1988

Kennslumálasjóður Háskóla Íslands stofnaður

Kennslumálasjóður Háskóla Íslands stofnaður. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að nýmælum í kennsluháttum og endurbótum á kennslu við háskólann, þ.m.t. að stuðla að þróun á kennslu, kennslumati og gæðakerfi kennslu.

Rannsóknastofu í siðfræði komið á fót

Rannsóknastofa í siðfræði á vegum Háskóla Íslands og Þjóðkirkjunnar komið á fót með reglugerð 23. september þetta ár.

Stúdentaskiptiáætlanir

Háskóli Íslands hefur þátttöku sína í stúdentaskiptaáætluninni Nordplus. Hún miðar að því að Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin verði eitt menntasvæði. Í því felst að stúdentum er gert kleift að stunda hluta af námi sínu við annan háskóla í þessum löndum og fá námið metið til eininga heima fyrir. Íslendingar fengu aðild að Erasmus áætlun Evrópusambandsins um menntasamstarf á háskólastigi árið 1991.

Háskólaútgáfan sett á laggirnar

Háskólaútgáfan sett á laggirnar af háskólaráði í apríl þetta ár. Fyrstu níu árin voru gefin út um 120 rit á hennar vegum. Háskólaútgáfan er mikilvirkur útgefandi fræði- og kennslurita eftir kennara og sérfræðinga skólans, auk þess sem hún hefur umsjón með ýmsum útgáfuverkum háskólans.

Upplýsingastofa um nám erlendis stofnuð

Upplýsingastofa um nám erlendis stofnuð við Háskóla Íslands og komið fyrir í húsakynnum Félagsstofnunar stúdenta. Háskólanum var veittur fjárstyrkur til að reka upplýsingastofuna, sem veitti upplýsingar um námsmöguleika erlendis. Upplýsingastofan var rekin af Háskóla Íslands en þjónaði öllu landinu.

Röskva stofnuð sem framboð gegn Vöku

Röskva stofnuð í febrúar þetta ár þegar tvær hreyfingar, Félag vinstri manna og Umbótasinnar, ákváðu að leiða saman hesta sína í sameiginlegu framboði gegn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta.

Tæknigarður tekinn í notkun

Tæknigarður tekinn í notkun. Tæknigarður var fljótlega fullnýttur af sprotafyrirtækjum og ýmsum stofnunum Háskólans. Tæknigarður átti að vera vettvangur nýrra hugmynda og tækifæra í upplýsinga- og tölvutækni því að framfarir voru örar í tölvutækni og sjálfvirkni á þessum tíma. Jafnframt var Reiknistofnun háskólans og Endurmenntunarstofnun háskólans til húsa í Tæknigarði.

Í afmælisriti, sem gefið var út í tilefni 20 ára afmælis Tæknigarðs, er getið um 77 fyrirtæki sem þar hafa starfað. Af þeim eru um 30 fyrirtæki enn starfandi, um 30 hafa hætt starfsemi og önnur hafa sameinast öðrum fyrirtækjum. Arkitektar Tæknigarðs eru Ormar og Örnólfur.

Hugmyndasamkeppnin Upp úr skúffunum

Rannsóknaþjónusta Háskólans stóð í fyrsta skipti að hugmyndasamkeppninni Upp úr skúffunum í samvinnu við ýmsa aðila sem styðja verkefnið fjárhagslega. Vísindamenn og stúdentar skólans senda inn hagnýt rannsóknaverkefni en veitt eru verðlaun fyrir þrjú verkefni. Eftir að verkefnið Upp úr skúffunum fór af stað hefur sprotafyrirtækjum sem stofnuð hafa verið innan háskólans fjölgað til muna.

Nú kallast keppnin Hagnýtingarsamkeppnin og er samstarfsverkefni Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, Tæknigarðs, Einkaleyfastofu og umboðsskrifstofunnar Árnason/Faktor. Markmið hennar er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir sem til hafa orðið við rannsóknir innan skólans og Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Myndasyrpan hér fyrir neðan er frá 2000.

Rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands hefur starfsemi

Rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði opnuð formlega í mars þetta ár. Tengsl hennar við Háskóla Íslands hafa verið með sérstökum samningum. Þar hafa verið stundaðar rannsóknir á ýmsu krabbameini en brjóstakrabbamein hefur verið stærsta viðfangsefnið. Rannsóknastofan var stofnuð í kjölfar þjóðarátaks Krabbameinsfélagsins í ársbyrjun 1987.

Myndin er tekin mun seinna, eða árið 1996. Á myndinni eru:

  • Stefán Þ, Sigurðsson (aftast t.v.)
  • Guðrún Valdimarsdóttir (fyrir framan Stefán)
  • Hólmfríður Hilmarsdóttir
  • Gunnar Bjarni Ragnarsson
  • Hilmar Viðarsson (fremst)
  • Jóruynn E. Eyfjörð
  • Sigfríður Guðlaugsdóttir
  • Helga M. Ögmundsdóttir
  • Steinunn Sveinsdóttir (fremst)
  • Steinunn Tjhorlacius
  • Rut Valgarðsdóttir (fyrir framan Ágústu)
  • Ágústa Þóra Jónsdóttir (efst t.h.)
  • Sólveig Grétardsottir (fremst).
Image
Starfsfólk Rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands árið 1996