Baðherbergið í Aðalbyggingu

Í Háskóla Íslands eru mýmargar stofur, herbergi, salir og kompur. Flest eru þessi rými eftir bókinni, hefðbundnar kennslustofur eins og þeim er ætlað að vera, salirnir settlegir eins og sölum einum er lagið og kompurnar eins og kompur eiga að sér að vera. Þær eru og verða ávallt út undan í samfélagi vistarveranna.

En svo koma þessi dásamlegu frávik sem gera lífið nógu spennandi til að fara á fætur á morgnana. Flestir stúdentar við Háskóla Íslands kannast eflaust við það að vera á vappi um háskólagrundirnar í ákafri leit að kennslustofu eða fyrirlestrasal. Í miklu tímahraki er svo lokið upp áður óþekktum dyrum og maður segir kannski í forundran þegar inn er komið: „Hvað er nú þetta eiginlega?“ Er nema von að sé spurt þegar við blasir flísalagt baðherbergi þar sem margur gæti ætlað að væri kennslustofa í allri sinni dýrð.

Aðalbygging Háskóla Íslands er hönnuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara seint á þriðja áratug síðustu aldar en hún var vígð árið 1940. Baðherbergið óvænta er í kjallara Aðalbyggingarinnar. Þetta er bað af þeim toga sem margir myndu stoltir sýna í tímaritinu Húsi og híbýlum. Þarna er munstur í mósaíkflísum, baðkar með sturtu, jafnvel motta á gólfi og útskorið sápustykki á baðvasksbríkinni. Baðherbergið var hluti af húsvarðaríbúð hér áður fyrr.

Brynhildur Brynjólfsdóttir, betur þekkt sem Bimma á Nemendaskránni, þekkir Háskóla Íslands betur en flestir. Ekki er nóg með að Bimma hafi unnið rösk þrjátíu ár í háskólanum heldur bjó hún einnig í hartnær áratug í gömlu húsvarðaríbúðinni í Aðalbyggingunni. „Þetta var eins og járnbrautarstöð eftir að við fluttum hingað. Það var mikill gestagangur og kaffi á boðstólum allan daginn. Pabbi þekkti alla í háskólanum og svo kom okkar fólk líka í heimsókn.“

Bimma segir að gott álit annarra á híbýlum fjölskyldunnar hafi gert það að verkum að hún fór að njóta þess enn meira að búa undir þaki Aðalbyggingarinnar. Bimma hannaði útlit baðsins á sínum tíma og valdi til að mynda snotrar flísar baðherbergisins og baðaði líka unga dóttur sína í karinu. Það hafa ekki margir alist upp í háskóla í orðsins fyllstu merkingu!

Titill
Baðherbergið

Text

Bimma á baðherberginu sem hún hannaði sjálf.

Image
Image
Brynhildur Brynjólfsdóttir, Bimma í baðherberginu í kjallaraíbúð Aðalbyggingarinnar. Hún valdi sjálf flísarnar.