Header Paragraph

Uglan er tvítug

Image
Samsett mynd af Uglunni. Notendum hefur fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin og þar sem Uglan er aðgangsstýrð og hver og einn notandi með sína eigin Uglu má segja að það séu um 55.000 uglur á sveimi í háskólasamfélaginu á Íslandi.

Uglan, innri vefur Háskóla Íslands, er tvítug í dag en hún var fyrst tekin í notkun 21. september 2001 í Háskóla Íslands. Hún hefur síðan haldið í útrás og þjónar nú fimm háskólum á Íslandi. Notendum hefur fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin og þar sem Uglan er aðgangsstýrð og hver og einn notandi með sína eigin Uglu má segja að það séu um 55.000 uglur á sveimi í háskólasamfélaginu á Íslandi.

Uglan, sem fyrst hét því lýsandi nafni vefkerfi Háskóla Íslands, hefur tekið nokkrum breytingum á þessum tveimur áratugum. Hún er safn af kerfum og tólum sem stúdentar og starfsfólk nýtir sér við nám og störf en jafnframt hafsjór upplýsinga um allt sem viðkemur skólanum: skipulag, viðburði, tilkynningar og fréttir af samfélaginu okkar. Svo má ekki gleyma SmáUglunni – appinu sem ekkert okkar ætti á láta fram hjá sér fara!

Uglan tengist merki Háskóla Íslands á skemmtilegan hátt því að í grískri goðafræði var Aþena, sem er í merki Háskóla Íslands, með uglu á öxlinni. Uglan var sögð sýna Aþenu það sem hún sá ekki sjálf og þannig færa henni sannleikann. Uglan hefur einnig verið tákngervingur visku og þekkingar og það á sannarlega einnig við Uglu Háskólans sem hefur deilt visku sinni með háskólasamfélaginu í kassanum „Uglan segir“ á hverjum degi frá því í janúar 2013.

Líkt og oft áður klæðir Uglan sig upp í tilefni afmælisins og tekur á móti afmæliskveðjum á Facebook-síðu sinni.