háskólans má rekja til ársins 1922. Þá samþykkti ríkisstjórnin í fyrsta sinn að veita háskólanum fé til þess að gefa stúdentum kost á ókeypis leikfimi og böðum. Á þessum tíma voru 122 nemendur við skólann.

„Árið 1926 fannst ríkisstjórninni svo nóg um frekjuna í stúdentum og gaf þeim ekki krónu það árið,” segir Valdimar og skellir upp úr. Bónir stúdenta báru þó árangur því árin eftir var alltaf einhverri upphæð veitt til íþrótta við skólann.

Nokkrir áhugamenn um íþróttir stofnuðu Íþróttafélag háskólans, síðar Íþróttafélag stúdenta, þann 21. janúar árið 1928. Það var svo árið 1932 sem eitthvað skipulag komst á starfsemina hjá íþróttafélaginu. Benedikt Jakobsson íþróttafrömuður var þá nýkominn heim frá Svíþjóð og var fenginn til þess að kenna íþróttir hjá félaginu. Að sögn Valdimars var Benedikt sérstakur áhugamaður um fimleika og körfuknattleik auk þess sem hann var landsliðsþjálfari í frjálsum íþróttum.

„Hann var meðal þeirra fyrstu til þess að fá erlendan þjálfara til landsins til að kenna körfuknattleik og stúdentar náðu mjög góðum árangri í íþróttinni í kjölfarið.”

Titill
Leikfimi í íþróttahúsinu

Text

Valdimar stýrir leikfimi

Image
Image
Valdimar Örnólfsson stýrir leikfimi

Glímusýning í Þýskalandi

„Árið 1929 var merkisár í sögu íþrótta við HÍ því það ár fóru íþróttamenn í fyrsta sinn til útlanda fyrir hönd skólans,” segir Valdimar. Þar voru á ferðinni 10 stúdentar sem sýndu glímu á stúdentamóti í Kiel í Þýskalandi. Sem viðurkenningu fyrir sýninguna fengu stúdentarnir glæsilega styttu af ljóni. Ljónið má enn þann dag í dag finna í anddyri íþróttahússins.

Á þessum árum nutu fimleikar og handknattleikur mestra vinsælda ásamt knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Þá voru stúdentar duglegir að synda og 1937 beitti stúdentaráð sér fyrir því að stúdentar fengju afslátt í Sundhöll Reykjavíkur sem síðar breyttist í ókeypis aðgang að öllum sundlaugum Reykjavíkur í allmörg ár.

Titill
Fyrir utan íþróttahúsið

Text

Brugðið á leik á flötinni fyrir aftan íþróttahúsið á góðviðrisdegi

Image
Image
Brugðið á leik á flötinni fyrir aftan íþróttahús Háskólans á góðviðrisdegi.

Leikfimi og sund að skyldugreinum

Það sem ýtti íþróttum fyrir alvöru úr vör við háskólann að sögn Valdimars var þegar fyrrnefndur Alexander Jóhannesson var kjörinn rektor árið 1932. Alexander hafði brennandi áhuga á að stúdentar fengu jafnt andlega sem líkamlega þjálfun. Árið 1940 samþykkti Alþingi íþróttalög sem gerðu HÍ og öðrum ríkisskólum skylt að sjá um íþróttakennslu fyrir nemendur sínar en fram til þessa hafði öll íþróttastarfsemi innan skólans verið á vegum íþróttafélagsins. Stúdentaráð greip boltann á lofti og skipaði nefnd í samráði við Alexander rektor til að koma með tillögur að íþróttaiðkun stúdenta. Nefndin lagði það til að leikfimi og sund yrðu gerðar að skyldunámsgreinum auk þess sem byggja þyrfti íþróttahús.

