2001

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði stofnað

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði formlega stofnað 30. nóvember þetta ár. Meginviðfangsefni fræðasetursins eru rannsóknir á sviði umhverfismála og náttúruverndar, einkum í tengslum við ferðaþjónustu og starfsemi á friðlýstum svæðum. Við setrið eru einnig stundaðar rannsóknir á jöklum og loftslagsbreytingum, bókmenntum og listum og í þjóðfræði.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum sett á laggirnar

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Stofnunin var sett á laggirnar í október 2001 í tengslum við 90 ára afmæli Háskóla Íslands og evrópska tungumálaárið. Stofnunin ber nafn Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, og hefur hún notið mikilvægrar liðveislu hennar í uppbyggingarstarfi sínu.

Borgarfræðasetur tekur til starfa

Borgarfræðasetur tekur til starfa en það starfaði samkvæmt samstarfssamningi milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Borgarfræðasetur var sjálfstæð rannsóknastofnun sem gekkst fyrir rannsóknum á sviðum borgarfræða m.a. með samanburði borgar- og byggðaþróunar á Íslandi og í öðrum löndum.

Sagnanetið opnað

Sagnanetið opnað 2. júlí þetta ár. Sagnanetið er samvinnuverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Cornell-háskóla í Bandaríkjunum með þátttöku Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Sagnanetið veitir aðgang um Netið að stafrænum myndum af u.þ.b. 240.000 blaðsíðum handrita og um 153.000 blaðsíðum prentaðra rita.

90 ára afmæli Háskóla Íslands

Efnt til sérstakrar afmælisviku í byrjun október, 90 árum eftir að kennsla hófst í Háskóla Íslands. Stúdentar hleyptu af stokkunum þjóðarátaki í þágu Háskólans, Morgunblaðið gaf út veglegan blaðauka um sögu Háskólans og stöðu hans í íslensku samfélagi og Sjónvarpið sýndi heimildamyndina, „...ábyrgðin á framtíð þjóðar vorrar...“ Úr sögu Háskóla Íslands, sem gerð var í tilefni afmælisins.

Rektor Háskóla Íslands boðaði til Háskólahátíðar í Háskólabíói föstudaginn 5. október. Páll Skúlason rektor flutti ávarp og Björn Bjarnason menntamálaráðherra flutti hátíðarræðu. Síðan flutti Þorvarður Tjörvi Ólafsson formaður Stúdentaráðs einnig ávarp. Rektorar háskóla í menningarborgum Evrópu árið 2000, sem voru heiðursgestir Háskóla Íslands á 90 ára afmæli skólans, tóku þátt í Háskólahátíðinni. Viðurkenningar voru veittar starfsmönnum Háskóla Íslands og veittar voru sex heiðursdoktorsnafnbætur.

Ýmsum afmælum fagnað við HÍ

Á árinu var ýmsum stórafmælum innan Háskólans fagnað, auðvitað 90 ára afmæli skólans sjálfs og 90 ára afmæli heimspekideildar.

  • 60 ára afmæli viðskipta- og hagfræðideildar
  • 50 ára afmæli kennslu í uppeldis- og kennslufræði fyrir kennaraefni
  • 40 ára afmæli Háskólabíós
  • 30 ára afmæli sálfræðikennslu við háskólann
  • 30 ára afmæli Háskólakórsins
  • 25 ára afmæli félagsvísindadeildar
  • 25 ára afmæli kennslu í sjúkraþjálfun
  • 20 ára afmæli kennslu í félagsráðgjöf
  • 20 ára afmæli Námsráðgjafar Háskólans
  • 15 ára afmæli Stofnunar Sigurðar Nordals
  • 10 ára afmæli Rannsóknastofu í kvennafræðum

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands tekur til starfa

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands formlega stofnuð 31. ágúst þetta ár en hafði þá raunar starfað í um tvö ár. Upphaf Kennslumiðstöðvar má rekja til verkefnahóps um fjarkennslu sem var settur á laggirnar að tilstuðlan Páls Skúlasonar, þáverandi rektors. Árið 1998 veitti menntamálaráðuneytið Háskóla Íslands fjárframlag til eflingar upplýsingatækni innan skólans.