1972
Háskólinn eignast Skólabæ við Suðurgötu
Háskólinn eignast Skólabæ við Suðurgötu þegar Jón E. Ólafsson hæstaréttarlögmaður og kona hans, Margrét Jónsdóttir, afhentu háskólanum húseign sína að gjöf. Mötuneyti háskólakennara var þar til húsa fram til 1988 þegar það var flutt í Tæknigarð. Í Skólabæ hafa einnig verið gestaíbúðir, skrifstofur og salur fyrir móttökur og smærri viðburði.
Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi komið á fót
Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi er komið á fót og tók hún yfir allt starf og eignir Handritastofnunar Íslands. Hafði stofnunin bæði sjálfstæðan fjárhag og sérstaka stjórn. Nafnbreytingin var gerð í samræmi við ákvæði í sáttmálanum milli Dana og Íslendinga um hvernig staðið yrði að afhendingu hluta hinna íslensku handrita frá Danmörku.
Stúdentar mótmæla heimsókn Williams Rogers
Stúdentar mótmæla heimsókn William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Árnagarði þar sem Handritastofnun er til húsa. Mótmælendum tókst að koma í veg fyrir heimsókn hans í Handritastofnunina.
Ljósmyndari: Guðjón Einarsson. Myndin er úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur.
Stúdentar mótmæla heimsókn Williams Rogers
Hér sjást stúdentar með mótmælaborða við inngang Árnagarðs.
Myndin birtist í Tímanum þann 4. maí 1972 með eftirfarandi myndatexta : „Móttökunefndin við Árnagarð. Yfir dyrum er fáni Þjóðfrelsisfylkingarinnar Víetnam. Mómælaborðar blasa við og ræða flutt í hátalara. Í andyrinu var hópur fólks, sem ákveðinn var í að hleypa ráðherranum og fylgdarliði ekki inn“.
VR-I tekið í notkun
VR-I tekið í notkun. Í byggingunni eru verklegar og bóklegar kennslustofur og skrifstofur. Arkitekt VR húsa Háskóla Íslands er Ulrik Arthúrsson.
VR-I
VR-I var tekið í notkun árið 1972.
Fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói
Frá baráttusamkomu stúdenta 1. desember 1972. – Tímamynd: Gunnar. Myndin er úr Þjóðminjasafni.
Fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói 1. desember 1972 var haldin undir kjörorðinu Gegn hervaldi – Gegn auðvaldi. Í frétt Tímans er tekið fram að forseti Íslands, Kristján Eldjárn, hafi setið samkomuna, einnig settur háskólarektor, Jónatan Þórmundsson. Álfheiður Ingadóttir stud. scient. setti samkomuna. Guðrún Hallgrímsdóttir matvælafræðingur, Ragnar Árnason þjóðfélagsfræðinemi og Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur héldu ræður.
Flutt var dagskrá úr gömlum Alþingistíðindum og fulltrúar erlendra stúdenta fluttu kveðjur. Ályktun um uppsögn herverndarsamningsins við Bandaríkin, úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og stækkun fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur var samþykkt með lófataki. Í lokin var sunginn alþjóðasöngur verkalýðsins, Internationalinn.
Matsala stúdenta
Matsala stúdenta hefur starfsemi, en hún breytti aðstöðu háskólaborgara töluvert.
Myndin er úr matsölu stúdenta sem þá var til húsa í byggingu Félagsstofnunar stúdenta við Hringbraut (sem nú er nefnd Stapi).