1970

Nefndarálit um tengsl háskólans við rannsóknastofnanir og um stöðu vísindalegra starfsmanna

Nefnd á vegum háskólaráðs skilar af sér áliti með yfirskriftinni „Nefndarálit um tengsl háskólans við rannsóknastofnanir og um stöðu vísindalegra starfsmanna“. Þar var lögð áhersla á að kennslustöður við háskólann yrðu jafnframt rannsóknastöður, að akademískt hæfnismat yrði að liggja til grundvallar ráðningu á prófessorum og dósentum og að stefnt yrði að því að margvíslegar innlendar rannsóknastofnanir tengdust háskólanum og háskólakennslu.

Í álitinu var vísað til laga um Háskóla Íslands um að hann skyldi vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun og enn fremur að prófessorar, dósentar og lektorar skyldu ráðnir til kennslu og rannsókna.

Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum sett á laggirnar

Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum tekur til starfa. Ármann Snævarr, fyrrverandi rektor, beitti sér fyrir því að tekin yrði upp kennsla í hinni nýju fræðigrein. Barátta stúdenta fyrir auknum tækifærum til náms hafði líka mikið að segja um þessa þróun mála. Tók rektor fram við stjórnvöld að skortur væri á menntuðu fólki til að manna störf í félagslegri þjónustu sem verið var að skipuleggja í höfuðborginni á sjöunda áratugnum.

Kennsla í heimspekideild

Myndasyrpan er af kennurum og samstúdentum Pálma Jóhannessonar sem þá nam frönsku, sagnfræði og málvísindi veturinn 1969-1970. Pálmi tók myndirnar, en hann var síðar skrifstofustjóri verkfræðideildar í áratugi.