1968

Kennurum á sviði raunvísinda fjölgar

Kennurum og sérfræðingum á sviði raunvísinda fjölgar til muna með tilkomu BS-náms í raungreinum á árunum 1968-1970. Fram kom í ræðu rektors á háskólahátíð 1968 að stofnað hefði verið til kennslu í nýjum greinum innan verkfræðideildar, náttúrufræði, jarðfræði, landafræði og líffræði. Hann benti á að miðað væri að því að fjölga hæfum raunvísindakennurum í gagnfræðaskólum. Um leið var nafni deildarinnar breytt og hét hún nú verkfræði- og raunvísindadeild.

Félagsstofnun Stúdenta stofnuð

Félagsstofnun stúdenta stofnuð og hún tekur við rekstri Gamla-Garðs, Nýja-Garðs, Kaffistofu stúdenta í Aðalbyggingu, Bóksölu stúdenta, barnaheimilisins Efri-Hlíðar og Ferðaþjónustu stúdenta.

Félagsstofnun stúdenta var sett á stofn af Stúdentaráði og háskólaráði. Bygging og leiga á stúdentagörðum hefur verið eitt veigamesta verkefni Félags­stofnunar. Háskólaráð útvegaði Félagsstofnun lóðir undir stúdentagarða og leikskóla á háskólalóð en háskólaráð samþykkti byggingarframkvæmdirnar.

Norræna húsið vígt

Norræna húsið vígt 24. ágúst þetta ár. Húsið er eitt af síðustu verkum finnska arkitektsins Alvars Aalto.

Hluti Atvinnudeildarhússins kemur í hlut Háskólans

Hluti Atvinnudeildarhússins kemur í hlut háskólans og síðar húsið allt að undanskilinni efstu hæðinni sem Norræna eldfjallastöðin hafði til umráða. Þeir hlutar sem háskólanum tilheyrðu voru notaðir í þágu jarðfræði, landafræði og skyldra greina og kallaðist húsið því Jarðfræðahús.

Image
Atvinnudeildarhús Háskóla Íslands