2013

Stúdentakjallarinn opnaður á ný

Stúdentakjallarinn var opnaður í nýrri viðbyggingu Háskólatorgs 17. janúar.

Stúdentakjallari hafði ekki verið rekinn síðan gamli stúdentakjallarinn var til húsa í kjallara byggingar Félagsstofnunar stúdenta við Hringbraut (í húsinu sem nú er nefnt Stapi). Hann var vinsæll samkomustaður stúdenta og starfsfólks háskólans meðan hans naut við. Starfsemin þar lagðist af árið 2007.

Hann er opinn frá morgni til kvölds alla daga vikunnar og þar er aðstaða fyrir tónleika, fundi og annað félagslíf stúdenta. Staðurinn er jafnframt veitingastaður og kaffihús á daginn. Félagsstofnun stúdenta stóð fyrir framkvæmdinni og rekur kjallarann.

Image
Stúdentakjallarinn fyrir opnun í janúar 2013

Hola íslenskra fræða

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að Húsi íslenskra fræða 12. mars þetta ár. Húsið stendur á lóð Háskóla Íslands við Brynjólfsgötu, vestan Suðurgötu við hlið Þjóðarbókhlöðunnar. Í húsinu verða m.a. ýmis sérhönnuð rými fyrir  varðveislu, rannsóknir og sýningar á skinnhandritunum, kennslu og fleira.

Byrjað var að grafa fyrir grunni að húsinu. Grunnurinn stóð lengi auður, eða til ársins 2019, þegar framkvæmdir hófust að nýju. Gárungarnir nefndu svæðið því Holu íslenskra fræða.

Fyrsta doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði

Pacifica Florence Achieng Ogola frá Kenía varði doktorsritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði 15. febrúar 2013. Doktorsvörnin markar tímamót því Pacifica er fyrst til að ljúka doktorsnámi í þessu þverfaglega námi við Háskóla Íslands og jafnframt fyrsta manneskjan frá Afríku sem brautskráist sem doktor frá skólanum.

Ritgerð Pacificu ber titilinn „Afl til breytinga: Notkun jarðhita til aukningar lífsgæða sem og aðlögunar og mildunar loftlagsbreytinga“ (e. The  power to change: creating lifeline and mitigation-adaptation opportunities through geothermal energy utilization). Í rannsókninni kannaði hún möguleg áhrif af nýtingu jarðhita á samfélagsþróun, sjálfbærni og aðlögun að loftslagsbreytingum innan ramma Þúsaldarmarkmiðanna á tveimur landsvæðum i Sigdalnum mikla í Kenía (Marigat og East Pokot-héraði innan Baringo-láglendisins).

Image
Pacifica Florence Achieng Ogola ver doktorsritgerð sína 15. febrúar 2013.