Header Paragraph

Börnin okkar og sjálfsstjórnin

Image
Steinunn Gestsdóttir

Börn og sjáfsstjórn

Steinunn Gestsdóttir, dósent í þroskasálfræði við Háskóla Íslands, rannsakar hvernig börn stjórna hugsun og hegðun og fjallar um hvaða gildi sjálfsstjórnin hefur fyrir þau.

Steinunn Gestsdóttir, dósent í þroskasálfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, er einn viðmælenda í vísindaröðinni Fjársjóður framtíðar en rannsóknir hennar snúast meðal annars um sjálfstjórn barna.

Sjálfstjórn lýsir hæfni fólks til að stjórna, breyta eða halda aftur af eigin tilfinningum, hugsun eða hegðun og hefur verið áberandi rannsóknarefni innan þroskaskálfræðinnar síðasta áratug. Börn taka miklum framförum í sjálfstjórn á leikskólaaldri og mikilvægt að þau hafi tileinkað sér sjálfstjórn þegar þau hefja grunnskólanám. Slík færni gerir þeim til dæmis kleift að halda athygli í fjölmennum bekk, muna og nýta sér leiðbeiningar við úrlausn verkefna og halda aftur af hegðun.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi slíkrar færni við upphaf skólagöngu fyrir gott gengi í skóla síðar, bæði í grunn- og framhaldsskóla, jafnvel eftir að tekið hefur verið tillit til fyrra gengis í skóla, greindar og fleiri mikilvægra þátta. Á sama tíma benda erlendar rannsóknir til að stór hluti barna sem hefja grunnskólanám hafi ekki öðlast þá sjálfstjórn sem þarf til að takast á við kröfur skólaumhverfisins. Rannsóknir á sjálfstjórn íslenskra leik- og grunnskólabarna eru komnar skammt á veg en Steinunn lýsir meðal annars rannsóknum sínum og samstarfsaðila hennar á sjálfstjórn fjögurra til átta ára barna, og þá sérstaklega hvort sjálfstjórn barna við upphaf grunnskólagöngu hafi forspárgildi fyrir gengi í skóla síðar meir.

Að auki fjalla rannsóknir Steinunnar um þær breytingar sem verða á sjálfstjórn á unglingsárum en mun minna er vitað um sjálfstjórnarfærni á þeim aldri. Ungmenni öðlast flókna sjálfstjórnargetu sem gerir þeim kleift að horfa fram á við og taka ígrundaðar ákvarðanir um líf sitt með það fyrir augum að bæta sig eða framtíð sína. Talið er að sjálfstjórn hafi sérstakt vægi fyrir æskilega þroskaframvindu á þessum tíma líkamlegs, sálfræðilegs og félagslegs þroska, sem reynist sumum ungmennum erfiður.