Lögbergsdómur

Lögberg er ein af þekktari byggingum Háskóla Íslands, hvílir á milli Nýja-Garðs og Háskólatorgs og hýsir jafnt lögfróða kennara sem lögþyrsta stúdenta. Í Lögbergi kennir ýmissa grasa, allt frá bóksölu Úlfljóts, sem er í kjallara byggingarinnar, yfir í lesstofu lögfræðinema. Hún er líklega með þaulsetnari lesstofum á háskólasvæðinu. Ekki má gleyma rúsínunni í pylsuendanum, dómsalnum sjálfum.

Inni á milli kennslustofa, fyrirlestrasala og kontóra er sum sé fullbúinn réttarsalur í Lögbergi. Þar geta stúdentar mátað bláu skikkjurnar, kankast á við skjólstæðinga sína og flutt sýndarmál sem annaðhvort enda með sýknu eða sekt. Þá eru brögð að því að stúdentar setji á svið fræg dómsmál úr samtímanum.

Lagastúdínan Brynhildur Bolladóttir segir dómsalinn gegna mikilvægu hlutverki í sínu laganámi. „Þegar námið er algjörlega að buga mig læðist ég inn í réttarsalinn, máta bláu skikkjuna og læt mig dreyma um að ég sé að flytja stórt prófmál fyrir Hæstarétti. Á meðan fylgist þjóðin öll með og hugsar: Hvaða stúlka er þetta með brúnu krullurnar sem lætur ekkert stöðva sig? Við þetta hellist lærdómsandinn aftur yfir mig.“

Titill
Brynhildur Bolladóttir

Text

„Þegar námið er algjörlega að buga mig læðist ég inn í réttarsalinn, máta bláu skikkjuna og læt mig dreyma um að ég sé að flytja stórt prófmál fyrir Hæstarétti,“ segir Brynhildur Bolladóttir.

Image
Image
Brynhildur Bolladóttir