1989
Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands stofnuð
Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands stofnuð þetta ár. Hún sá um formleg samskipti skólans við erlenda háskóla, samninga þar að lútandi, stúdenta- og kennaraskipti. Með samningi sem undirritaður var árið 1992 tók Háskóli Íslands jafnframt að sér rekstur Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, þar sem skrifstofunni var falið að sinna alþjóðasamskiptum íslenska háskólastigsins alls. Í tengslum við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins er rekin Upplýsingaþjónusta um nám erlendis. Hún hefur m.a. umsjón með Erasmus- og Nordplus-skiptiáætlununum.
Vinnumatssjóður stofnaður
Vinnumatssjóður stofnaður þetta ár. Sjóðurinn umbunar félagsmönnum sem sýnt hafa árangur í rannsóknum í samræmi við mat á ritverkum þeirra. Birtar greinar og rit eru metin til stiga og fari afköst yfir tiltekin mörk öðlast viðkomandi hlutdeild í vinnumatssjóði í samræmi við stigafjölda. Sjóðurinn hefur frá upphafi stuðlað að verulega aukinni ritvirkni háskólamanna og hefur gert þeim hægara um vik að draga úr vinnu utan háskólans til að geta í auknum mæli einbeitt sér að rannsóknum.
Efna- og líftæknihúsið byggt á Keldnaholti
Efna- og líftæknihúsið byggt á Keldnaholti. Því var ætlað að skapa vettvang fyrir rannsóknir og þróunarstarfsemi í líftækni.
Stofnanir á árinu
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands stofnuð með reglugerð dagsettri 28. mars þetta ár.
Einnig er Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands stofnuð 8. júní þetta ár með reglugerð settri af menntamálaráðuneytinu.
Vetrargarður tekinn í notkun
Vetrargarður fullbúinn, nýr stúdentagarður á vegum Félagsstofnunar stúdenta, með 90 íbúðum.
Brautskráning Háskóla Íslands
Myndin er frá brautskráningu Háskóla Íslands, myndin er sennilega tekin árið 1989. Rektor tekur í hönd nýútskrifaðs kandídats.
Prúðbúinn kandídat tekur við skírteini úr hendi Sigmundar Guðbjarnasonar, rektors við brautskráningarathöfn háskólans.
Stjórnsýsla Háskóla Íslands
Stjórnsýsla Háskóla Íslands 8. desember 1989. Neðst á myndinni frá vinstri eru: Stefán Sörensson háskólaritari, Sigmundur Guðbjarnason rektor, Guðlaugur Tryggvi Karlsson póstmeistari og sendill, og Erla Elíasdóttir aðstoðarháskólaritari.