Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum
Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum hefur starfsemi í nóvember þetta ár og hefur tvær starfsstöðvar: í Bolungarvík og á Patreksfirði. Háskóli Íslands, Náttúrustofa Vestfjarða og Bolungarvíkurkaupstaður eru samstarfsaðilar og skipa stjórn setursins ásamt fulltrúa frá Fjórðungssambandi Vestfjarða.
Styrkjakerfi komið á fót fyrir aðstoðarkennara úr Rannsóknasjóði háskólans
Styrkjakerfi komið á fót fyrir aðstoðarkennara úr Rannsóknasjóði háskólans. Markmiðið er að gera framhaldsnemum kleift að annast hóflega kennslu samfara rannsóknaverkefnum sínum. Sama ár var í fyrsta sinn úthlutað doktorsstyrkjum úr Rannsóknasjóðnum, annars vegar gátu leiðbeinandi og nemandi sótt saman um styrk og hins vegar eingöngu leiðbeinandi.
Hornsteinn lagður að Háskólatorgi
Hornsteinn að Háskólatorgi Háskóla Íslands lagður við athöfn á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Í hólki hornsteinsins, sem er úr ryðfríu stáli, er merki Háskóla Íslands og teikningar af byggingunum, bæði prentaðar og á minnislykli, ásamt sögu Háskólatorgs frá því að hugmyndin kom fyrst fram og allt til þess að hornsteinninn var lagður.
Háskólatorg, Gimli og Tröð vígðar
Háskólatorg, Gimli og Tröð voru vígðar með viðhöfn laugardaginn 1. desember árið 2007. Byggingarnar eru samtals um 10.000 fermetrar. Háskólatorg er á milli Aðalbyggingar og Íþróttahúss háskólans. Þar er að finna veitingasölu, stóra fyrirlestrarsali og rúmgott alrými. Þar er einnig þjónustuborð fyrir nemendur og gesti Háskólans.