Header Paragraph

Lyf ferjuð með nanótækni

Image
Nanó - ljósörvunarefni

Nanó - Ljósörvunarefni

Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði, og Vivek Gaware, doktorsnemi í lyfjafræði, segja frá nanótækni og hvernig lyfjaferjur og ljós gegna lykilhlutverki í lækningum á krabbameini. Þeir segja frá lækningum með ljósörvunartækni. Verkefnið er unnið í samstarfi við erlenda vísindamenn.

Rannsókn á nýrri meðhöndlun krabbameins, sem Vivek S. Gaware doktorsnemi við Háskóla Íslands vinnur að frekari þróun á í samstarfi við erlenda aðila, hefur vakið gríðarlega athygli í Bretlandi. Fjallað var um rannsóknina í breska blaðinu The Times fyrir nokkru og það verður einnig gert í lokaþætti vísindaraðarinnar Fjársjóður framtíðar. Í lokaþættinum er rætt við Vivek og leiðbeinanda hans, Má Másson prófessor.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa góð fyrirheit um að unnt sé að vinna bug á ýmsum krabbameinum á höfði og hálsi sem áður voru talin ill- eða ólæknanleg. Rannsóknin er á vegum Norsks fyrirtækis, PCI Biotech og er unnin af læknum við University College Hospital í London.

Rannsóknin snýst um að beita nýrri tækni til krabbameinsmeðferðar. Ellefu sjúklingar með langt komin krabbamein tóku þátt í rannsókninni. Nýju rannsóknalyfi, Amphinex, var sprautað í æð nokkrum dögum áður en sjúklingurinn hlaut hefðbundna lyfjameðferð. Amphinex hefur þá náttúru að örva ljósstýrða upptöku lyfja í krabbameinsfrumur.

Í kjölfar lyfjameðferðarinnar var ljósi beint að krabbameinsæxlinu og við það jókst til muna virkni lyfjameðferðarinnar. Meðhöndluð æxli hurfu og engar alvarlegar aukaverkanir komu fram í rannsókninni.

Einn níu starfsmanna PCI Bioteche er Vivek S. Gaware, doktorsnemi við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, en leiðbeinandi í verkefni hans er Már Másson prófessor. Rannsóknaverkefni Viveks miðar að frekari þróun á þessari nýstárlegu meðferð. Norska fyrirtækið á í samvinnu við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og er með starfsstöð hér á landi.