Header Paragraph

Handritin og þjóðararfurinn

Image
Handrit skoðuð á Árnastofnun

Handritin

Hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru handrit þjóðarinnar varðveitt. Sigurgeir Steingrímsson, rannsóknardósent við stofnunina, segir frá sérstöðu handritanna í sögu og menningu þjóðarinnar. Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent og stofustjóri handritasviðs, bendir m.a. á að íslensku handritin teljist til heimsbókmennta. Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, segir að safn stofnunarinnar sé eign mannkyns. Það sé einstakt og nú aðgengilegt öllum þar sem það sé komið á Netið.

Handritin eru andlegur menningararfur

„Handrit eru andlegur menningararfur sem er mikilvægt að varðveita,” segir Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknardósent við Háskóla Íslands um handritin sem tekin verða sérstaklega fyrir í vísindaþáttaröðinni Fjársjóður framtíðar. Í lokaþættinum ræðum við sérstaklega við samstarfsmenn Guðvarðar Más, m.a. þau Guðrúnu Nordal, forstöðumann stofnunar Árna Magnússonar, og Sigurgeir Steingrímsson, vísindamann á sömu stofnun

„Handritasafn Árna Magnússonar í Reykjavík og Kaupmannahöfn geymir ómetanleg handrit um sögu og menningu Norðurlanda, og raunar stórs hluta Evrópu, allt frá miðöldum til nýaldar, og eru Íslendingasögurnar dæmi um þau verk á heimsvísu sem handritin geyma. Í safninu eru um 3.000 handrit frá miðöldum og síðari öldum. Ákvörðun UNESCO um að setja handritasafn Árna Magnússonar á varðveisluskrá sína vekur t.d. athygli á mikilvægi handritanna í alþjóðlegu samhengi og sýnir að þau eiga erindi við heiminn allan og eru í raun og veru hluti af menningararfi veraldar. Handritin veita ómetanlega sýn á líf fólks og hugsanir á fyrri öldum.”

Guðvarður Már segir að handritin, og textarnir sem þau geymi, séu mikilvægir hlekkir í sjálfsmynd Íslendinga sem þjóðar. Hann bendir á að stundum sé sagt að þau komi í stað veglegra bygginga frá fyrri öldum sem séu minnisvarðar um liðna tíð í mörgum Evrópulöndum.

„Tímarnir breytast og mennirnir með og þess vegna má e.t.v. halda því fram að viðhorf Íslendinga til handritanna hafi að einhverju leyti breyst frá því að handritamálið stóð sem hæst upp úr miðri 20. öld, en ekki endilega á þann veg að mikilvægi þeirra í menningu okkar hafi minnkað. Mikilvægi þeirra gæti hafa aukist vegna þess að þau verða sífellt þekktari erlendis og margir erlendir ferðamenn skoða handritasýningu Árnastofnunar og sífellt fleiri erlendir stúdentar leggja stund á íslensk fræði og handritafræði þar með,” segir Guðvarður Már.

Handritin eru hagnýt

Vefsvæðið handrit.is hreppti Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru á Nýsköpunarmessu HÍ í fyrra. Undirtitill verkefnisins er: Rannsóknargagnagrunnur og samskrá um íslensk og norræn handrit. Markmið með Hagnýtingarverðlaununum er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir sem kviknað hafa innan Háskólasamfélagsins.

Vefsvæðið handrit.is er hugmynd frá Sigurgeir Steingrímssyni, vísindamanni á Árnastofnun, Erni Hrafnkelssyni, forstöðumanni handritadeildar Landsbókasafns og Matthew Driscoll, forstöðumanni Árnastofnunar í Kaupmannahöfn. Í þættinum Fjársjóður framtíðar heyrum við einmitt í Sigurgeiri þar sem hann sýnir okkur fáeina dýrgripi úr safni Stofnunar Árna Magnússonar.

Verkefnið er á sviði norrænna fræða og er nútíma gagnagrunnur um íslensk og norræn handrit. Beitt er nútímatækni sem tengir saman ólíkar upplýsingar á nýstárlegan hátt. Hægt er að taka handrit og tengja við upplýsingar af ólíkum toga m.a. staðsetningar og landfræðilegar og fornleifafræðilegar upplýsingar. Auk þess má leika sér með handritin í grunninum, bæta við eigin texta, athugasemdum, nýta myndskreytingar og raða ólíkum atriðum saman að vild. Gagnagrunnurinn verður hvort tveggja tæki til fræðilegra athugana og persónulegt verkfæri til eigin sköpunar og uppgötvana. Með vefnum eru handritin gerð aðgengileg öllum.

Dróttkvæðin einstakar heimildir

„Dróttkvæðin eru einstakar heimildir um samtíma sinn og hafa ekki verið aðgengileg í greinargóðri og handhægri nútímaútgáfu,“ segir Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessor við Íslensku- og menningardeild við Háskóla Íslands.

