1919
84 stúdentar skráðir í Háskóla Íslands
Um haustið þetta ár eru 82 karlar og 2 konur skrásettir stúdentar við Háskóla Íslands.
Á háskólaárinu sem hefst um haustið þetta ár voru 20 stúdentar í guðfræðisdeild, þar af fjórir nýskrásettir.
Í læknadeild voru 33 stúdentar, þar af þrír nýskráðir, og meðal eldri læknastúdentanna var ein kona, Katrín Thoroddsen, og var hún önnur tveggja kvenna sem þá var í skólanum.
Í lagadeild voru flestir nýskráðra, alls tólf, af 26 stúdentum sem skráðir voru í deildina.
Í heimspekisdeild voru þá fimm stúdentar, tveir þeirra skráðu sig á árinu og varð annar þeirra síðar þjóðþekktur, Davíð Stefánsson, skáld, frá Fagraskógi, þá 24 ára gamall. Meðal eldri stúdentanna í deildinni var hin kvennanna tveggja sem þá voru í skólanum, Dýrleif Árnadóttir.
Fyrsta doktorsritgerðin
Páll Eggert Ólason lögfræðingur ver fyrstu doktorsritgerðina við Háskóla Íslands. Hann gegndi síðar embætti rektors skólans veturinn 1923-1924.