Header Paragraph

Hrunið og siðferðisbrestir

Image
Salvör Nordal

Hrunið og siðferði

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, fjallar um siðfræði í íslensku samfélagi fyrir hrun. Hún talar um nauðsyn þess að vera meðvitaður um eigið samfélag. Hún gerir hugtakinu „samfélagsleg skylda“ einnig skil en Salvör var í hópi á vegum Rannsóknarnefndar Alþingis sem skoðaði starfshætti íslenska fjármálakerfisins fyrir hrun.

Siðferði og hrun

Siðferðisleg gildi hafa gjarnan verið tengd umræðunni um hrunið og fall bankanna. Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, var valin í þriggja manna vinnuhóp sem lagði mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum hefði að einhverju leyti mátt finna í starfsháttum og siðferði. Salvör ræðir þetta í vísindaröðinni Fjársjóður framtíðar.

Hópurinn sem Salvör starfaði í, greindi hvaða gildi eða siðferði hafi legið til grundvallar hjá þeim sem voru leiðandi í fjármálastarfseminni, hvort siðferðileg viðmið og siðareglur hér á landi hafi verið frábrugðnar þeim sem gildi í nágrannalöndunum og huga að menntun æðstu stjórnenda á þessu sviði. Salvör segist vona að þessi vinna muni auka vitund um siðferði í viðskiptalífinu og mikilvægi siðfræði í viðskiptamenntun.

Í vinnuhópnum sátu auk Salvarar þau Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra. Skýrsla hópsins var hluti af lokaskýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis um orsök á falli íslensku bankanna, og studdist vinnuhópurinn við sömu lög og rannsóknarnefndin.