1985
Íslensk málstöð tekur til starfa
Íslensk málstöð tekur til starfa 1. janúar í samstarfi Háskóla Íslands og íslenskrar málnefndar. Starfsfólk málstöðvarinnar lagði í starfi sínu höfuðáherslu á tvo þætti, annars vegar almennt íslenskt mál og hins vegar íðorðastarf og rekstur orðabanka með orðaforða úr sérgreinum. Málstöðin veitti daglega málfarsráðgjöf í síma og tölvupósti, vann að gerð og útgáfu stafsetningarorðabóka, íðorðasafna og ýmiss konar leiðbeininga um mál og málnotkun í prentuðu og rafrænu formi.
Vísindanefnd háskólaráðs tekur til starfa
Vísindanefnd háskólaráðs tekur til starfa. Henni er ætlað að stuðla að markvissri rannsóknastarfsemi í Háskóla Íslands og standa fyrir umræðu um eðli og virkni rannsókna á hinum margvíslegu fræðasviðum. Vísindanefndin er ein af starfsnefndum háskólaráðs og er ráðgefandi fyrir ráðið. Nefndin starfar í nánum tengslum við rannsóknasvið háskólans sem er eitt af framkvæmdasviðum stjórnsýslu skólans.
Háskólaráð stofnar kynningarnefnd
Háskólaráð kemur kynningarnefnd á fót þetta ár.
HÍ gert kleift að hagnýta rannsóknir
Þetta ár fær háskólinn heimild til að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu. Með þessu var skólanum gert kleift að hagnýta rannsóknir sem gerðar eru á hans vegum.
Fyrsta íslenska ráðstefnan á sviði kvennafræða haldin
Fyrsta íslenska ráðstefnan á sviði kvennafræða haldin við Háskóla Íslands um haustið. Í lok þessa árs, þ.e. sama árs og fyrsta kvennafræðiráðstefnan var haldin við Háskóla Íslands, eða árið 1985, lögðu þingkonur Kvennalistans ásamt nokkrum fleiri þingkonum fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarp ársins um að einni milljón króna yrði varið til styrktar kvennarannsóknum. Tillagan fékkst ekki samþykkt við fyrstu tilraun en var lögð fram aftur ári síðar og var þá samþykkt af Alþingi.
Tækjakaupasjóði komið á fót
Tækjakaupasjóði komið á fót. Samkvæmt núgildandi reglum sjóðsins er tilgangur hans að efla rannsóknir og kennslu við háskólann. Rektor skipar þriggja manna stjórn sjóðsins samkvæmt tilnefningu vísindanefndar, kennslumálanefndar og fjármálanefndar. Sjóðurinn skiptist í sérhæfðan tækjakaupasjóð og verkefnabundinn tækjakaupasjóð.
Kaffistofan í Odda opnuð
Kaffistofan í Odda opnuð á vegum Félagsstofnunar stúdenta.