Í íþróttaskyldunni fólst að nemandi sem vildi ganga til embættisprófs varð að sýna fram á að hann hefði sótt áttatíu kennslustundir í leikfimi og fjörutíu í sundi. Auk þess þurfti nemandinn að þreyta sundpróf; 200 metra bringusund, 25 metra björgunarsund auk dýfingar af palli. Háskólinn gat sökum aðstöðuleysis ekki framfylgt skyldunni fyrr en 1948 þegar íþróttahús háskólans var tekið í notkun.

Íþróttaskyldan hafði einnig í för með sér að fyrsti íþróttakennarinn var fastráðinn við skólann. Benedikt Jakobsson fimleikastjóri hafði þá kennt íþróttir í háskólanum í tíu ár á vegum Íþróttafélags stúdenta en varð nú starfsmaður háskólans. Hann átti eftir að stýra íþróttalífi í háskólanum af miklum sóma í 25 ár til viðbótar.

Titill
Tækjasalurinn

Text

Tækjasalurinn á efri hæð íþróttahússins

Image
Image

„Þoldi ekki þessa boltaleiki”

„Merkilegt nokk fór að bera á óánægju stúdenta að þurfa að uppfylla íþróttaskylduna,” segir Valdimar. Óánægjan náði hámarki árið 1951 þegar stúdentar efndu til mótmæla. Tveimur árum síðar smöluðu þeir nógu mörgum á fund til þess að leggja til við háskólaráð að íþróttaskyldan yrði lögð niður.

„Þarna voru menn sjálfum sér verstir því háskólayfirvöld hættu við áform um byggingu sundlaugar og áhugi á að halda uppi íþróttakennslu í háskólanum snarminnkar,” segir Valdimar. Skyldan var svo afnumin í lögum árið 1957.

Ýmsir núlifandi menn hafa rifjað upp íþróttaskylduna í samtölum við Valdimar. „Sigurður Líndal sagðist alltaf hafa uppfyllt skylduna þangað til hann var skikkaður í boltaleiki. Hann þoldi ekki þessa boltaleiki,” rifjar Valdimar upp og hlær. Þá á Alexander rektor að hafa tekið Þór Vilhjálmsson á teppið og ávítt hann fyrir að uppfylla ekki íþróttaskylduna. Því virðist sem töluvert hafi verið gengið eftir mönnum að uppfylla skylduna.

Titill
Blak í íþróttahúsinu

Text

Blak hefur notið vinsælda í gegnum tíðina.

Image
Image

„Íþróttahúsið ætlað stúdentum”

Sem fyrr segir var íþróttahúsið tekið í notkun árið 1948 og fyrirhugað var að reisa sundlaug á svæðinu. Íþróttahúsið var mikil lyftistöng fyrir stúdenta en einnig fyrir íþróttir almennt í borginni. Til að fjármagna rekstur hússins var það leigt út til íþróttafélaga, skóla og annarra sem sýndu áhuga. Árið 1967 tók Valdimar við sem íþróttastjóri háskólans. Á þeim tímapunkti var íþróttahúsið ekki opið stúdentum nema tvo tíma á dag. Aðrir tímar voru í útleigu til aðila utan háskólans.

„Það tók sinn tíma að koma stjórn háskólans í skilning um að íþróttahúsið væri ætlað stúdentum fyrst og fremst. Ég þurfti meira að segja leyfi til þess að segja upp leigjendunum. Þar á meðal voru skólar og ég varð að gera það sjálfur því háskólinn vildi ekkert með það hafa. Það var ekki fyrr en 1972 sem íþróttahúsið varð að fullu laust fyrir stúdenta. Þá fyrst gátu þeir notað húsið og áhuginn leyndi sér ekki. Tímar í húsinu fylltust af stúdentum um leið.”

Titill
Hentugt hús

Text

Íþróttahús af þeirri gerð sem Valdimar taldi að myndi henta íþróttastarfsemi Háskóla Íslands.

