
Eftir nærri þrjátíu ára starf við uppbyggingu Háskólaútgáfunnar og virka þátttöku í félags- og kjaramálum starfsfólks Háskóla Íslands er Jörundur Guðmundsson að láta af störfum. Hann kveður skólann þakklátur og sáttur og segist ekki hræddur um framtíð fræðibóka, útgáfustarf Háskólaútgáfunnar, sem er önnur stærsta bókaútgáfa landsins, geti orðið einn þáttur í eflingu Háskólans til framtíðar.
Háskólaútgáfan er nú til húsa í kjallara Aðalbyggingar en hefur í gegnum árin verið á ýmsum stöðum í Vesturbænum. Útgáfan sérhæfir sig í að gefa út fræðibækur í samstarfi við vísindamenn Háskóla Íslands en útgáfa slíkra bóka lýtur alla jafna ströngum alþjóðlegum mælikvörðum við miðlun þekkingar og birtingu rannsóknaniðurstaðna. Háskólaútgáfan hefur einnig gefið út ýmsar bækur sem tengjast starfsemi HÍ á einhvern hátt, eins og sögu Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands, en líka efni fyrir og í samstarfi við aðra háskóla á Íslandi og stofnanir tengdar Háskóla Íslands.
Á annað þúsund titlar gefnir út
Jörundur, sem er heimspekingur að mennt, kom til starfa við Háskólaútgáfuna árið 1994 en hann hafði þá starfað við útgáfumál hjá bæði Birtingi og Svart á hvítu. „Þórður Kristinsson hafði komið útgáfunni á fót en lítið verið gefið út. Ég hafði þá þegar öðlast átta ára reynslu af bókaútgáfu og hann beitti sér fyrir því ásamt öðrum að ég yrði fenginn til þess að koma útgáfunni í varanlegan farveg og skapa þannig alvöru bókaútgáfu fyrir Háskóla Íslands,“ segir Jörundur um upphaf starfa sinna fyrir Háskólaútgáfuna.
Aðspurður segir segir hann starfið innan útgáfunnar hafa þróast mikið á þessum tíma líkt og starf skólans almennt. „Lengi vel var ekki mikill skilningur á því að til þess að reka góða útgáfu þyrfti aukin stöðugildi. Árangur af óritstýrðri útgáfu var ekki góður en með auknum skilningi á þörfinni tókst að koma á virkri ritstjórn og ritrýni. Ég tel í dag að krafan um sjálfbærni útgáfunnar hafi þá verið of mikil og gjaldtaka fyrir unnin verk á kostnað höfunda hafi reynst okkar höfundum of íþyngjandi. Engu að síður hefur tekist að koma út a.m.k. 1.200-1.300 titlum á þessum tíma og í raun hefur útgáfan lengst af verið önnur stærsta útgáfa landsins, en fæstir vitað af því,“ segir Jörundur en bækur Háskólaútgáfunnar eru á mjög fjölbreyttum fræðasviðum.