Nemendum við Háskóla Íslands fjölgar
Nemendum við Háskóla Íslands hefur fjölgað um tæp fjörutíu prósent frá árinu 1998. Fjöldi skráðra nemenda háskólaárið árið 2003 var 8.225 og þar af voru konur 61,2%.
Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands sett á laggirnar
Sérstök stofnun fræðasetra Háskóla Íslands sett á laggirnar sem rannsókna- og þjónustustofnun sem heyrir undir háskólaráð. Stofnunin heldur utan um starfsemi fræða- og rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni sem eru faglega sjálfstæðar einingar. Stofnunin er vettvangur samstarfsverkefna háskólans og sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga á landsbyggðinni.
Rannsóknasetur um smáríki opnað
Rannsóknasetur um smáríki formlega opnað við fjölmenna athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands 3. júlí. Setrið starfar innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og fer sameiginleg stjórn með málefni þeirra. Meginmarkmið setursins er að auka rannsóknir og fræðslu í smáríkjafræðum.
Endurskipulagning Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands hófst í kjölfar undirbúnings að stofnun Rannsóknaseturs um smáríki haustið 2001. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun og vettvangur fyrir þverfaglegt samstarf á sviði alþjóðamála og smáríkjarannsókna.