Header Paragraph

„Gæluverkefnið“ hi.is orðið 30 ára

Image
Magnús Gíslason og elsta skjáskot sem varðveist hefur af vef Háskóla Íslands. Samsett mynd

Um þessar mundir eru 30 ár síðan vefur Háskóla Íslands fór loftið en hann er jafnframt fyrsti vefurinn sem opnaður var á Íslandi eftir því sem næst verður komist.

Netið er í dag orðið svo samofið lífi okkar, hvort sem er í gegnum tölvurnar okkar, símana eða önnur tæki, að mörgum þykir eflaust sem það hafi alltaf verið til. Það er þó hins vegar ekki alveg þannig því hugmyndin á bak við tölvunet til samskipta er ekki nema rúmlega 50 ára gömul og varð til innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna á sjöunda áratug síðustu aldar.

Fyrsta nettengingin á Íslandi kom hins vegar ekki fyrr en um tveimur áratugum síðar, um 1986, en hún var við evrópskt net sem kallaðist EUnet og átti sér stað að tilstuðlan starfsmanna Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Þessar tvær stofnanir áttu einnig fyrstu .is-lénin ásamt Orkustofnun en lénin hafro.is, hi.is og os.is eru enn virk í dag.

Þarna var netið eins og við þekkjum það í dag þó ekki komið til sögunnar og engar eiginlegar vefsíður sem miðluðu upplýsingum á netinu eða veraldarvefnum (World Wide Web) eins og það hét í uppafi. Það gerðist ekki fyrr en árið 1989 þegar breski tölvunarfræðingurinn Sir Tim Berners-Lee, sem er oft nefndur faðir veraldarvefsins og starfaði þá hjá CERN í Sviss, setti fram hugmyndir um það að gera upplýsingar aðgengilegar á Netinu með því að nota “Hypertext” (HTML) skjöl. Berners-Lee gerði forrit sín aðgengileg öllum og þau sóttu starfsmenn Reiknistofnunar Háskóla Íslands, sem nú heitir upplýsingatæknisvið HÍ, og fóru að fikta sig áfram og m.a. skoða frumstæða vefsíðu CERN.

„Á þessum tíma var alþjóðlegt samskiptakerfi, kallað Usenet, þar sem fólk gat skipst á skoðunum um ýmis málefni og einnig dreift hugbúnaði. Berners-Lee dreifði WWW-hugbúnaði sínum þarna og ég sótti hann og setti hann upp í nóvember 1992. Eftir það hefur HÍ átt heimasíðu,“ segir Magnús Gíslason, deildarstjóri á upplýsingatæknisviði, um upphaf þessa fyrsta vefjar HÍ og á Íslandi.

Titill
Magnús Gíslason

Text

„Reyndar höfðu ýmsir litla trú á vefnum á sínum tíma og töldu hann ekki vera annað en gæluverkefni kerfisstjóra en upplýsingakerfi ættu að byggja á öðrum kerfum, sem í dag heyra reyndar fortíðinni til,“ segir Magnús Gíslason, deildarstjóri á upplýsingatæknisviði, í grein í fréttabréfi Reiknistofnunar frá árinu 2002, þegar 10 ár voru liðin frá stofnun vefsins.

Image
Image
Magnús Gíslason, deildarstjóri á Upplýsingatæknisviði

Biblíuleit og ættfræði

Aðspurður hvað hafi drifið starfsfólk Reiknistofnunar áfram í þessu verki segir Magnús að annað kerfi og ófullkomnara, Gopher, hafi verið í notkun að einhverju leyti á þessum tíma og ýmsir vildu að það yrði notað áfram. „Við kerfisstjórarnir og nokkrir fleiri starfsmenn RHÍ sáum fljótt að það væri meiri framtíð í WWW, ekki síst fyrir nemendakerfi HÍ,“ rifjar Magnús upp en þess má geta að hann sótti fyrstu alheimsráðstefnuna um vefinn í CERN 1994 og þar hitti hann m.a. Tim Berners-Lee í eigin persónu.