Við ræðum við Guðrúnu um mikilvægi handritanna í vísindaþættinum Fjársjóður framtíðar.

Guðrún vinnur nú að heildarútgáfu á dróttkvæðum allt frá 9. öld til um 1400 ásamt alþjóðlegum hópi fræðimanna sem hafa eins og hún, sérþekkingu á íslenskum fornbókmenntum.

„Bókmenntalegt gildi dróttkvæðanna er auðvitað óumdeilt,“ segir Guðrún, „en kvæðin eru einnig mikilvægar heimildir um trúarviðhorf, hugmyndaheim, táknmál, og skáldskaparhefð á fyrri tímum og nýtast því ýmsum ólíkum fræðasviðum.“ Dróttkvæði tilheyra annarri helstu skáldskapargrein norrænna manna, en eddukvæðin eru af hinni greininni; en tengsl greinanna eru þó svo náin á miðöldum að jafnvel er villandi að greina þær að. Mörgum eru töm þau kvæði sem eignuð eru Agli Skallagrímssyni og ort eru undir dróttkvæðum háttum:

Ǫlvar mik, þvít Ǫlvi
ǫl gerir nú fǫlvan,
atgeira lætk ýrar
ýring of grǫn skýra;
ǫllungis kannt illa,
oddskýs, fyr þér nýsa,
rigna getr at regni,
regnbjóðr, Hávars þegna.

Þessa vísu á Egill að hafa í veislu Bárðar í Atley, og margir vitna til.

Guðrún segir að ný útgáfa dróttkvæða sé byggð á traustum vísindalegum aðferðum og hafi í för með sér endurskoðun á varðveislu vísnanna, skáldskaparmáli og því nýjan skilning á stíl dróttkvæðanna:

„Að baki útgáfunni liggur vönduð textafræðileg rannsókn, til að tryggja að texti kveðskaparins verði traustur. Með hverri vísu mun fylgja fjölbreytt skýringarefni, sem byggt verður á nýjustu rannsóknum, m.a. verður gerð grein fyrir varðveislu hverrar vísu, lesbrigðum og samhengi vísunnar, auk þess sem hver vísa verður þýdd á ensku og skýrð rækilega,“ segir Guðrún, og bætir við: „Einnig verður gerð rafræn útgáfa sem á eftir að nýtast mörgum.“ Vinna að útgáfunni hófst fyrir um 10 árum þegar fimm fræðimenn komu saman til að hefja flókna skipulagningu verksins; en að útgáfunni sjálfri munu koma um fjörutíu fræðimenn alls staðar að úr heiminum.

Benda má á að á mjög öflugri heimasíðu útgáfunnar, sem er nokkurs konar gagnaveita, er safnað saman ýmsum gagnlegum upplýsingum, m.a. myndum af þeim handritum sem geyma vísurnar, sem nýtast þeim sem vinna að útgáfunni – og einnig öðrum áhugasömum um dróttkvæðan kveðskap.

Guðrún segir að hartnær heil öld sé liðin frá því Finnur Jónsson gaf út stórmerka útgáfu sína á dróttkvæðum árin 1912 til 1915. „Frá þeim tíma hafa verið unnin mikil þrekvirki í útgáfu texta sem geyma dróttkvæði, auk þess sem rannsóknir fræðimanna hafa umbylt eldri vísnaskýringunum, og því var það endurmat sem fylgir nýrri útgáfu orðið löngu tímabært,“ segir Guðrún. Nýja fræðilega heildarútgáfan mun koma út í níu bindum. Fyrsta bindið sem kom fyrir sjónir manna árið 2007 geymir trúarlegan kveðskap, næsta bindi er væntanlegt á þessu ári, og þannig koma þau út koll af kolli á næstu árum hjá Brepols útgáfunni.

Í útgáfustjórn verkefnisins eru, auk Guðrúnar, fimm fræðimenn sem starfa í ýmsum löndum, Margaret Clunies Ross, Kari Ellen Gade, Edith Marold, Tarrin Wills og Diana Whaley, og skipta þau með sér fræðilegri umsjón og ritstjórn einstakra binda. En öll útgáfustjórnin er einnig virk í fræðilegri ritstjórn hvers bindis. Guðrún hefur yfirumsjón með útgáfu þess kveðskapar sem varðveittur er í Íslendingasögum, Sturlungu, Landnámu og biskupasögum og birtast mun í 4. og 5. bindi útgáfunnar.

Guðrún Nordal hefur skrifað mikið um það efni sem tengist nýju útgáfunni, og má nefna bókina Tools of Literacy sem kom út hjá University of Toronto Press þar sem fjallað var um hlutverk dróttkvæði í lærdómshefð 12. og 13. aldar. Í nýjustu rannsóknum sínum hefur hún fjallað um kveðskap í Íslendingasögunum öllum en einnig um hlutverk kveðskapar í stökum sögum eins og Njálu, Egils sögu og Eyrbyggju.