Header Paragraph

Eru álfar kannski menn?

Image
Terry Gunnell

Álfar og þjóðtrú

Þjóðfræði kemur við sögu í vísindaþættinum Fjársjóður framtíðar þar sem við heyrum hljóðið í Terry Gunnel, prófessor í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Hann segir frá rannsóknum á viðhorfum fólks til álfa og huldufólks. Þrátt fyrir talsverðar samfélagsbreytingar á undanförnum árum virðist fólk enn trúa á álfa, drauma og fylgjur.

Terry Gunnell er sérfróður um íslenska álfa, þjóðsögur og alþýðumenningu og býr ekki einungis yfir mikilli þekkingu á þessum sviðum heldur hefur hann einstaka frásagnargáfu.

Íslendingar vilja ekki afneita tilvist álfa

„Ný könnun okkar á þjóðtrú Íslendinga hefur sýnt að hún er jafnsterk og hún var fyrir þrjátíu árum. Íslendingar vilja enn ekki afneita tilvist álfa,“ segir Terry. „Trú á drauga, hugboð og drauma er samt ennþá sterkari.“

Terry, sem er fæddur í Bretlandi, kemur heldur betur við sögu í nýrri þáttaröð um rannsóknir innan Háskóla Íslands. Hann hóf að rannsaka íslenska þjóðsiði og þjóðtrú í sambandi við doktorsritgerð um flutning eddukvæða eftir að hann flutti til Íslands með konu sinni árið 1979. Árið 2007 gaf hann út 800 síðna bók um dulbúningasiði á Norðurlöndunum og stýrði einnig áðurnefndri könnun á þjóðtrú og trúarviðhorfum Íslendinga.

Vaxandi áhugi á þjóðfræði

Sú námsleið sem Gunnell fer fyrir, þjóðfræðin, er í hópi þeirra sem hvað mest hafa vaxið í Háskóla Íslands síðustu misserin.

Terry hefur kennt námskeið um norræna trú, skandinavíska og keltneska þjóðfræði, íslenskar þjóðsögur, hátíðir og leiki, og leiklist. Í vetur kennir hann námskeið um íslenska þjóðfræði, menningu og sjálfsmynd sem er ætlað fyrir erlenda skiptinema. „Útlendingar hafa sérstakan áhuga á íslenskum fornbókmenntum og þjóðfræði,“ segir Terry. „Fólk vill vita hvað það er sem gerir Íslendinga að Íslendingum.“

Terry segir að áhugi á þjóðfræði í Háskóla Íslands hafi farið sívaxandi á undanförnum árum. „Fjöldi nýnema hjá okkur hefur nærri fjórfaldast síðan 1998. Segja má að menn séu farnir að átta sig á að fagið fjallar ekki bara um gamla bændur að kveða rímur. Þjóðfræði lifir góðu lífi í dag í kvikmyndunum sem við horfum á, í veggjakrotinu í kringum okkur, í rokktónlistinni sem við hlustum á og í þeim sögum sem við segjum á krám,“ segir Terry.

Að sögn Terrys Gunnell heyrir þjóðfræði í senn til hug- og félagsvísinda, enda fjalla þjóðfræðingar jöfnum höndum um aðstæður fólks og samfélag á hverjum tíma og svo tjáningu þess, listfengi og fagurfræði hversdagsins. Gunnell segir að á meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar séu sögur og sagnir, heimilis- og atvinnuhættir, trú og tónlist, siðir og venjur, hátíðir og leikir, auk klæðnaðar og matarhátta.

„Í þjóðfræðinni er áhersla lögð á hvernig fólk mótar líf sitt og umhverfi við kringumstæður sem það hefur ekki mótað sjálft og hvernig fólk lifir í samfélagi hvert við annað í þeim margvíslegu hópum sem það tilheyrir,“ segir Terry Gunnell.

Þess má geta að Konunglega sænska alþýðumenningarakademían veitti Terry Gunnell, sérstaka viðurkenningu fyrir nokkru fyrir framlag hans til rannsókna á sviði þjóðsagna og dulbúningasiða. Gunnell fékk verðlaunin úr sjóði kenndum við Jöran Sahlgren. Sjóðurinn verðlaunar vísindamenn fyrir framúrskarandi fræðimennsku í norrænum örnefnafræðum, mállýskum og þjóðsögum. Konunglega sænska alþýðumenningarakademían var stofnuð árið 1932 en meginhlutverk hennar er að efla rannsóknir og útgáfu rita á sviði alþýðumenningar.

Í fyrra kom út bókin The Hidden People of Iceland sem Terry skrifaði ásamt teiknaranum og samlanda sínum Brian Pilkington. Í bókinni, sem er ætluð fyrir erlenda ferðamenn, birtist málverk af Terry í klæðum íslensks víkings. „Vinur minn kvartaði hástöfum yfir því að Brian væri að falsa sögu Íslands með því að gefa í skyn að ræfilslegir Bretar hefðu komið hingað meðal víkinga,“ segir Terry og hlær.