1982

Reglugerð um Stofnun í erlendum tungumálum gefin út

Reglugerð um Stofnun í erlendum tungumálum gefin út 4. október. Fyrsti forstöðumaður hennar var Alan Boucher, sem þá var einnig forseti heimspekideildar. Nafni stofnunarinnar var breytt í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum árið 2001.

Heimspekistofnun Háskóla Íslands sett á laggirnar

Heimspekistofnun Háskóla Íslands sett á laggirnar með reglugerð. Heimspekistofnun er rannsóknastofnun innan Háskóla Íslands á sviði heimspeki.

Lyfjabúð Háskóla Íslands stofnuð

1. september 1982 tekur Lyfjabúð háskólans við rekstri Reykjavíkur Apóteks, elstu lyfjabúðar landsins, sem var stofnsett árið 1760, opnuð í Nesstofu á Seltjarnarnesi 1763 en flutt til Reykjavíkur 1833. Hlutverk hennar var að starfrækja lyfjasölu og annast kennslu og rannsóknir í lyfjafræði lyfsala. Auk þess átti hún að sjá um framleiðslu lyfja og stuðla að framförum í lyfjafræði og lyfjagerð.

Frá 1930 var apótekið í leiguhúsnæði í Austurstræti 16. Í maí 1995 keypti háskólinn húsið af erfingjum Þorsteins Schevings Thorsteinssonar apótekara.

Jón Steffensen og Kristín Björnsdóttir ánafna húseign sína og bókasafn

Á háskólahátíð, 26. júní, var kunngert að Jón Steffensen, fyrrverandi prófessor, og kona hans, Kristín Björnsdóttir, hefðu ánafnað háskólabókasafni eftir sinn dag bókasafn sitt ásamt húseigninni Aragötu 3.