1971

Sprengja í fjölgun nemenda

Á árunum frá 1970-1975 varð sprengja í fjölgun nemenda við Háskóla Íslands. Á örfáum árum fjölgaði stúdentum um hvorki meira né minna en tæplega eitt þúsund manns. Komust þeir upp í tæplega 2.200 manns og var því um að ræða tæplega tvöföldun nemendafjöldans á aðeins fimm árum.

Nokkrar stofnanir á árinu við HÍ

Nokkuð margar stofnanir taka til starfa eða eru stofnaðar á árinu.

Málvísindastofnun Háskóla Íslands tekur til starfa undir nafninu Rannsóknastofnun í norrænum málvísindum. Hún varð hins vegar að Málvísindastofnun árið 1983.

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands stofnuð með reglugerð. Hún kallaðist fyrst Rannsóknastofnun í sagnfræði við heimspekideild Háskóla Íslands.

Rannsóknastofnun í bókmenntafræði stofnuð við heimspekideild. Nafni stofnunarinnar var síðar breytt í Bókmenntafræðistofnun og enn síðar í Bókmennta- og listfræðastofnun.

Kennaraskólinn breytist í Kennaraháskóla Íslands

Kennaraskólinn breytist í Kennaraháskóla Íslands með lögum og tekið var upp þriggja ára kennaranám á háskólastigi. Fyrsti rektor Kennaraháskólans var Broddi Jóhannesson. Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinuðust síðar árið 2008.

Lögberg undir lagadeild

Í mars árið 1969 ákvað háskólaráð að byggt skyldi á lóðinni á milli Aðalbyggingar og Nýja-Garðs og að hin nýja bygging yrði framtíðaraðsetur lagadeildar. Sumarið 1970 hófust byggingarframkvæmdir við Lögberg, fyrsta hæðin var tekin í notkun haustið 1971 og ári síðar húsið allt. Fyrsta samþykkta tillagan að nafngift hússins var Úlfljótsgarður en það hlaut að lokum nafnið Lögberg.

Image
Lögberg. Myndin er tekin árið 1978

Hátíðarsalur Lögbergs

Kennsla í hátíðarsal Lögbergs, stofu 101. Veggmynd eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara prýðir annan langvegg salarins. Myndir úr Handbók stúdenta 1991-1992.

Image
Kennsla í hátíðarsal Lögbergs, stofu 101. Veggmynd eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara prýðir annan langvegg salarins.

68 kynslóðin

Stúdentar voru jafnan búnir til að styðja hvers konar stefnumál sem þóttu róttæk. Á fundi á Lækjartorgi má hér lesa á spjöldum yfirlýsingar um stuðning við 50 sjómílna fiskveiðilandhelgi og kjarakröfur verkamanna.

Þegar „68-kynslóðin“ var áberandi í samfélaginu urðu til margar nýjar hugmyndir um hlutverk námsmanna. Námsmenn voru ekki lengur fyrst og fremst karlkyns og úr efri stéttum þjóðfélagsins heldur voru þeir nú af báðum kynjum, upprunnir úr flestum stéttum og gengu inn í háskólana með ólíkari hugmyndafræðilegan og félagslegan bakgrunn en forverar þeirra.

Óhefðbundin og pólitísk barátta stúdenta, grundvölluð í grasrótarstarfsemi, varð eitt af megineinkennum 68-hreyfingarinnar innan háskólanna. Átti hún eftir að móta Háskóla Íslands umtalsvert og setja sterkan svip á háskólalífið.

Image
Útifundur á Lækjartorgi, líklega 1971 eða 1972

Afhending Flateyjarbókar

Magnús Már Lárusson háskólarektor tekur við Flateyjarbók úr höndum Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra þann 21. apríl 1971.

Jón Finnson í Flatey gaf Brynjólfi Sveinssyni biskupi Flateyjarbók 1647 en biskup sendi hana Friðriki þriðji Danakonungi árið 1656. Fullar þrjár aldir var Flateyjarbók einn helsti kjörgripur Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, en gjafahringnum var lokað síðasta vetrardag 1971, þegar Helge Larsen menntamálaráðherra Dana afhenti hana Gylfa Þ. Gíslasyni menntamálaráðherra með orðunum "Vær så god! Flatøbogen."

Image
Magnús Már Lárusson háskólarektor tekur við Flateyjarbók úr höndum Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra þann 21. apríl 1971.

Stúdentaheimilið við Hringbraut opnað

Hús Félagsstofnunar stúdenta við Hringbraut, nú (2011) nefnt Stapi. Myndin er úr Handbók stúdenta 1991-1992.

Stúdentaheimilið í eigu Félagsstofnunar stúdenta gjörbreytti allri félagsaðstöðu stúdenta.

Image
Stúdentaheimilið við Hringbraut