
Handritin eru andlegur menningararfur
„Handrit eru andlegur menningararfur sem er mikilvægt að varðveita,” segir Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknardósent við Háskóla Íslands um handritin sem tekin verða sérstaklega fyrir í vísindaþáttaröðinni Fjársjóður framtíðar. Í lokaþættinum ræðum við sérstaklega við samstarfsmenn Guðvarðar Más, m.a. þau Guðrúnu Nordal, forstöðumann stofnunar Árna Magnússonar, og Sigurgeir Steingrímsson, vísindamann á sömu stofnun
„Handritasafn Árna Magnússonar í Reykjavík og Kaupmannahöfn geymir ómetanleg handrit um sögu og menningu Norðurlanda, og raunar stórs hluta Evrópu, allt frá miðöldum til nýaldar, og eru Íslendingasögurnar dæmi um þau verk á heimsvísu sem handritin geyma. Í safninu eru um 3.000 handrit frá miðöldum og síðari öldum. Ákvörðun UNESCO um að setja handritasafn Árna Magnússonar á varðveisluskrá sína vekur t.d. athygli á mikilvægi handritanna í alþjóðlegu samhengi og sýnir að þau eiga erindi við heiminn allan og eru í raun og veru hluti af menningararfi veraldar. Handritin veita ómetanlega sýn á líf fólks og hugsanir á fyrri öldum.”
Guðvarður Már segir að handritin, og textarnir sem þau geymi, séu mikilvægir hlekkir í sjálfsmynd Íslendinga sem þjóðar. Hann bendir á að stundum sé sagt að þau komi í stað veglegra bygginga frá fyrri öldum sem séu minnisvarðar um liðna tíð í mörgum Evrópulöndum.
„Tímarnir breytast og mennirnir með og þess vegna má e.t.v. halda því fram að viðhorf Íslendinga til handritanna hafi að einhverju leyti breyst frá því að handritamálið stóð sem hæst upp úr miðri 20. öld, en ekki endilega á þann veg að mikilvægi þeirra í menningu okkar hafi minnkað. Mikilvægi þeirra gæti hafa aukist vegna þess að þau verða sífellt þekktari erlendis og margir erlendir ferðamenn skoða handritasýningu Árnastofnunar og sífellt fleiri erlendir stúdentar leggja stund á íslensk fræði og handritafræði þar með,” segir Guðvarður Már.
Handritin eru hagnýt
Vefsvæðið handrit.is hreppti Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru á Nýsköpunarmessu HÍ í fyrra. Undirtitill verkefnisins er: Rannsóknargagnagrunnur og samskrá um íslensk og norræn handrit. Markmið með Hagnýtingarverðlaununum er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir sem kviknað hafa innan Háskólasamfélagsins.
Vefsvæðið handrit.is er hugmynd frá Sigurgeir Steingrímssyni, vísindamanni á Árnastofnun, Erni Hrafnkelssyni, forstöðumanni handritadeildar Landsbókasafns og Matthew Driscoll, forstöðumanni Árnastofnunar í Kaupmannahöfn. Í þættinum Fjársjóður framtíðar heyrum við einmitt í Sigurgeiri þar sem hann sýnir okkur fáeina dýrgripi úr safni Stofnunar Árna Magnússonar.
Verkefnið er á sviði norrænna fræða og er nútíma gagnagrunnur um íslensk og norræn handrit. Beitt er nútímatækni sem tengir saman ólíkar upplýsingar á nýstárlegan hátt. Hægt er að taka handrit og tengja við upplýsingar af ólíkum toga m.a. staðsetningar og landfræðilegar og fornleifafræðilegar upplýsingar. Auk þess má leika sér með handritin í grunninum, bæta við eigin texta, athugasemdum, nýta myndskreytingar og raða ólíkum atriðum saman að vild. Gagnagrunnurinn verður hvort tveggja tæki til fræðilegra athugana og persónulegt verkfæri til eigin sköpunar og uppgötvana. Með vefnum eru handritin gerð aðgengileg öllum.
Dróttkvæðin einstakar heimildir
„Dróttkvæðin eru einstakar heimildir um samtíma sinn og hafa ekki verið aðgengileg í greinargóðri og handhægri nútímaútgáfu,“ segir Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessor við Íslensku- og menningardeild við Háskóla Íslands.
Við ræðum við Guðrúnu um mikilvægi handritanna í vísindaþættinum Fjársjóður framtíðar.
Guðrún vinnur nú að heildarútgáfu á dróttkvæðum allt frá 9. öld til um 1400 ásamt alþjóðlegum hópi fræðimanna sem hafa eins og hún, sérþekkingu á íslenskum fornbókmenntum.
„Bókmenntalegt gildi dróttkvæðanna er auðvitað óumdeilt,“ segir Guðrún, „en kvæðin eru einnig mikilvægar heimildir um trúarviðhorf, hugmyndaheim, táknmál, og skáldskaparhefð á fyrri tímum og nýtast því ýmsum ólíkum fræðasviðum.“ Dróttkvæði tilheyra annarri helstu skáldskapargrein norrænna manna, en eddukvæðin eru af hinni greininni; en tengsl greinanna eru þó svo náin á miðöldum að jafnvel er villandi að greina þær að. Mörgum eru töm þau kvæði sem eignuð eru Agli Skallagrímssyni og ort eru undir dróttkvæðum háttum: