
Ingibjörg Ólafsdóttir var hótelstjóri Radisson Sas Hótel Sögu frá 2012 allt til lokunar árið 2020 og því síðasti hótelstjóri hótelsins. Í dag starfar Ingibjörg hjá Háskóla Íslands og vinnur meðal annars að undirbúningi flutnings Menntavísindasviðs og fleiri starfseininga í Sögu en óhætt er að segja að fáir þekki bygginguna og sögu Sögu jafn vel.
„Ég fylgdi með kaupunum,“ segir Ingibjörg brosandi og segist spennt fyrir því að fá að koma vonandi að framhaldsrekstri í húsinu og að því að halda á lofti sögu og menningu hússins. „Segja má að Hótel Saga hafi ekki einungis verið hótel heldur menningarstofnun, þar sem alls konar starfsemi fór fram. Á þessum tíma var þetta fyrsta stóra hótelið sem opnaði. Loftleiðir er opnað stuttu síðar, svo Hótel Esja. Upphaflega hugmyndin að Hótel Sögu var að vera afdrep fyrr bændur þegar þeir kæmu í bæinn, sem svo varð að þessu stóra húsi og því yfirleitt kölluð Bændahöllin.
Hótel Saga var opnuð árið 1962 og hönnuð af Halldóri H. Jónssyni arkitekt, sem er kunnur höfundur þjóðþekktra bygginga í Reykjavík á þessum tíma. Þess ber að geta að nýlega kom út samnefnt bókverk um byggingar sem hann teiknaði, þar á meðal Hótel Sögu. Byggingin hafði sögulegt og menningarlegt gildi á svo margan hátt. Bæði var þetta fyrsta stóra hótelið í bænum auk þess sem Halldór bæði hannaði hótelið og valdi öll húsgögnin og var undir miklum áhrifum hönnunar Royal hótelsins í Kaupmannahöfn sem er hannað af Arne Jakobsen.“
Hvernig var andrúmsloftið á Hótel Sögu í upphafi?
„Þetta var eina hótelið sem gat hýst erlent fyrirfólk. Hingað komu þjóðhöfðingjar og listamenn og gistu í forsetasvítunni sem var sú glæsilegasta á þeim tíma. Þetta var á sjöunda áratugnum, glamúr og síðkjólar. Kóngar og drottningar Norðurlanda- og Evrópuþjóða gistu á Sögu og fjöldinn allur af listafólki. Á meðal þeirra sem gistu á Hótel Sögu voru Ella Fitzgerald, Louis Armstrong, tónlistarmaðurinn Prince og Leonard Cohen gisti hér reglulega svo það er mikil listasaga í þessu húsi.“
Súlnasalurinn var opnaður fyrst, svo Grillið skömmu síðar og Átthagasalurinn í kjölfarið. Grillið var opið frá sjö á morgnana til ellefu á kvöldin. Á þessum tíma var ekki mikil samkeppni í veitingageiranum, Naustið var starfandi á Vesturgötu, svo Grillið var kærkomin viðbót við veitingaflóruna. Yfirleitt voru um tíu til tólf þjónar á vakt á Grillinu í einu og þar voru allar opinberar veislur haldnar meira og minna, allt þar til Hilton opnaði að sögn Ingibjargar.
„Það fór heilmikið nám hér fram á Hótel Sögu. Þótt það hafi ekki verið akademískt nám líkt og stefnt er að í húsinu næst þá fór heilmikill skóli hér fram. Hótel Saga var eitt af þeim hótelum sem lagði mikið upp úr fagmennsku og hér störfuðu nánast eingöngu faglærðir þjónar og kokkar. Gríðarlega margir nemar fóru í gegnum hótelið og lærðu hér. Þegar horft er yfir veitingahúsaflóruna hér á landi þá sést að margir lykilstarfsmanna á hótelum í dag lærðu á Hótel Sögu. Hér hafa orðið til hjónabönd og hér hafa þrjár kynslóðir starfað. Mikil fjölskyldustemning hefur ríkt í húsinu en ávallt lögð gríðarleg áhersla á fagmennsku. Það má því segja að í þessari byggingu hafi verið mikil uppspretta nýrrar þekkingar.“