Þessi fyrsta vefsíða skólans, eða upplýsingakerfi eins og hún var kölluð, er því miður ekki til en að sögn Magnúsar stóð líklega aðeins „Velkomin á veraldarvef HÍ“ á henni. „Á næstu mánuðum voru settar inn ýmsar upplýsingar og rafrænn aðgangur að ýmsum gögnum. Það sem ég man best eftir er leit í Biblíunni og ættfræðivefur,“ segir Magnús enn fremur.

Tölvueign var ekki eins útbreidd í samfélaginu fyrir 30 árum og nú en að sögn Magnúsar gátu nemendur og starfsfólk, sem hafði aðgang að tölvu, skoðað vefinn með vafra sem nefndist Mosaic. „Auk þess allir sem tengdir voru við netið, einkum starfsmenn rannsóknarstofnana. Þá var hann svo sem aðgengilegur öllum sem tengdir voru netinu um allan heim. Þá má heldur ekki gleyma grunnskólanum á Kópaskeri sem var brautryðjandi í upplýsingatækni í grunnskólum og fyrsti nettengdi grunnskólinn á Íslandi,“ bendir Magnús enn fremur á.

Elsta varðveitta útgáfan frá 1994

Elsta varðveitta útgáfan af vef HÍ er frá árinu 1994. Eins og sjá má hér að neðan er hún ansi frábrugðin þeirri síðu sem mætir fólki þegar það slær inn hi.is á netinu í dag. „Upplýsingakerfi Háskóla Íslands er hluti af World Wide Web sem er alþjóðlegt, dreift upplýsingakerfi á Internet,” gátu þau lesið sem komust á netið fyrir 28 árum.

Titill
Árdagar internetsins

Text

Elsta skjáskot sem varðveist hefur af vef Háskóla Íslands, frá árinu 1994.

Image
Image
Elsta varðveitta skjáskot af vef Háskóla Íslands, frá 1994

Í fréttabréfi Reiknistofnunar frá árinu 2002, þegar 10 ár voru liðin frá stofnun vefsins, rifjaði Magnús upp þessi miklu tímamót í stuttri grein en þar kemur m.a. fram að vefmælingar, eða upplýsingasöfnun um notkun vefsins, hafi hafist haustið 1993 „og fyrsta heila mánuðinn sem upplýsingar eru til um (desember 1993) voru 1547 síður sóttar á vefþjóninn og voru gögnin samtals rúm 2 MB.“ Til samanburðar má geta þess að í nóvember í ár voru síðuskoðanir (e. Pageviews) á vef Háskólans hátt í 400 þúsund.

Ekki höfðu allir trú á vefnum

Í fréttabréfinu frá 2002 bendir Magnús einnig á að margir hafi lýst undrun sinni á því að vefur HÍ sé ekki eldri en þetta og hafi jafnvel sjálfir talið að þeir hafi notað hann miklu lengur. „Reyndar höfðu ýmsir litla trú á vefnum á sínum tíma og töldu hann ekki vera annað en gæluverkefni kerfisstjóra en upplýsingakerfi ættu að byggja á öðrum kerfum, sem í dag heyra reyndar fortíðinni til,“ segir Magnús m.a. í greininni.

Titill
1996-1997

Text

Vefur Háskóla Íslands árið 1996.

Image
Image

Óhætt er að segja að umrætt „gæluverkefni“ hafi vaxið og dafnað á undanförnum 30 árum en vefurinn þjónar nú bæði verðandi og núverandi nemendum og starfsfólki, samstarfsaðilum skólans og reyndar almenningi öllum sem sækir ýmsan fróðleik á hi.is. Það sama má segja um veraldarvefinn, en talið er að þar séu nú á annan milljarð vefsíðna sem flestir notendur nálgast nú í gegnum símana í stað stórra borðtölva. Aðspurður segir Magnús það hafa komið honum á óvart hversu hratt netið hefur vaxið. „Maður átti ekki von á því að nánast allir yrðu með nettengd tæki í vasanum í dag eins og snjallsíma,“ segir hann að endingu.

Fréttin birtist fyrst á vef Háskóla Íslands 2. desember 2022.