1969

Könnun gerð um áhuga á nýjum greinum við HÍ

Könnun gerð um haustið þar sem auglýst var eftir þátttakendum sem áhuga hefðu á að nema nýjar greinar við háskólann. Reyndust þeir alls vera 34. Í ljós kom að þau fög sem stúdentarnir tilvonandi höfðu langmestan hug á að nema voru félagsfræði, félagssálfræði og almenn sálarfræði en einnig vildu þeir tileinka sér sagnfræði og félagslega mannfræði. Aftur á móti reyndust fræðigreinar á borð við hagfræði, tölfræði, lögfræði og stjórnvísindi ekki falla undir áhugasvið þeirra.

Skýrslan „Efling Háskóla Íslands“ kemur út

Háskólanefnd skilar af sér mikilli skýrslu undir yfirskriftinni „Efling Háskóla Íslands“. Þar voru gerðar tillögur um framtíð háskólans. Fram að útgáfu háskólaskýrslunnar höfðu kennarar ekki skilgreinda rannsóknaskyldu.

Árnagarður tekinn í notkun

Embætti húsameistara ríkisins var falið að teikna og hanna húsið og Kjartan Sigurðsson arkitekt fékk það verkefni að gera teikningarnar. Á fundi háskólaráðs 23. febrúar 1967 var síðan samþykkt að húsinu skyldi gefið heitið Árnagarður. Framkvæmdir við byggingu Árnagarðs hófust árið 1967 og var húsið tekið í notkun um haustið 1969. Fór vígslan fram 21. desember það ár.

Fyrsti kvenprófessorinn

Margrét G. Guðnadóttir skipuð prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Margrét varð þar með fyrst kvenna til að gegna embætti prófessors við háskólann.

Image
Margrét G. Guðnadóttir, fyrst kvenna til að gegna embætti prófessors við háskólann.

Stúdentar taka þátt í kosningu rektors

Árið 1969 fengu stúdentar í fyrsta sinn rétt á að taka þátt í kosningu rektors. Í kosningu þeirra fékk Jóhann Axelsson, lífeðlisfræðingur og prófessor í læknadeild, flest atkvæði, en það nægði honum ekki til að fá rektorsstarfið. Í síðari umferð var kosið á milli Magnúsar Más Lárussonar og Magnúsar Magnússonar, og sigraði Magnús Már með atbeina stúdenta.

Image
Stúdentar að kjósa í rektorskosningum árið 1969