
Um þessar mundir eru 30 ár síðan vefur Háskóla Íslands fór loftið en hann er jafnframt fyrsti vefurinn sem opnaður var á Íslandi eftir því sem næst verður komist.
Netið er í dag orðið svo samofið lífi okkar, hvort sem er í gegnum tölvurnar okkar, símana eða önnur tæki, að mörgum þykir eflaust sem það hafi alltaf verið til. Það er þó hins vegar ekki alveg þannig því hugmyndin á bak við tölvunet til samskipta er ekki nema rúmlega 50 ára gömul og varð til innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna á sjöunda áratug síðustu aldar.
Fyrsta nettengingin á Íslandi kom hins vegar ekki fyrr en um tveimur áratugum síðar, um 1986, en hún var við evrópskt net sem kallaðist EUnet og átti sér stað að tilstuðlan starfsmanna Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Þessar tvær stofnanir áttu einnig fyrstu .is-lénin ásamt Orkustofnun en lénin hafro.is, hi.is og os.is eru enn virk í dag.
Þarna var netið eins og við þekkjum það í dag þó ekki komið til sögunnar og engar eiginlegar vefsíður sem miðluðu upplýsingum á netinu eða veraldarvefnum (World Wide Web) eins og það hét í uppafi. Það gerðist ekki fyrr en árið 1989 þegar breski tölvunarfræðingurinn Sir Tim Berners-Lee, sem er oft nefndur faðir veraldarvefsins og starfaði þá hjá CERN í Sviss, setti fram hugmyndir um það að gera upplýsingar aðgengilegar á Netinu með því að nota “Hypertext” (HTML) skjöl. Berners-Lee gerði forrit sín aðgengileg öllum og þau sóttu starfsmenn Reiknistofnunar Háskóla Íslands, sem nú heitir upplýsingatæknisvið HÍ, og fóru að fikta sig áfram og m.a. skoða frumstæða vefsíðu CERN.
„Á þessum tíma var alþjóðlegt samskiptakerfi, kallað Usenet, þar sem fólk gat skipst á skoðunum um ýmis málefni og einnig dreift hugbúnaði. Berners-Lee dreifði WWW-hugbúnaði sínum þarna og ég sótti hann og setti hann upp í nóvember 1992. Eftir það hefur HÍ átt heimasíðu,“ segir Magnús Gíslason, deildarstjóri á upplýsingatæknisviði, um upphaf þessa fyrsta vefjar HÍ og á Íslandi.