Tekining af 4000 fm húsi sem talið er henta Háskólanum vel. Þar komast fyrir 2 handboltavellir, 8 hnitvellir, 3-4 körfubolta- og blakvellir, hlaupabraut fyrir skokkara, lyftingatækjasalur, áhorfendasvæði, félagsaðstaða, veitingasalur, rannsóknarstofur o.fl.

Teikninguna gerði Gísli Halldórsson, arkitekt, formaður Ólympíunefndar Íslands, 1987 fyrir HSÍ)

Image
Image
Íþróttahús af þeirri gerð sem Valdimar taldi að myndi henta íþróttastarfsemi Háskóla Íslands

Rússar sögðu stúdentum til í blaki

Valdimar segir marga góða blakmenn hafa verið við nám í skólanum. Flestir þeirra höfðu kynnst íþróttinni í Menntaskólanum á Laugarvatni og á Akureyri. Valdimar vissi af góðum blakmönnum í rússneska sendiráðinu og fékk þá til þess að æfa og keppa við stúdentana. Einn Rússanna, Josef Podrazahnetz, gat bjargað sér ágætlega á íslensku og Valdimar fékk hann til þess að kenna stúdentunum nýjustu tækni og reglur í blaki.

Valdimar segir að tími hafi verið kominn til þess að stúdentarnir fengju að spreyta sig gegn öðrum en Rússunum og var það ástæðan fyrir símtali hans til Akureyrar árið 1969.

„Ég hringdi í Hermann Stefánsson íþróttakennara við MA sem var einn af frumkvöðlum blaks á Íslandi og bað hann um að standa fyrir blakmóti. Hann var tregur til en haldið hafði verið fast í gamlar reglur á Akureyri þar sem t.d. framlínan og baklínan var alltaf sú sama,” rifjar Valdimar upp.

Aðstoðarkennari hans Vilhjálmur Ingi Árnason var öllu spenntari og vildi halda mótið. Joseph var sendur norður tveimur dögum fyrr til þess að kenna Norðanmönnum nýjustu reglur í blakinu. Auk stúdenta kepptu lið MA sem sigraði í mótinu og lið Ungmennasambands Eyjafjarðar. Mótið varð kveikjan að Íslandsmótinu í blaki sem haldið var ári síðar og stóðu stúdentar uppi sem sigurvegarar.

Titill
Verðlaunaskápur

Text

Ljónið á toppi verðlaunaskáps í anddyri íþróttahússins.

Image
Image
Ljónið á toppi verðlaunaskáps í anddyri íþróttahússins.

Mikill íþróttaáhugi

Eftir að stúdentar fengu íþrótthúsið út af fyrir sig varð sprengja í íþróttaáhuga þeirra. Boðið var upp á kennslu í ákveðnum íþróttagreinum samkvæmt stundarskrá en utan þeirra tíma gátu stúdentahópar tekið salinn á leigu. Valdimar sá um alla kennslu fyrstu árin auk þess sem hann fór með hópa á skíði um helgar. Síðar fékk hann fjárveitingu fyrir stundarkennurum til aðstoðar.

Fljótlega varð eftirspurn eftir tímum í íþróttahúsinu svo mikil að taka þurfti sali í íþróttahúsum bæjarins á leigu eins og mögulegt var. Um tíma leigðu stúdentar úr HÍ sali í fjórum íþróttahúsum. Hefðbundið var að háskólinn greiddi helming leigunnar til móts við stúdenta. Viðsnúningurinn var því heilmikill á fáeinum árum.

Titill
Gufubaðið

Text

Önnur af tveimur viðbótum við íþróttahúsið frá byggingu þess: Gufubaðið.

Image
Image
Önnur af tveimur viðbótum við íþróttahúsið frá byggingu þess: Gufubaðið.

