1986

75 ára afmæli Háskólans

Myndasyrpan hér fyrir neðan er frá 75 ára afmælishátíð Háskóla Íslands sem haldin var í Háskólabíó.

Háskóli Íslands 75 ára

Heimildarmynd sem gerð var árið 1986, í tilefni af 75 ára afmæli Háskóla Íslands

Félagsvísindastofnun tekur til starfa

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands tekur til starfa. Markmið stofnunarinnar hefur frá upphafi verið að efla félagsvísindi á Íslandi með því að annast hagnýtar og fræðilegar rannsóknir, auk þess að kynna almenningi gagnsemi rannsókna á sviði félagsvísinda.

Fyrsta tilraun hérlendis með fjarkennslu

Gerð er fyrsta tilraun hérlendis með fjarkennslu í formi gagnvirks sambands í sjónvarpi við Háskóla Íslands.

Í marsmánuði 1986 fór fram hin fyrsta tilraun hérlendis með fjarkennslu í því formi að haft væri gagnvirkt samband við fólk á Akureyri.

Hlýtur heiðursdoktorsnafnbót fyrst kvenna

Anna Sigurðardóttir, stofnandi og þáverandi forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, hlýtur, fyrst kvenna, heiðursdoktorsnafnbót við heimspekideild Háskóla Íslands. Við sama tækifæri var Margrét Þórhildur Danadrottning sæmd heiðursdoktorsnafnbót við háskólann.

Image
Anna Sigurðardóttir, stofnandi og þáverandi forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, hlýtur, fyrst kvenna, heiðursdoktorsnafnbót við heimspekideild Háskóla Íslands.

Rannsóknaþjónusta Háskólans stofnuð

Rannsóknaþjónusta Háskólans tekur til starfa. Meginmarkmiðið er að stuðla að eflingu samstarfs atvinnulífs og skóla. Rannsóknaþjónustan leitast við að styrkja tengsl Háskóla Íslands og atvinnulífs á sviði rannsókna, nýsköpunar og hæfnisuppbyggingar. Tilgangur þessara tengsla er að veita íslensku atvinnulífi stuðning á sem flestum sviðum og styrkja um leið starfsemi Háskóla Íslands. Á starfsvettvangi Rannsóknaþjónustunnar er áhersla lögð á þekkingu, nýsköpun og alþjóðlegt samstarf.

Image
Starfsfólk Rannsóknaþjónustu Háskólans árið 1986

Handritasérfræðingar virða fyrir sér Konungsbók Eddukvæða

Handritasérfræðingar virða fyrir sér blöð úr Konungsbók Eddukvæða, einhverju merkasta skinnhandriti norrænu, í tilefni af væntanlegri útgáfu handritsins tengdri 75 ára afmæli Háskóla Íslands þetta ár.

Image
Handritasérfræðingar virða fyrir sér Konungsbók Eddukvæða

Eðlisfræðingur við störf sín á Raunvísindastofnun

Þorsteinn Sigfússon eðlisfræðingur við störf sín á Raunvísindastofnun 1986. Á myndinni sést tölvustýrt neistaskurðtæki til sýnagerðar í þéttefnisfræði, smíðað á stofnuninni. Ljósmynd - Ævar Jóhannesson - Úr afmælisriti Raunvísindastofnunar 1986.

Myndin er tekin á 20. starfsári Raunvísindastofnunar og þar sést Þorsteinn Sigfússon eðlisfræðingur við störf sín.

Image
Þorsteinn Sigfússon eðlisfræðingur við störf sín á Raunvísindastofnun 1986

Menntastofnun við HÍ stofnuð í tilefni af aldarafmæli Sigurðar Nordals

Menntastofnun við Háskóla Íslands stofnuð í tilefni af aldarafmæli Sigurðar Nordals prófessors 14. september þetta ár. Hlutverk hennar var að efla hvarvetna í heiminum rannsóknir og kynningu á íslenskri menningu að fornu og nýju og tengsl íslenskra og erlendra fræðimanna á því sviði. Stofnunin, sem síðar fékk nafn Sigurðar Nordals, er nú hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Stofa Sigurðar Nordals, eða alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er til húsa í Þingholtsstræti 29.

Image
Sigurður Nordal