1918

Úr setningarræðu rektors Háskóla Íslands

Í Árbók Háskóla Íslands 1917-1918 víkur Ágúst H. Bjarnason rektor að heimsstyrjöldinni sem þá geisaði í Evrópu:

„Erlendis láta nú miljónir ungra manna lífið á vígvöllunum fyrir land sitt og þjóð. Hvers ætti þá að mega vænta af yður, sem lifið hjer í ró og næði og við tiltölulega litlar áhyggjur? Enginn krefst þess, að þjer deyjið fyrir ættjörð yðar, en þjer eigið að lifa fyrir hana og gera þjóð yðar sem besta og farsælasta. Það er bein siðferðisskylda yðar og þjer sverjið það síðar í embættisnafni að leggja yður alla fram til þessa.“

Íslensk skólamál færast að fullu í hendur innlendra stjórnvalda

Íslensk skólamál færast að fullu í hendur innlendra stjórnvalda þegar Ísland verður fullvalda ríki 1. desember. Þar sem sérstakir námsstyrkir til íslenskra stúdenta við Kaupmannahafnarháskóla voru þá lagðir af höfðu fæstir annan kost en að nema við Háskóla Íslands í þeim fjórum deildum sem þar voru í boði.

Fyrsta heiðursdoktorsnafnbótin

Björn M. Ólsen hlýtur fyrstur manna heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands hinn 17. júní. Björn var jafnframt fyrsti rektor Háskóla Íslands og var hann sæmdur nafnbótinni þegar hann lét af embætti. Heiðursdoktorsskjalinu fylgdi gullhringur frá samkennurum með mynd af stefi úr norrænni goðafræði, Iðunni með eplið.

Image
Björn M. Ólsen, háskólarektor