Mikið talað en lítið gert

Eins og áður hefur verið nefnt kæfðu mótmælin við íþróttaskyldunni niður öll áform um byggingu sundlaugar. Þegar íþróttaáhuginn óx á nýjan leik kom framkvæmdahugurinn aftur upp á borðið. Ýmsar tillögur voru gerðar um stækkun íþróttahússins og byggingu nýs húss auk þess sem hugmynd að byggingu sundlaugar á háskólasvæðinu var endurvakin. Enn þann dag í dag hefur ekkert hefur orðið af margfyrirhugaðri íþróttamannvirkjagerð við háskólann.

Valdimar segir áætlanir í mörgum tilfellum hafa verið komnar vel á veg en yfirleitt strandað á áhugaleysi háskólaráðs. Þá hafi ýmsar leiðir verið athugaðar. Samstarf við Handknattleikssamband Íslands, Knattspyrnufélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg var skoðað en allt kom fyrir ekki. Auk þess var fyrirhugað svæði undir íþróttahús notað undir byggingu stúdentagarða. Sú ákvörðun háskólayfirvalda að setja íþróttir við skólann aftarlega í forgangsröðina hafði mikil og neikvæð áhrif á virkt og skemmtilegt íþróttastarf í skólanum að sögn Valdimars.

„Íþróttahúsið dróst smám saman aftur úr. Stúdentar leituðu í betri aðstöðu í nýjum og stærri íþróttahúsum.”

Grundvöllur fyrir keppnisliði við háskólann varð lítill vegna aðstöðuleysis. Þökk sé íþróttahúsi kennaraháskólans hélt ÍS úti keppnisliðum í körfuknattleik og blaki fram yfir aldamót.

„Árið 2002 hætti háskólinn að styrkja Íþróttafélag stúdenta og kippti þar með fótunum undan starfsgrundvelli félagins. Félagið er enn til en í raun bara að nafninu. Örfáir hópar stunda blak og körfubolta en keppa ekki í mótum,” segir Valdimar og stendur greinilega ekki á sama.

Titill
Verðlaunaskápur

Text

Einn nokkurra verðlaunaskápa í anddyri íþróttahússins.

Image
Image
Einn nokkurra verðlaunaskápa í anddyri íþróttahússins

Saknar aðkomu stúdentaráðs

Einu viðbæturnar við íþróttaaðstöðu stúdenta frá 1948 eru gufubaðið í kjallara íþróttahússins auk lyftingaaðstöðunar á efri hæð hússins.

„Til stóð að nýta efri hæð hússins undir bóknámskennslu en mér tókst að lokum að sannfæra háskólaráð um mikilvægi þess að stúdentar hefðu aðgang að tækjasal. Þeir nutu mikilla vinsælda í samfélaginu um þær mundir,” segir Valdimar. Salurinn var tekinn í notkun árið 1997.

Valdimar, sem lét af störfum upp úr aldamótum þegar hann komst á eftirlaunaaldur og staða íþróttastjóra var lögð niður, segist hafa saknað þess að stúdentaráð berðist fyrir bættri íþróttaaðstöðu. Valdimar nefnir dæmi þess að stúdentar erlendis hafi tekið málin í sínar hendur.

„Stúdentaráð við háskólann í Osló sá til að mynda um uppbyggingu íþróttahúss við skólann. Það fær ennfremur styrki til þess að standa straum af íþróttakennslu sem boðið er upp á. Stúdentaráð HÍ þarf að taka málið upp á sína arma,” segir Valdimar sem er ekki sáttur við stöðu mála í dag. Takmörkuð íþróttastarfsemi fari fram í húsinu vegna smæðar þess. Aðeins brot af stúdentafjöldanum komist þar að. Það vanti sárlega stórt og vandað íþróttahús eins og það sem hann og fleiri góðir menn hefðu lagt til að byggja á sínum tíma.

„Ástandið er í raun og veru ekki skömminni skárra en þegar ég tók við 1967,” segir Valdimar að lokum.

Greinarhöfundur: Kolbeinn Tumi Daðason.